11.03.1932
Neðri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2867)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Jón Ólafsson:

Það er ekki ætlun mín að tala langt mál um þetta frv. Þessar Skagakartöflur hafa verið á ferðinni á öllum þingum síðan ég kom á þing, og er ég orðinn leiður á heitu, eins og öllum slíkum málum, þar sem verið er að ota fram hagsmunamálum einstakra manna með því að þrengja kosti annara, án þess tekið sé tillit til eðlis málsins eða almenns ávinnings. Við hv. samþm. minn, hv. 2. þm. Rang, sem berum fram brtt. við frv., höfum ekki viljað raska grundvelli frv., en ég sé það fyrir vist, að ef á að taka alvarlega þá yfirlýsingu hv. flm. frv., að verðið á kartöflunum eigi ekki að hækka, þá eru allir aðrir en þeir, sem hafa aðstöðu til að flytja kartöflur með ríkisskipum á markaðinn, greinilega útilokaðir frá því að rækta kartöflur til sölu. Allar hásveitir landsins verða greinilega útilokaðar frá því að leggja skerf til framleiðslunnar nema með því annaðhvort að verðið hækki eða þá að þessir framleiðendur eins og aðrir njóti styrks frá því opinbera.

Þá verð ég að segja það, að ég kann ekki við það, að Búnaðarfélag Íslands, sem stofnað er og starfrækt í þeim tilgangi að hvetja og leiðbeina vissri stétt þjóðfélagsins, sé gert að dómara í verzlunareinokunarmálum, til þess að það geti í skjóli þessara þvingunarlaga aflað bændum hærra verðs fyrir kartöflurnar.

þótt ég hafi talið mér skylt að koma með þá brtt., sem hér liggur fyrir, þá dylst mér það ekki, að með þessu frv. er stigið varhugavert spor, sem gefur slæmt fordæmi. Það getur komið fram krafa um það að banna innflutning á mjólk, meðan nóg mjólk niðursoðin væri í Borgarnesi. Ég tala nú ekki um kjötið, sem hv. þm. Borgf. setur verið á á hverju hausti, og við Reykvíkingar með mestu þolinmæði fáum að greiða, þó að það sé margfalt hærra heldur en fæst fyrir þessa vöru á útlendum markaði.

Þegar komið er út í það, að í smærri atriðum og fyrir einstaka hreppa er farið að þvinga framleiðslunni inn á stóran part þjóðarinnar með hækkuðu verði, þá hygg ég, að mælirinn sé orðinn fullur. Við þm. Rang. höfum þess vegna komið fram með brtt. við 4. gr. frv., þar sem atvmrh. er heimilað að greiða úr ríkissjóði allt að helmingi flutningskostnaðar á kartöflum frá framleiðslustað til næsta markaðsstaðar innanlands. Ástæðan til þess, að lítið er framleitt í ýmsum sveitum, sem þó hafa ágæt skilyrði til kartöfluræktar, er sú, að svo kostnaðarsamt er að koma framleiðslunni á markaðinn, að ógerningur er að rækta kartöflur til sölu. Ég get lýst því yfir, að ef till. okkar verður ekki samþ., þá er ég fyrir mitt leyti staðráðinn í því að greiða atkv. gegn málinu í heild, enda er ég viss unt, að frv. Þetta verður til engra hagsbóta fyrir framleiðendur, nema því aðeins, að það verði til þess að hækka verðið á markaðinum, samanborið við það verð, sem vera mundi í frjálsri samkeppni við heimsmarkaðinn. Það er óþarft og ekki til neins, að vera að taka alvarlega þetta tal um, að sparast mundu 400000 kr. greiðslur út úr landinu við samþykkt þessa frv. Þótt svo sé ekki gert, þá mundi ekki vera nein hætta á því, að meira kæmi á markaðinn en seljast mundi, og það meira að segja á undan útlendu framleiðslunni, eins og hingað til hefir verið á markaðinum. En svo má gæta þess, að slíkar þvingunarráðstafanir mundu hækka verðið og draga úr neyzlunni, og þá verða til þess, að fátækt fólk ætti verra með að afla sér þessarar vöru. Og ef þessi lög yrðu til þess að draga úr því, að menn gætu veitt sér þessa hollu fæðutegund, sérstaklega þar sem eingöngu er um einhæfar fæðutegundir svo sem fisk að ræða, og heilsu manna þar með stofnað í hættu, þá hygg ég, að of dýrt væri að kaupa slíkar lagalegar ráðstafanir. Það er tilgangslaust að vera að slá því fram, að hér sé knýjandi nauðsyn fyrir hendi vegna gjaldeyrisvandræða. Þetta allt er bara glamur, sem komið er úr vissri átt, og notaðir hinir erfiðu tímar nú til þess að koma máli þessu fram. Það er á sinn hátt eins og þegar sorgir og drepsóttir hafa herjað á þjóðir, þá hafa skottupredikarar fundið heppilegan jarðveg til að breiða út kenningar sínar. Ég vona þó, að hv. þdm. sjái, hvað í húfi er hér, og gjaldi varhuga við að láta þessa skrumara nota það tækifæri, sem tímarnir gefa nú. — Ég læt svo staðar numið. Vil losa málið sem fyrst út úr d.