17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2885)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Björn Kristjánsson:

Ég á hér 2 brtt. á þskj. 194, sem ég ætla að gera lítilsháttar grein fyrir.

Í 2. gr. frv. er ákveðið, að bann á innflutningi kartaflna skuli auglýst með þriggja vikna fyrirvara. Mér þykir þessi fyrirvari allt of stuttur og hafði því hugsað mér að koma með brtt. í þá átt að lengja frestinn, en við nánari athugun álít ég það varla hægt, vegna þess að skýrslusöfnun Búnaðarfélagsins um kartöfluuppskeruna mundi taka svo langan tíma, og þá mundi bannið koma of seint til framkvæmda, til þess að það kæmi að gagni. Það er áreiðanlegt, að þessi frestur er of stuttur fyrir ýmsa landshluta. Í Reykjavík kemur það kannske ekki að sök eða á öðrum stöðum, þar sem góðar samgöngur eru. En um hafnir úti um land er öðru máli að gegna. Sumstaðar eru samgöngurnar svo slæmar, að skip kemur ekki nema einu sinni í mánuði eða annan hvern mánuð sumstaðar, og á þeim stöðum verður að senda pantanir löngu áður en ætlazt er til, að vörurnar komi. Þær vörur, sem eiga t. d. að koma seint í sept. eða okt., verður að panta seint í júlí eða í byrjun ágústs. Um það leyti veit enginn, hvort innlendar kartöflur muni verða fáanlegar eða hvort banna á innflutning þá. Mönnum er því einn kostur nauðugur, til þess að tryggja sig gegn kartöfluskorti, að senda pantanir löngu fyrirfram. Verði svo innflutningsbann ákveðið, þá eru kartöflurnar, þegar þær loks koma, bannvara. Frv. ákveður, að undir þeim kringumstæðum verði kartöflurnar gerðar upptækar, auk þess sem við liggur 200–20000 kr. sekt að selja þær. Mér finnst þetta ákaflega ranglátt og ég get ekki sætt mig við, að frágangur frv. sé á þessa leið. Ég vildi því leggja til, að við gr. bætist: „Á sama hátt getur atvmrh. veitt undaþágu fyrir afskekktar hafnir“. Með þessu á ég við, að atvmrn. sé heimilt að veita hlutaðeigandi verzlunum undanþága þannig, að þær verði lausar við að greiða sektir, og kartöflurnar verði ekki gerðar upptækar. Ég hefi minnzt á þessar brtt. við suma þá hv. þm., sem sæti eiga í landbn., og heyrðist mér þeir taka því líklega að geta greitt henni atkv., og er ég þeim þakklátur fyrir það. En fari svo, að till. verði felld, þá sé ég mér ekki fært að greiða atkv. með frv. í heild sinni.

Ég vildi benda hv. landbn. og öðrum hv. dm., sem ætla sér að ljá þessu máli fylgi, á það, að ef þessu verður ekki breytt, þá megi búast við, að lögin verði óvinsæl, og litlar líkur til, að þau haldist lengi.

Ég átti aðra brtt. á sama þskj., við 4. gr., sem ég gerði að umtalsefni við 2. umr., en það samdist svo milli mín og hv. landbn., að ég tæki þessa till. aftur. Að vísu er ég ekki ánægður með að sleppa henni, en þar sem n. tekur fjarri að ljá henni fylgi, þá sé ég ekki til neins að bera hana fram. Ég get líka sætt mig við afgreiðslu laganna, ef fyrri brtt. verður samþ.

Aðalástæðan gegn seinni brtt. er sú, að erfitt yrði að framfylgja þessu og dæma um samanburð á verði á innlendum og útlendum kartöflum. Ég hygg, að þetta sé ekki eins erfitt og sumir halda fram, og ég vildi í því sambandi benda á það, að í fjárl. hefir staðið ár eftir ár heimild fyrir ríkisstj. til að borga S. Í. S. verðmuninn, sem kynni að verða á frosnu og söltuðu kjöti, að hálfu leyti. Sá útreikningur, sem er í sambandi við þessar 2 tegundir af kjöti, er miklu erfiðari en útreikningur um verðmun á kartöflum.

Að síðustu vil ég minnast á það, þar sem hv. 2. þm. Rang. beinir til mín og hv. 1. þm. Skagf., að við sýnum eigingirni og hlutdrægni í þessu máli og ætlumst til sérstaks styrks til flutninga í viðbót við það, sem við hefðum af almennum strandferðastyrk. Ég vil alls ekki kannast við það, að mínar till. séu þannig lagaðar. Ég ætlaðist ekki til, að þessi styrkur yrði veittur, nema innlendu kartöflurnar reyndust dýrari en þær útlendu. Þennan styrk má því miklu fremur skoða sem styrk til framleiðenda en neytenda, því að hann miðaði þá að því að gera framleiðslu þeirra samkeppnisfæra á innl. markaði, en ekki til hins að lækka kartöfluverð frá því sem það annars mundi verða. En nú hefi ég sem sagt tekið seinni till. aftur og vona, að hv. þd. geti fallizt á fyrri till., og við það sætti ég mig, en verði hún felld, sé ég mér ekki fært að greiða atkv. með frv., þótt mér þyki það mjög leitt.