07.03.1932
Neðri deild: 22. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er líklega varla ástæða til þess að lengja þessar kartöfluumr. fram úr þessu. Málið er fremur einfalt, og menn eru sjálfsagt yfirleitt búnir að gera upp skoðanir sínar á því.

Hv. 1. þm. Skagf. sagðist ekki vera hissa á því, að ég beitti mér á móti þessu frv., því að það væri gagnstætt mínum lífsskoðunum. Ónei. hér kemur engin lífsskoðun til greina. Það er fyrir sjálfstæða athugun, að ég hefi komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé afar vafasamt, að hægt sé að greiða úr erfiðleikum viðskiptanna með því að skerða frelsi manna. Og það hefir kostað mig talsverða fyrirhöfn að öðlast þessa skoðun. Ég áleit það lengi vel, að í undantekningartilfellum gætu slíkar ráðstafanir verið nauðsynlegar. En reynslan hefir fært mér heim sanninn um það, að það er hér um bil hvergi, setu slíkar ráðstafanir verða til bóta.

Það er sjálfsagt ð viðurkenna það mikið nauðsynjamál, að Íslendingar rækti sjálfir allar þær kartöflur, sem þeir nota, en innflutningsbann er ekki rétta lausnin á því máli. Samkv. verzlunarskýrslunum eru árlega innfluttar um 1800 smálestir af kartöflum. Mjög væri það æskilegt, að þessar kartöflur væru heldur ræktaðar í landinu sjálfu, en það er fyrsta spurningin: Hvað kosta þessar kartöflur samanborið við þær innlendu? Svarið er greinilegt, að þær eru ódýrari fyrir neytendurna. Og þá liggur alveg í augum uppi, að afleiðingar af innflutningsbanni verða bæði hækkað verið og minnkuð notkun á þessari bráðnauðsynlegu voru. Um þetta stendur ágreiningurinn hér í hv. þd. Á að hækka verðið og minnka notkunina eða ekki?

Ég er alveg sannfærður um, að annaðhvort er rétta frv. bókstaflega alveg þýðingarlaust eða þá, að það þýðir hærra verð, og það er auðvitað eina hvötin til þess að auka framleiðsluna, eins og hv. l. þm. Rang. tók fram, enda slæddist það fram úr hv. 1. þm. Skagf., að þetta gæti komið fyrir, og þá var ráðið að grípa til gömlu „homöopata“ aðferðanna til þess að leysa vandræðin. Fyrst að nota eitur, og svo móteitur og aftur móteitur. Fyrst inntaka úr A-glasi, svo úr B-glasi og síðast úr C-glasi. A-glasið er þá bann á innflutningi og B-glasið er verðlagsn. Ég held, að engin „homöopata“ lyf löggjafarvaldsins hér á landi hafi verið eins þunn og hámarksverðin. Það voru hér á árunum settar einlægar verðlagsn. til þess að hafa eftirlit með vöruverðinu, og þær voru skipaðar þeim mönnum, sem höfðu óbifanlega trú á þýðingu slíkra n., en þessar n. reyndust alveg gagnslausar og áhrifalausar. Hvaða vit er nú í því að búa sér fyrst til erfiðleikana með innflutningshöftum, og síðan að ætla að ráða bót á þeim með pappísrsákvæðum ?

Eina ástæðan, sem til greina gæti komið með innflutningshöft, er sú, ef þjóðin væri haldin þeirri ónáttúrur að vilja heldur kaupa útlendu kartöflurnar fremur en þær innlendu að öðru jöfnu, en það er langt frá, að svo sé, heldur alveg öfugt.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að þótt ríkið styrkti kartöfluverzlunina innanlands með því að greiða 1/2 flutningskostnað milli hafna með skipum ríkisins, kæmi þetta aðeins til greina, ef útgerðin væri rekin án halla. Ég hefi ekki kunnugleika til að dæma um það, hvort skrifstofukostnaður er minni hjá ríkisútgerðinni heldur en annarsstaðar, en ég ætla nú samt að leyfa mér að efast um, að svo sé, þar til fyrir liggja þá skýrslur, er sanni hið gagnstæða.

Hv. þm. N.-Ísf. benti á það sem sennilegar afleiðingar af innflutningsbanni á kartöflum, er gilti aðeins hluta af árinu, að hrúgað yrði inn í landið meiri birgðum af þessari vöru heldur en þörf væri á, rétt áður en þann gengi í gildi, en að það gæti hæglega orðið til þess að lækka verðið, vegna þess, að vörurnar þyldu ekki geymslu. Ef hætta er á því, að inn í landið væru þannig fluttar óhæfilega miklar birgðir, get ég hugsað mér, að þá yrði reynt að gripa til C-glassins. Sett á stofn ein n. til, innflutningsn., er hafa skyldi hemil á innflutningnum á þeim tímum, sem ekki gilti algert bann.

Hv. 2. þm. Skagf. taldi það ekki óeðlilegt, að frv. Þetta væri meðal annars fram komið af kreppuástæðum. Það er að vísu rétt, að víða hafa verið sett á innflutningshöft til þess að draga úr kreppunni, en þeim hefir hvergi verið snúið gegn öðru en óþörfum eða lítt horfum varningi, sem hægt er án að vera. hér er því um alveg spánýja stefnu að ræða, þegar á að fara að banna eina ódýrustu, en nauðsynlegustu vörutegundina, sem miklu frekar væri ástæða til að eggja menn á að flytja inn, heldur en banna. Þessi hv. þm., ásamt hv. frsm. n., hélt því fram, að þetta frv. væri fyrst og fremst fram komið sem kreppuráðstöfun, en þetta er ekki rétt; hér er um lög að ræða, sem eiga að gilda í framtíðinni, enda minntist hv. frsm. ekkert á það í framsöguræðu sinni, að þetta ætti aðeins að vera bráðabirgðaráðstöfun, heldur væri það heppilegt fyrirkomulag, sem alltaf ætti að gilda; annars hefði frv. átt að vera tímabundið við ástandið, sem nú er.

Ég ætla ekki að ræða við hv. frsm. um lýsingu hans á þeirri ógurlegu mynd, sem hann kvað mig hafa málað af fjandanum með hornum, klaufum og eldrauðum glyrnum og stílað upp á þetta frv. Hann sagði, að einn ágætur málari hefði uppteiknað þessa ferlegu mynd, en málarinn var ég, og málverkið lýsing mín á frv. Ég get ekki tekið þennan malaravitnisburð öðruvísi en sem viðurkenningu fyrir því, að ég hafi getað teiknað þarna upp mjög sanna mynd af frv., því að sjálfsögðu eru málararnir manna færastir að mála sem líkast fyrirmyndinni. Annars var það eitt enn í ræðu hv. frsm., sem ég get ekki stillt mig um að minnast á. Hann hélt fram þeirri reginfjarstæðu, að þegar íslenzku kartöflurnar kæmu á markaðinn á haustin, þá útrýmdu þær útlendu kartöflunum, meðan verið væri að selja þær íslenzku. Ef þetta væri nú þannig í raun og veru, þá slær þessi ástæða frv. sjálft alveg niður, eins og einn hv. þm. skaut fram áðan. Hvaða þörf er þá á banni á útlendu kartöflunum, ef þær íslenzku útrýma þeim ? Þá væru þessi bannlög aðeins sett til skemmtunar, samhliða öðrum ágætum bannlögum. Sannleikurinn er sá, að íslenzku kartöflurnar draga úr sölunni á þeim erlendu, en erlendu kartöflurnar halda þeim íslenzku í réttu verði. Þær standa á verði og sjá um það, að verðið sé rétt. Breytingin, sem yrði á þessu ef frv. verður að lögum, er sú, að þessum óbrigðula dómara um verðið er kippt burt, svo að verðið mundi að sjálfsögðu hækka. Ég hygg, að erfitt verði að sýna fram á það með rökum, að verðið mundi ekki hækka, ef útlendu kartöflurnar yrðu bannaðar, en ef svo ólíklega færi, að verðið hækkaði ekki, þá væru lögin samt sem áður gagnslaus, því að þá yrðu þau engin hvöt fyrir framleiðendur til þess að auka framleiðsluna eins og hv. 1. þm. Rang. sýndi fram á áðan.