07.03.1932
Neðri deild: 22. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það vill oft verða svo, þegar harðnar í ári og kreppir að og greiðslugeta minnkar, að menn fara að rumska til skilnings á því, að hollast er að búa sem mest að sínu. Það er því ekki nema eðlilegt, að á slíkum tímum snúist hugir manna að því að draga sem mest úr kaupum á erlendum vorum, ekki sízt, þegar hægt er að framleiða þær í landinu sjálfu, eins góðar eða betri. Þeirri fjárhæð, sem greidd er fyrir slíkar vörur út úr landinu, er í rauninni að mestu á glæ kastað að óþörfu. Svo er um fjárhæð þá, sem hingað til hefir verið greidd árlega fyrir aðfluttar kartöflur. Að vísu hefir dregið nokkuð úr þessum innflutningi hin síðari árin, og notkun aukizt innanlands. En þetta hefir þó ekki farið hraðar en svo, að enn eru fluttar inn kartöflur fyrir næstum 400 þús. kr. á ári, þótt almennt sé viðurkennt hér, að næg skilyrði séu fyrir hendi til að fullnægja kartöfluþörf allra landsmanna, jafnvel þótt neyzla aukizt að stórum mun.

Í aths. við annað skylt frv., sem hér liggur fyrir, er gerð grein fyrir, að kartöfluneyzla hér sé eigi nema 1/4 á móts við neyzlu annara menningarþjóða. Bezta ráðið til að auka neyzluna er auðvitað að styrkja aukna ræktun og framleiðslu á kartöflum innanlands. Það má vera, að miðað við kornvörukaup sé þjóðarhagur að innflutningi á kartöflum, sem þá liggur í því, að miðað við næringargildi eru kartöflurnar ódýrari en kornið, en það sýnir ekki annað en að hagnaður af innlendri kartöfluframleiðslu yrði tvöfaldur. En til þess að sú framleiðsluaukning geti orðið sem mest og hröðust, þarf góð samtök manna í milli og stuðning af hálfu hins opinbera.

Það frv., sem landbn. hefir hér borið fram, er sniðið eftir frv. frá búnaðarþingi, og hefir þann tilgang, að Alþingi geri eitthvað til þess að styrkja þessa viðleitni. Með þessu frv. er, að áliti landbn., stefnt í rétta átt. Þær till., sem felast í frv., eru þó ekki nema annar liður þess, sem við ætlum því opinbera að gera til stuðning þessu nauðsynjamáli. Hinn liðurinn felst í öðru frv., sem hér liggur og fyrir.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að bannáður verði innflutningur á kartöflum rann hluta árs, sem nægar birgðir eru til í landinu, að dómi Búnaðarfél. Íslands. Er gert ráð fyrir, að atvinnumálaráðuneytið auglýsi í Lögbirtingablaðinu, hvenær bannið hefjist og hvenær því skuli létt af. Gert er ráð fyrir, að létta megi banninu af í hinum ýmsu landshlutum eftir ástæðum. Til að afla sér upplýsinga um uppskeruna á ári hverju, svo að hægt sé að ákveða, hve lengi bannið skuli gilda, eiga hreppstjórar að safna skýrslum til Búnaðarfél. Íslands um uppskerumagn fyrir 1. nóv. ár hvert. Skal síðan Búnaðarfélagið senda till. sínar til stj.

Með þessu er tilætlunin að tryggja kartöfluframleiðendum allan þann innlendan markað, sem til er og framleiðsla þeirra kemur til að fullnægja. Með því er þegar stigið stórt spor til að auka framleiðslu í landinu, til þess að við getum orðið sjálfum okkur nógir í þessu efni.

Annað atriði í frv. miðar að því að greiða fyrir sölu og verzlun með kartöflur á milli landshlutanna. N. leggur til, að þær kartöflur, sem fluttar kunni að verða milli hafna á skipum ríkissjóðs, skuli fluttar fyrir hálft gjald. Þetta er stuðningur og hvöt til þess, að heppileg og eðlileg viðskipti takizt á milli landshlutanna. Á Norð- Austurlandi og Vesturlandi er víða erfitt um kartöflurækt, en annarsstaðar á landinu víða næstum ótakmarkaðir ræktunarmöguleikar. Þessi fyrirgreiðsla ætti því að auka stórum framleiðslu og neyzlu kartaflna í landinu. Þetta ákvæði er einskorðað við það, að kartöflurnar séu fluttar á skipum ríkissjóðs og er því ekki um nein bein útgjöld ríkissjóðs að ræða til annara skiltafélaga.

Ég vona, að hv. deild sé það ljóst, að með frv. þessu, ef að lögum verður, er stefnt beina leið að því marki, að við munum mjög bráðlega geta fullnægt þörfum okkur sjálfra í þessu efni, sparað fé og aukið framleiðslu og atvinnu í landinu, og aukið neyzlu á einni hinni ódýrustu og hollustu voru í stað annara aðkeyptra, óhollari og dýrari.

Það kann að mega deila um aðferðina. Það er aðeins fyrirkomulagsatriði, sem n. er reiðubúin að taka til frekari athugunar, að því leyti sem það getur samrímazt grundvellinum.

Ég vil geta þess, að úr 4. gr. frv. hafa fallið tvö orð, annaðhvort þegar frv. var vélritað eða í prentuninni. Í gr. stendur: „— — skal atvmrh. heimilt að greiða o. s. frv.“ Þar hefir fallið niður „úr ríkissjóði“. Ég vona, að hæstv. forseti láti leiðrétta þetta án þess að sérstök brtt. þurfi að koma fram.