11.03.1932
Neðri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2864)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Héðinn Valdimarsson:

Ég var ekki við, því miður, þegar hæstv. forseti leyfði mér að tala við 1. umr. þessa máls til að svara heim, sem þá töluðu. Það voru aðallega þeir hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Skagf. Hv. þm. Borgf. talaði um það, að mér þætti tómlegt um atvinnubætur, en þegar kæmi að slíkum atvinnubótum að auka kartöflurækt landsins, þá snerist ég á móti. Ef ekki þyrfti annað til að koma á atvinnu í landinu en að banna innflutning á vörum, þá væri það ofureinfalt mál að láta alla hafa nóg að gera. En því fer nú fjarri, að slík bönn komi lagi á. Það er enginn vafi á því, að mikið af því, sem við kaupum, er hægt að framleiða í landinu. En spurningin er, hvort það svarar kostnaði, sem hlýtur að verða það, sem ræður. — Hv. 1. þm. Skagf. talaði um það, að bannið myndi aðeins vera á haustin. en hv. þm. Borgf. segir, að á haustin sé enginn innflutningur á erlendum kartöflum, því að þær íslenzku séu þá svo ódýrar, að þær erlendu geti ekki keppt við þær. Ef svo er, til hvers er þá bannið?

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um það, að einkennilegt væri, að ég og jafnaðarmenn værum svo á móti þessu frv., þar sem tilraun væri gerð til að skipuleggja þessa framleiðslu. Það er fjarri því, að hér sé um skipulagningu að ræða. Það er verið að hjálpa til að halda við samskonar fyrirkomulagi og verið hefir. Ef ætti að koma skipulagi á þessa framleiðslu, þá yrði ég og jafnaðarmenn fyrstir manna til að verða með þessu, en þá yrði að taka málið öðrum tökum. Þá þyrfti fyrst og fremst að rannsaka, hvar á landinu væru bezt skilyrði fyrir kartöflurækt og kálmeti og hvernig henni yrði haganlegast og ódýrast fyrir komið til þess að fullnægja þörfum landsfólksins. En síðan væri að koma á fullnægjandi rækt á þessum stöðum og á þennan hátt, og má þá vænta, að fyrst og fremst yrðu teknir þeir staðir, þar sem gnægð er jarðhita, svo sem á Reykjum í Ölfusi, og komið þar upp stórum kálmetisbúum, en ekki hlynnt að dreifðri og óskipulegri ræktun til sölu. Þá mundi og söluskipulag komast á fyrir allt landið, en því er ekki að heilsa hér í Gósenfrumvarpi einstaklingshyggjunnar. Þá yrði fylgt kenningum sócialismans í þessari atvinnugrein sem öðrum.

Eftir þessu frv. er ætlazt til þess, að atvmrh. ákveði bæði um innflutning og ýmsar nákvæmari reglur viðvíkjandi framkvæmd þessara lagt, en ávallt að fengnum till. Búnaðarfélagsins. Á hann hátt er sjálfræðisvald fengið þessum mönnum í hendur, hvernig þessi lög yrðu framkvæmd, og menn hafa enga tryggingu fyrir því, að það yrði til annars en að gera vöruna dýrari. Eftir því, hvernig till. Búnaðarfélagsins hafa verið undanfarið, þá er ekki neins góðs að vænta frá þeirri stofnun.