14.03.1932
Neðri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2882)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Sveinbjörn Högnason:

Mér þykir leitt, að hv. þm. Borgf. er ekki viðstaddur, því að ég ætlaði sérstaklega að beina orðum mínum til hans.

Hv. þm. fann sig skyldaðan til að útskýra rækilega, hvað vekti fyrir flm. frv., og ég er honum sammála um það, að það er ekki vanþörf á að skýra það nánar en fram er tekið í frv. sjálfu. Hann sagði, að það vekti fyrir þeim að styrkja flutninga frá þeim héruðum, sem eru aflögufær og til þeirra, sem verða að kaupa þessa voru, m. ö. o., að það vekti fyrir þeim hið sama sem við þm. Rang. fórum fram á í till. okkar. En hvar í till. landbn. er stafur fyrir því, að þeir vilji gera þetta? N. vill binda þetta eingöngu við ríkisskipin, en þá er þetta ekki almennur styrkur, en eftir okkar till. er hann almennur. Með henni er það sett skýrt fram, sem hv. þm. Borgf. sagði, að hefði vakað fyrir flm. Ég get ekki séð, að frv. sé nokkuð nema fálm, ef þessi till. er ekki samþ., sent er grundvöllur frv., að því er flm. segja sjálfir.

Það er einkennilegt, að hv. þm. skuli vilja takmarka þennan styrk svo mikið, að hann skuli ekki ná til annara en þeirra, sem eru svo í sveit settir, að þeir geta flutt með ríkisskipunum. Það á ekki að styrkja flutning frá Borgarnesi, ekki úr Dölum, ekki úr Árnessýslu, ekki úr Rangárvallasyslu, ekki úr Vestur-Skaftafellssýslu. Það er ómögulegt annað en að fá grun um það, sem vakir fyrir hv. þm. Þetta ákvæði á að vera til að styrkja flutninga á kartöflum ofan af Skaga. Þegar hann er að tala um, að sú eina almenna till., sem fram hefir komið í málinu, sé sú aumasta hreppapólitík, þá er hann farinn að gera lítið úr eftirtekt hv. þdm. Þegar hann er að tala um, að við, sem flytjum þessa till., höfum asklok yfir okkur, þá má áreiðanlega miklu fremur segja, að hann í þessum hlutdrægniskröfum sínum hafi í þessum efnum mjög takmarkaðan himin, og sú eina stjarna, sem skín á þessum himni hans og hann tekur stefnu eftir, er Akraneskartaflan og ekkert annað.