14.03.1932
Neðri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2877)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Frsm. (Pétur Ottesen):

Hefði ekki verið komið að fundarslitum síðast, býst ég við, að ég hefði gert hv. 1. þm. Rang. betri skil en ég geri nú, vegna þeirrar ræðu, sem hann flutti hér í garð þeirra manna, sem standa að þessari tilraun til að styðja og efla sjálfstæði íslenzks landbúnaðar. En það er nú svo, að þegar frá liður gleymir maður ýmsu af því, sem maður ella hefði fundið ástæðu til að gera aths. um, ekki sízt þegar ekki var um að ræða merkilegri ræðu en hv. 1. þm. Rang lét sér sæma að flytja hér í þetta skipti, auk þess sem skapið mýkist því lengra, sem frá líður, og maður þá tekur ekki eins óstinnt uppi ýmislegt það, sem ómaklegt kann að hafa sagt verið. Ég get þó ekki með öllu gengið fram hjá ræðu hv. 1. þm. Rang., og mun stikla á nokkrum helztu atriðunum, og þá jafnframt svara ýmsum öðrum hv. þm. um leið, eftir því sem að fellur í ræðu minni, og þá sérstaklega hv. þm. Rang.

Hv. 1. þm. Rang. gerði mikið úr því, að hann væri orðinn leiður á þessum löngu umr. um rétta mál. Ég held, að hv. þm. hefði átt að spara sér þessi leiðindi og fremur að halda sér við það heygarðshornið, sem hann telur skemmtilegra og sér samboðnara samkv. starfi sínu heldur en að hlusta á þessar landbúnaðarumr. Ég býst við því að minnsta kosti, að hv. þm. hefði getað sparað sér þetta út frá því, að þarfir og áhugamál landbúnaðararins hefðu einskis í misst við það, eftir undirtektum hans við þetta mál að dæma.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að meira þyrfti til þess að efla innlenda kartöfluframleiðslu en hér er farið fram á. Hefi ég bent á það áður, að hér er líka meira á ferðinni, því að í félagsskap bænda úti um allt land er nú hafin öflug hreyfing í þessa átt, að við sem fyrst getum farið að framleiða það mikið af þessari vöru í landinu sjálfu, að við getum fullnægt okkur sjálfir í þessu efni, en það, sem hér er farið fram á, er það, að löggjafarvaldið komi til hjálpar þessum öflugu og almennu samtökum, sem nú eru hafin í þessu skyni úti um allt land, með því að tryggja landsmönnum sjálfum þann markað, sem til er í landinu, og er þó um þetta ekki farið lengra í kröfunum en svo, að nægilegt framboð sé alltaf í landinu á þessari vöru, til þess að verðið geti haldizt eðlilegt. Þetta er það, sem hv. 1. þm. Rang. er að slást á móti, og þeir aðrir hv. þm., sem ekki vilja leggja hönd á plóginn í þessu starfi til að gera þjóðina sjálfri sér nóga í þessu efni.

Hv. 1. þm. Rang. vitnaði til þess, að kartöfluræktin, sem hér var hafin á stríðsárunum, hefði farið öll í hundana. Að svo fór um þá sjóferð, var nú reyndar ekkert til að furða sig á, því að svo fer hverju því atvinnufyrirtæki, sem rekið er af ríki eða bæjarfélögum, en ég vil leyfa mér út frá þessu að benda hv. þm. á það, að hér er nú um ekkert slíkt að ræða, því að framkvæmdirnar í þessu efni eiga að berast uppi af einstaklingunum í þessu landi, en ekki af ríki eða bæjarfélögum, og samkv. þeirri stefnu, sem hv. 1. þm. Rang. til þessa hefir fylgt um þessi mál, ætti málinu því að vera vel borgið. Til þess höfum við ríki, að það efli og styðji framkvæmdir og atvinnurekstur í landinu í öllum greinum, þó að hinsvegar megi ekki í þessum efnum fara út fyrir þau takmörk, sem rétt má telja, að stutt sé að. — Saga kartöfluræktarinnar á stríðsárunum þarna suður á Garðskaga er svo kunn, að ég tel óþarft að fara út í hana, enda snertir hún ekki þetta mál, sérstaklega. Upp af þeirri ræktunartilraun spratt engin uppskera, heldur var landið sett í auðn, og ekki nóg með það, því að þetta eyðilagði um leið allar fiskveiðar á þessum slóðum. Sandrokið var svo mikið, að engin kvik branda helzt þarna við síðan.

Hv. 1. þm. Rang. sagði þau eftirtektarverðu orð, að það væri „heimaríki á lægsta stigi“ að vilja stuðla að eflingu ísl. landbúnaðar, því að ekki er það annað, sem farið er fram á með þessu frv. Að kalla slíkt „heimaríki á lægsta stigi“ held ég annars, að sé nægilegt til að sýna, að ekki er mark takandi á þeim mönnum, sem svo hugsa og svo orða hugsanir sínar. Því að hvað er það, sem felst í þessu frv.? Ekki annað en það, að verið er að gera tilraun til þess að gera ísl. atvinnuvegi svo sjálfstæða sem frekast er unnt, svo að Íslendingar geti til fulls notað sér þau gæði, sem til eru í ísl. mold til að fullnægja þörfum þjóðarinnar í þessu efni. Og þetta á að vera heimaríki á allra lægsta stigi !

Hv. þm. dró þá ályktun af því, að frv. kveður svo á, að allt að helmingur flutningskostnaðarins á kartöflunum skuli greiðast úr ríkissjóði, ef flutningurinn fer fram á skipum ríkisins, að þetta þýddi sama sem það, að ríkisskipin væru látin sleikja hvern vog og hverja þá vík, sem búast mætti við, að einhverjar kartöflur væru fluttar til til flutnings. Verð ég að segja það, að ég geng þess ekki dulinn, að erfitt verður að gera hv. 1. þm. Rang. skiljanlegt það, sem prentað er eða skrifað, þar sem hann virðist hvorki vera læs á það, sem prentað er né skrifað um þessa hluti, því að annars mundi hann varla hafa getað dregið annað eins og þetta út úr frv., eða þá að hitt er, að hv. þm. hefir lesið frv. eins og sagt er, að skrattinn lesi biblíuna, þ. e. allt öfugt, því að í frv. stendur ekki annað en að atvmrh. sé heimilt að greiða allt að helmingi flutningskostnaðar með skipum ríkisins á kartöflum frá þeim héruðum, sem aflögufær eru í þeim efnum, til þeirra landshluta, sem verða að kaupa að kartöflur. Hér er ekki eitt orð, sem til þess bendi, að verið sé að reyna að hafa áhrif á það, hvar skip ríkisins komi við, enda vitanlegt, að skipin hafa um það sínar áætlanir, sem háðar eru öðrum ráðstöfunum.

Þá talaði hv. 1. þm. Rang, mikið um það, að ekki mætti blanda Búnaðarfélaginu inn í þennan verzlunarrekstur, jafnframt sem hann lét þess getið, að Búnaðarfélagið mundi ekki geta litið hlutdrægnislaust á þessi mál, heldur mundu allar þess gerðir hljóta að stjórnast af hlutdrægni. Vil ég út af þessu benda á það, að frv. gerir ekki ráð fyrir, að Búnaðarfélaginu verði falinn neinn slíkur verzlunarrekstur, heldur er félaginu aðeins fallið að afla skýrslna um kartöfluframleiðslu hinna ýmsu héraða, og jafnframt að kynna sér neyzluna í kauptúnum og kaupstöðum, svo að unnt sé að kveða á um það, að hve miklu leyti innlenda framleiðslan hrekkur til að fullnægja þörfum þjóðarinnar. Það er aðeins þessi leiðbeiningarstarfsemi, sem Búnaðarfélaginu er falið samkv. frv., en hinsvegar alls ekki neinn verzlunarrekstur. Hitt er eins og hver annar sleggjudómur, að Búnaðarfélagið muni starfa hlutdrægt að þessu. Það stóð að vísu til einu sinni, að hv. 1. þm. Rang. tengdist Búnaðarfélaginu, en sú fæðing var í meinum, svo að þm. er enn ekki kominn í þá aðstöðu að geta þar sýnt af sér hlutdrægni, en fyrr en það verður, getur hv. þm. ekki sagt, að Búnaðarfélagið hljóti að beita hlutdrægni í þessum málum. Hans sjálfs verður að njóta við, til þess að slíkt megi verða.

Þá þótti hv. 1. þm. Rang, það heldur lítilmannlegt af okkur Íslendingum að vera að taka Englendinga okkur til fyrirmyndar í verzlunarmálum. Það er nú að vísu ekki rétt hjá hv. þm., að við hér séum að taka Englendinga okkur til fyrirmyndar, og er þó síður en svo, að ég álíti, að við með því tækjum mikið niður fyrir okkur. Við höfum aðrar skoðanir á þessum málum, þó að við hinsvegar viljum stuðla að sjálfstæði ísl. atvinnuvega, og reyndar fara í því að dæmi Englendinga og annara menningarþjóða, sem og vissulega geta verið okkur um fjölda margt til fyrirmyndar. Það er nú svo, að stórþjóðirnar álíta sig tilknúðar til að setja á svipaðar ráðstafanir sem þessar, til þess að efla atvinnurekstur sinn og vekja fram þá atvinnumöguleika, sem felast með þeim, og ég býst við því, þrátt fyrir góða handleiðslu þeirra manna, sem peningamálunum stýra, að svo sé nú samt komið okkar hag, að ekki sé síður ástæða til þess fyrir okkur en t. d. Svía og Englendinga að grípa til slíkra ráðstafana til að stuðla að innlendri framleiðslu, og spara þannig hinn erlenda gjaldeyri. Ég get að vísu skilið það, að það sé viðkvæmur hlutur fyrir hv. 1. þm. Rang., þegar verið er að tala um gjaldeyrisverzlun, en það er nú svo, eins og þessum málum er ráðstafað hé á okkar landi, en ekki eingöngu vegna verðfalls afurðanna, þó að sterkur þáttur sé, að við höfum ekki ráð á að kaupa að nema brýnustu þarfir manna, og þegar svo er komið, liggur næst við að efla ræktun og aðra framleiðslu í landinu sjálfu, svo að við sem mest á þann hátt getum fullnægt okkar eigin þörfum.

Þá drap hv. þm. á það í sambandi við þá þátttöku, sem ríkissjóður samkv. frv. á að hafa um greiðslu á flutningskostnaði vegna kartaflnanna, að því hefði áður verið komið á, að ríkið tæki þátt í flutningskostnaði á tilbúnum áburði til landsins, og sagði hv. þm. að ég hefði verið á móti þessu á sínum tíma. Er þetta vaðall og vitleysa hjá hv. þm., eins og flest annað, sem hann hefir sagt í þessu máli. Getur hv. þm. hæglega séð það, ef hann athugar Alþt. frá þessum árum, að ég var þvert á móti stuðningsmaður þess, að þetta var gert, enda er þetta í samræmi við frv., því að sá styrkur er miðaður eingöngu við sjóflutninga, eins og er í þessu frv., en nær ekki til landflutninga.

Eftir að hv. 1. þm. Rang. hafði rotazt svo um eins og naut í flagi yfir því, að mál eins og þetta skyldi vera fram komið, gekk hann hann þó inn á það, eins og enda till. hans berlega sýna, að ráðstafanir frv. mundu þó ekki vera fullnægjandi, og vildi hann því færa það yfir á víðtækara svið. Hefi ég áður bent hv. 1. þm. Rang. á það, hve hann er í miklu ósamræmi við sjálfan sig, þar sem hann fyrst andmælir frv. svo kröftuglega, en snýr síðan blaðinu við og er fús til að fallast á það, ef ákvæði þess aðeins eru gerð víðtækari. Skal ég í þessu sambandi víkja aftur að flutningskostnaðinum frekar en ég hefi áður gert, og svara þeim þá báðum í senn, fulltrúum Rang. Þeir halda því fram, að n. sé í ósamræmi við sjálfa sig, þar sem hún hefir lagzt á móti till. þeirra. Hv. 2. þm. Rang., sem jafnframt er sálusorgari þeirra, orðaði þetta nú svo, að n. hefði farið í gegnum sjálfa sig, og má hann reyndar sjálfur gerst þekkja það háttalag, en vegna þessara ummæla skal ég þó aftur skýra frá því, hvað fyrir n. vakir, sem er það að styðja flutning á kartöflum frá þeim héruðum, sem framleiða meira en þau sjálf þurfa á að halda, til annara héraða, sem framleiða of lítið til þess sjálf að geta fullnægt sér í þessu efni — með öðrum orðum að greiða fyrir verzlun með þessa voru héraða á milli. Þetta var það, sem lá til grundvallar fyrir till. n., en hitt var alls ekki tilgangurinn að styrkja flutning innan þeirra héraða, sem framleiða nóg af kartöflum til að fullnægja sinni eigin þörf, og vil ég í þessu sambandi benda á það, vegna brigzla um eigingirni og hlutdrægni í garð okkar hv þm. Mýr., að samkv. ákvæðum frv. kemur ekki til mála að styrkja flutninga á, kartöflum úr Borgarfirði eða næstu héruðum og t. d, til Reykjavíkur, og ná þeir því þannig ekki tilgangi sínum, hv. þm. Rang., sem vilja núa okkur þm. Mýr. því um nasir, að við með þessu frv. séum að pota að sérhagsmunum okkar kjördæma. Hinsvegar eru till. þm. Rang. í þessu máli fyrst og fremst sérhagsmunatill., sem bera það greinilega með sér, að þessir hv. þm. hafa asklok fyrir himin og sjá ekki neitt annað en það sem eru sérhagsmunir kjósenda þeirra. Þessir hv. þm. loka augunum fyrir þeirri þjóðarheill að auka kartöfluframleiðsluna með því að styrkja flutninginn á kartöflunum til hinn fjarlægari héraða, sem ekki geta fullnægt sér sjálf í þessum efnum, og sjá ekkert nema sérhagsmuni sinna kjósenda, því að þeir segjast munu ganga á móti frv., ef þeirra sérhagsmunatill. verða ekki samþykktar. Hitt kemur þessum hv. þm. sízt til hugar að forna þessum sérhagsmunum vegna hagsmuna þjóðarheildarinnar. Þessi sérhagsmuna-„hugsjón“ þessara hv. þm. kom og vel fram í sambandi við annað mál, sem hér var til umr. í gær, nefnilega bifreiðaskattinn, því að þeir lýstu sig reiðubúna til að ganga inn á hann, ef hann aðeins yrði endurgreiddur þeim að svo miklu leyti, sem hann kemur niður á kjördæmum þeirra sjálfra. Er þar nákvæmlega sama sérhagsmunaaðstaðan eins og í þessu máli. Og svo eru þessir hv. þm. með þann lubbaskap — (Forseti hringir); ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því, þó að ég noti hér sama orðið og hv. 1. þm. Rang. viðhafði um mig — að vera að bera öðrum það á brýn, að þeim gangi til sérhagsmunirnir einir í þessu máli. — Ég heyri, að hv. 2. þm. Rang. hlær að þessu, og það er meinalaust við mig, þó að þessi hv. þm. hlæji sínum fíflahlátri (Forseti hringir). Ég vil enn leiða athygli hæstv. forseta að því, að það er ekki ég, sem hefi verið að leita að ljótum og óviðeigandi líkingum í þessum umr., en ég verð hinsvegar að segja það, að það situr sízt á hv. þm. Rang. að vera að nota orð eins og lubbaskap, sérgæðingshátt og fleiri af sama tægi. —

Ég hefi þá svarað flestu því, sem svaravert er í ræðum þessara hv. þm. Það hefir berlega komið í ljós, að þeir vilja nota þessar brtt. sínar til þess að velja sér hagkvæmari leið til þess að fjandskapast við þetta mál. (Forseti hringir). Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þá áherzlu, sem hann nú lagði á þessi ummæli mín.

Ég verð að segja það, og ljúka máli mínu með því, að þegar þessir hv. þm. en að tala um það, að ekki sæmi að taka Englendinga til fyrirmyndar, og að það sé nú svo sem ekki við okkar hæfi að fara að dæmi þeirra né vitna í það, sem þeir aðhafist til þess að verjast kreppunni, þá er það næsta hlálegt, að hv. þm. skuli láta sér slíkt um munn fara. Að sjá hvernig moldin rýkur í loftinu! þeim finnst þó ekkert athugavert við það, að leita til Englendinga, þegar taka þarf lán til þess að lappa upp á lánsstofnanir vorar, til þess að þær geti meðal annars lánað til þess að kaupa erlendar kartöflur. Þá þykir það engin goðgá að leita til þeirra.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég hefði gefið sér víðtæka vantraustsyfirlýsingu síðan, og átti hann þar við þau ummæli mín, að eftir brtt. hans að dæma gæti ég ekki annað en vantreyst honum í þessu máli. Lengra náði ekki vantraustsyfirlýsing mín, en ef hann vill færa hana út á víðara svið, þá er því ekki til að dreifa, því að ég þekki hæfileika hans á öðrum sviðum, þótt ég geti ekki treyst honum í þessu máli, og á hann sjálfur sök á því. Ég verð að líta svo á, að hann og margir fleiri Reykvíkingar séu á móti þessu máli vegna þess, að þeir eru að þessu leyti slitnir upp úr hinu praktíska lifi og geta þess vegna ekki tileinkað sér hinn rétta og heilbrigða skilning á þessu máli né skilið það, hve mikla þýðingu það hefir, að við gerum allt til þess að nota út í yztu æsar þá framleiðslu- og markaðsmöguleika, sem eru í landinu sjálfu. Ég held því fram, að andstaða þeirra gegn þessu máli byggist fremur á því en hinu, að þeir í raun og veru trúi því, að þetta yrði til þess að hækka útsöluverð kartaflna, og mun ég koma betur inn á þetta á eftir um leið og ég svara hv. þm. Ak. Ég vildi óska þess, að umr. þær, sem fram fara á þessu þingi um það að efla íslenzka framleiðslu gætu orðið til þess að opna augu þessara manna fyrir mikilvægi þessara mála, og við í landbn. munum ekkert spara til þess að sá þráður, sem hjá þessum ágætu mönnum er slitinn, verði ofinn saman aftur.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég mundi hafa verið miður mín, er ég mælti með þessu frv. Ég vil ekki kannast við það. Ég var þá og er enn hinn sami stuðningsmaður og áhugamaður fyrir því að færa í lag það, sem verzlunarmálum vorum og framleiðslumálum er sérstaklega ábótavant. Hann talaði um það í þessu sambandi, að ég hefði sagt, að hann hefði í þessu máli skrifað undir stefnu kommúnista með því að beita sér gegn þessari tilraun til eflingar framleiðslu okkar. Þetta er að því leyti rétt, sem þetta frv. miðar að því að bæta fjárhagsafkomu landsmanna, og stuðla þannig að auknu sjálfstæði voru, en slíkt er, svo sem allir vita, hinn mesti þyrnir í augum kommúnista, sem vilja róta öllu um og koma öllu í kaldakol, eyðileggja efnalegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði vort og gera okkur upp á aðra komna. Hinsvegar gengur þetta frv. í þá átt að efla innlenda framleiðslu og auka innlenda markaði, en með slíku er stefnt að því að eyða skilyrðunum til þess, að stefna kommúnista nái hér fótfestu. Það var þetta, sem ég átti við, er ég sagði, að hann hefði tekið undir með hv. 3. þm. Reykv., sem hann kallaði fulltrúa kommúnista.

Hv. þm. sagði, að ég hefði viðurkennt það, að verndartollar gætu valdið verðhækkun á vörum. Ennfremur hélt hann því fram, að Englendingar legðu engin slík höft á innflutning grænmetis hjá sér. Þetta er ekki allskostar rétt hjá hv. þm., því að þeir leggja svo háa tolla á einstakar vörutegundir, t. d. grænmeti, að það hefir hinar sömu verkanir og aðflutningsbann. Á vissum tímum árs, þegar þeirra eigin grænmetisframleiðsla er á markaðinum, setja þeir svo háa tolla á slíkar vörutegundir, að ekkert flyzt inn af þeim, meðan á því stendur. Þess vegna er þetta frv., sem fer fram á að banna innflutning á kartöflum á þeim tímum árs, sem nægilegt er til af þeim í landinu, alveg hliðstætt því, sem Englendingar hafa álitið sér heppilegt að gera í þessum efnum. Það er hinsvegar alveg rétt, að meðan verndartollar eru svo háir, að þeir verka eins og aðflutningsbann, þá getur það haft í för með sér hækkað vöruverð. en aðeins undir þeim kringumstæðum, að ekki séu nægar birgðir viðkomandi voru til í landinu. En ef svo er, þá raskar aðflutningsbann eða verðtollur að engu leyti hinum eðlilega verzlunargrundvelli og verðlagi frjálsrar verzlunar. Ég verð þess vegna að halda, að þó að hv. þm. finnist ég tala öðruvísi um þetta mál en hann hefði búizt við af mér, þá stafi það frekar af því, að hann sé „miður sín“ í þessu máli, og skilningur hans á mikilvægi þess ekki svo glöggur sem vænta mætti af slíkum manni. En það skal hinsvegar tekið fram, að undir eins og hann tekur höndum saman um það við mig að vinna að framgangi þessara og annara slíkra mála, þá skal ég taka aftur það, vantraust, sem ég gaf honum áðan í tilefni af afstöðu hans í þessu máli.

Hv. þm. Ak. þarf ég litlu að svara. Hann sagði meðal annars, að það vantaði mikið á, að nægilegt væri framleitt í landinu af kartöflum til þess að fullnægja eftirspurninni innanlands. Sem stendur er þetta alveg rétt, en afleiðingin af samþykkt þessa frv. mundi ýta mjög undir aukna ræktun og stuðla að því, að þess yrði skammt að bíða, að við yrðum sjálfum okkur nógir í þessu efni.

Út af verðhækkunartali hv. þm. vil ég enn benda á, að í frv. er svo fyrir mælt, að bannið nái ekki yfir lengri tíma en innlenda framleiðslan er nægileg til að fullnægja eftirspurninni. þessu má hv. þm. ekki missa sjónar af, er hann ræðir um þetta mál. Frv. er algerlega miðað við það ástand, sem nú er, nefnilega að kartöfluframleiðsla landsmanna er enn ekki nægileg. Hv. þm. sagði, að kartöflutunnan, og á hann þar við kartöflur, sem keyptar eru frá útlöndum, kæmist stundum upp í 60 kr., og sýnir það bezt, hversu mikið fjárhagsspursmál það er fyrir okkur að auka kartöfluframleiðslu vora og vinna að því með samhug og atorku.

Hv. þm. talaði um það, að af samþykkt þessa frv. myndi leiða kartöfluskort í landinu. Nei, það er vel séð fyrir því með ákvæðum frv. um það, að afla skuli gagna um það, hversu lengi innlenda framleiðslan geti enzt, og haga innflutningsbanninu í samræmi við það.

Hv. þm. vildi draga úr ákvæðum frv. um styrk til flutninganna með því að bæta við ákvæði um það, að ríkisskipin þyrftu ekki að sjá af öðrum flutningum vegna þessa. Miðað við það, hversu hagað hefir flutningum síðasta árs, þá kæmi þetta eigi til baga, því að það hefir upplýstst, að meiri hluta ársins hafa ríkisskipin siglt með ónógan flutning. En þó að þetta kynni að lagast, þá má á það benda, að hér er ekki um svo mikið fjárhagsatriði að ræða, að ástæða sé til að setja það fyrir sig. Ennfremur má geta þess, að ef til þess kæmi, að útgerð þessara skipa yrði hætt, þá leggur frv. engar skuldbindingar á herðar stj. um að sjá fyrir flutningum með öðrum skipum, heldur fellur niður af sjálfu sér það ákvæði frv., sem hér að lýtur.

Út af því, sem hv. þm. sagði um kartöflutoll Svía, þá vil ég geta þess, að hjá þeim stendur nokkuð öðruvísi á að því leyti, að þeir eru lengra komnir í því að vera sjálfum sér nógir í þessum efnum. En að þeir tolla kartöflur bendir þó til þess, að um kartöfluinnflutning sé þó að ræða hjá þeim, því að öðrum kosti væri slíkur tollur ekki lagður á. Af þessu má sjá, að Svíar telja sér nauðsynlegt að gera ráðstafanir í líka átt og þær, sem farið er fram á með þessu frv.

Þá vil ég loks enn drepa á þau ummæli hv. þm., að takmörkun á innflutningi kartaflna myndi hafa í för með sér hækkað verð. Í frv. er ekki gert ráð fyrir, að innflutningsbannið haldist lengur en nóg er til af kartöflum á markaðinum, til þess að halda uppi eðlilegri samkeppni innanlands. Þess vegna er þessi skoðun hv. þm. algerlega úr lausu lofti gripin, og hefir við engin rök að styðjast. Ef hv. þm. ætlar Búnaðarfélaginu það, að það misnoti aðstöðu sína eða sýni hlutdrægni og rangsleitni, þá er það einnig ástæðulaust með öllu. Og að bera því slíkt á brýn fyrirfram er miður sæmilegt. Það mun áreiðanlega inna þetta starf að hendi með alúð og samvizkusemi og fullri sanngirni.

Mér þykir fyrir því, hversu miklar umr. hafa orðið um þetta mál, en það er þeim um að kenna, sem beitt hafa mótþróa og málþófi til þess að reyna að tefja fyrir framgangi þessa nauðsynjamáls.