21.05.1932
Neðri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

3. mál, landsreikningar 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

ég hefi álitið rétt að láta fara fram 2. umr. án þess að blanda mér inn í umr., af því að þeir, sem hafa rannsakað LR., hafa vitaskuld haft aðstöðu til þess að tala um málið ýtarlega fyrir þá umr. Hinsvegar fannst mér sjálfsagt að taka til máls við 3. umr., þegar búið er að athuga einstaka liði og tala um þau atriði, sem mest er deilt um í LR. Flest þessi atriði hafa að vísu verið mikið rædd áður, en aðallega er álitið nauðsynlegt að deila um þau hér á Alþingi meðan reikningarnir eru fyrir hendi, þó að hinsvegar margir, sem valið hafa gagnrýni á þeim, trúi ekki mikið á málstað sinn.

Ég ætla fyrst að minnast á þá gagnrýni, sem hefir komið fram, ekki sizt frá hv. 2. þm. Skagf., í sambandi við Sigvalda Kaldalóns. Hann hefir haldið því fram, að það muni hafa verið óheimilt, að stj. skyldi láta Sigvalda Kaldalóns halda sömu launum í Keflavík eins og hann hafði í Flatey. Því er þar til að svara, að þetta er, eins og það hefir verið orðað, stríðsráðstöfun. Ég vil minna hv. 2. þm. Skagf. á annað atriði, sem kom fyrir í hans stjórnartíð, þegar hann var í fyrra skiptið ráðh. Það var líka í sambandi við heilbrigðismál. Það stríð, sem hann stoð þá í, varð landinu bæði hættulegra og dýrara en þetta stríð. Ég á við það, þegar hv. þm. árið 1921 áleit, að draga yrði saman hér til þess að ná útlendum dreng, sem vissir læknar álitu, að gæti stafað sýkingarhætta af. Stj. tók trúanlega þessa yfirlýsingu læknanna og kostaði til tugum þús. til að knýja þetta mál fram. Nú ætla ég að vísu ekki að fara út í þetta mál, en ég álít, að það hefði verið erfitt fyrir stj., fyrst hún tók þessa menn trúanlega, annað en að fylgja fram þeirra stefnu. En ég get bætt því við, að síðar hefir reynzt, að það væru rangar upplýsingar, sem stj. voru gefnar, fyrir vanþekkingu þeirra lækna, sem attu hlut að máli. En á því á hv. 2. þm. Skagf. ekki sök, því að hann gat ekki annað en trúað læknunum. Þess vegna álít ég, að eins og hann var settur, hafi hann ekki getað annað en lagt í kostnað til þess að gera það, sem þeir álitu að væri að verja þjóðskipulagið. Hv. þm. er það kunnugt, að það var lagt stórfé í byssur og barefli og ýmislegt, sem vissulega heyrir til hernaði. En það, sem aftur á móti var um að ræða í þessu tilfelli, var það, að viss stétt af starfsmönnum þjóðfélagsins, héraðslæknarnir og nokkrir af embættislausum læknum, höfðu tekið það í sig, að þeir skyldu í raun og veru taka veitingarvaldið á héraðslæknaembættunum af stj. Það var ekki einungis, að í þessu væru héraðslæknar, sem kom þetta við, heldur líka menn, sem aldrei hafði dottið í hug að sækja um héraðslæknisembætti. Svo fjárstæð sem þessi samtök voru af héraðslæknunum, þá álít ég, að það hafi verið hálfu fjarstæðara af þeim, sem ekki kom þetta neitt við. Ef þetta hefði tekizt hjá héraðslæknunum, þá hefði verið brotið skarð í okkar þjóðskipulag, því að ef hver einstök stétt hefði getað farið þannig að, þá hefði verið komið hér á öðru skipulagi en því, sem lögfest er nú. Á sama hátt hefði kennarafélagið getað tekið að sér allar veitingar kennaraembætta, og sýslumenn og embættislausir lögfræðingar getað tekið að sér að veita embætti, og þá nattúrlega líka í hæstarétti eða væntanlegum fimmtardómi, sem mikið hefir verið talað um nú. Það er hér um að ræða, hvort þjóðfélagið vili leyfa einstökum stéttum að taka sér þessi ráð. Eins og hv. 2. þm. Skagf. og Jón heitinn Magnússon tóku til sinna ráða, þó að það kostaði nokkurt fé, að gera það, sem þeir álitu þá, að þyrfti til þess að halda uppi þjóðskipulaginu, þannig var farið að í þessu máli. Læknafélagið hafði stungið í sinn vasa um 20 umsóknum, sem ekki voru látnar koma fram, og ætlaði að kúga stj. til að taka þann mann, sem þeir vildu. Þess vegna er það, að ég hefi leyft mér að líkja þessu við þennan fyrri hernað íhaldsstj., en álít bara, að stj. hafi betri málstað nú, því það er ekki um það að deila, að hún hefir rétt mál, en í fyrra skiptið hélt hún sig hafa rétt mál, en það var bara ekki. Þess vegna verða menn að meta, hvort þeir vilja heldur, að stj. hefði látið undan og með því skapað fordæmi, sem bókstaflega leysti upp allar gildandi reglur og venjur viðvíkjandi embættaveitingum. Ef hv. þm. álítur, að stj. í raun og veru geri aldrei svona samninga og megi það heldur alls ekki, þá vil ég benda honum á, að gerðir hafa verið samningar við hann sjálfan, sem eru hliðstæðir við þetta. Hv. þm. veit, að fyrir nokkrum árum, áður en hann komst í stj., eða jafnvel áður en hann var kosinn á þing, voru gerð l., sem afnámu eftirlaun ráðh. Þetta var auðvitað alvarleg meining, að ráðh. skyldu ekki vera á eftirlaunum. En nú geta menn séð það á LR., að hv. 2. þm. Skagf., sem varð ráðh. eftir að l. gengu í gildi, er á eftirlaunum. Hann hefir samið svo um við stj., sem tók við af honum, að hann skyldi vera á eftirlaunum. Hv. þm. veit það vel, að það er töluvert annað um þá menn, sem hafa verið ráðh. áður, eins og Sig. Eggerz og Einar Arnórsson. Annar þeirra er á eftirlaunum. Þeir eiga líka óskerðan rétt á því vegna l., en hv. 2. þm. Skagf. hefir rétt yfir 1 þús. kr. á þennan hátt, sem a. m. k. er ekki margt að sjá neinn „móralskan“ grundvöll undir, þegar maður lítur á það, að komin voru l., sem áttu að útiloka þetta. Ég býst við, að hv. þm. komi með skýringar frá sínu sjónarmiði, og mun ég þá gefa honum viðbótarskýringu. (MG: Ætli ég hafi ekki skýringu?) ég býst ekki við, að sú skýring geti afsakað þetta, því að það er leiðinlegt fyrir hann að vera á þessum eftirlaunum. (MG: En ef ég skyldi hafa til þess lagaheimild?). Við skulum athuga það, þegar lengra sækir á málið, og láta þess vegna þetta atriði vera, af því að það er í sjálfu sér fullljóst, hvernig það mál liggur fyrir. Ég get að vísu bætt því við viðvíkjandi þessari veitingu, að skoðun heilbrigðisstjórnar á þeim eina manni, sem Læknafélagið ætlaði að veita, kom ekki málinu við. Það getur vel verið, að hann eða einhverjir af þeim, sem sóttu til Læknafélagsins, hefðu fengið þetta embætti, ef þeir hefðu sótt á löglegan hátt. Hér var því aðeins um það að ræða, hvort stéttarfélag ætti að fara ólöglega með þetta vald eða stj. löglega.

Þá er það annað mál, sem hv. 2. þm. Skagf. hefjr talað mikið um, og það er búið á Reykjum í sambandi við landsspítalann. Þar er því til að svara, að eins og honum er kunnugt, þá voru 1919 sett lög, sem heimiluðu stj. m. a. að byggja landsspítalann og taka til þess lán. Svo var þetta lengi á döfinni og mörg vafaspursmál voru á þessu. M.a. vildu aðstandendur spítalans láta hyggja starfsmannabústað fyrir 40–50 manns, og það hefði kostað svo skipti hundr. þús. Þó þetta verði að gera á sínum tíma, þá var tekið það ráð að láta starfsfólkið búa í spítalanum, þar sem berklasjúklingar mundu annars vera. Með því að koma þessu þannig fyrir hafa landinu verið spöruð mjög mikil útgjöld, bæði í stofnkostnaði og rekstrarkostnaði, um stundarsakir. En aftur á móti hefir stj. komið upp búi fyrir landsspítalann austur á Reykjum. Ég veit, að hv. þm. er ekki ókunnugt um það, að hinir tveir stóru spítalar við Reykjavík, Vífilsstaðir og Kleppur, hafa stór bú fyrir sig, sem landið hefir orðið að leggja í, bæði ræktun og byggjngu og allt annað, sem þar við kemur. Það hefir verið álitið, að rétt og nauðsynlegt væri að gera það. Þó að menn segi, að Vífilsstaðaspítalinn hafi sjálfur komið upp búinu, þá hefir hann komið því upp á þann hátt, að þessi ríkisrekstur, sem er á spítalanum, hefir borgað kostnaðinn með því að selja mjólkina dýrari en hún var búinu í raun og veru, og þar með gert fæðiskostnaðinn dýrari en hann hefði annars þurft að vera.

Ég býst við, að hv. 2. þm. Skagf. sjai, að það var ómögulegt að setja upp bú fyrir landsspítalann á svipaðan hátt og hjá hinum spítölunum, því að hann hefir ekkert land við Rvík. Hinsvegar hafði landið eignazt jörð fyrir austan. Þar var að mörgu leyti æskilegt að fá einhverja starfrækslu við þennan spítala, sem vantaði aðstöðu til að setja upp bú. Nú hefir þetta verið gert, svo að spítalinn fær þaðan meiri hlutann af sinni mjólk, og það mikið ódýrari en hann hefði getað fengið hana annarsstaðar frá. Þetta sparar spítalanum svo þús. skiptir á ári í rekstrarkostnað. Hitt er þó máske meira atriði fyrir spítalann, þar sem á þriðja hundrað manns er á fæði daglega, að frá búinu er hægt að fá allskonar garðmeti, bæði mikið og ódýrt. Þessi glerhús, sem hafa verið byggð á Reykjum fyrir fé landsspítalans, eru á hans búi, sem hann notar fyrst og fremst fyrir sig, og ennfremur, eins og Vífilsstaðir og Kleppur selja sína mjólk að nokkru leyti í bæinn, eins selur Reykjabúið sitt margháttaða kálmeti hér í Rvík og annarsstaðar. Ég býst við, að hv. þm. eigi erfitt með að halda því fram, að þetta hefi verið slaem búmennska hjá stj., þar sem ýtt var fastlega á hana að eyða þrefalt meiru í starfsmannabústað, sem mundi hafa aukið rekstrarkostnaðinn, en hún vann að því, að spítalinn fengi aðstoð til búrekstrar á eign, sem landið átti og hafði ekki fjárhagslegan hagnað af að nota öðruvísi. Ég býst ennfremur við, að á svona tímum, þegar okkar land reynir af veikum mætti að koma meiri fjölbreytni í alla framleiðslu og hefir maske ekki meiri möguleika til þess en í aukinni garðrækt, að mönnum muni ekki þykja illa til fallið, að þessi eign verði til þess að hjálpa, ekki aðeins num, heldur einnig almenningi hé í Rvíik og Hafnarfirði um garðmeti, sem annars verður flutt frá fjarlægum löndum, eins og t. d. í fyrra, þegar seldir voru hér tómatar frá Ítalíu. Ég geri ráð fyrir, að það muni ekki þykja lakara að geta fengið hér innlendan garðavöxt.

Hv. þ.m. hefir oft minnzt á það allýtarlega, að það væri ekki viðeigandi, að landsstj. hefði bíla til umráða og að það héldist við sá hestastofn, sem var í bæði skiptin, sem hann var sjálfur í stj. Ég verð að játa það um leið og ég kem að hestunum, að mér finnst það undarlegt, að maður, sem hefir haft mikið hestahald fyrir ríkið árum saman á sama hátt og nú, skuli álíta, að það þurfi að leggja það niður, þó að önnur stj. komi. Í öðru lagi finnst mér, að maður eins og hv. 2. þm. Skagf. ætti ekki að vera á móti hestum, af því að hans kjördæmi elur þá mest upp og selur víða út um land. En ég vil segja það til afsökunar bæði fyrir mig og hv. 2. þm. Skagf. og alla, er syndgað hafa með því að koma á bak þessum hestum og látið aðra gera það, að ástæðan til þess, að í tíð Jóns Magnússonar var byrjað á því að hafa þessa hesta, var sú, að þá eins og nú starfaði við landið útlent varðskip, sem vitanlega var ekki kostað af okkar landi, en vann þó fyrir landið. Ég skal ekki segja um það fyrir víst, hvernig þetta hestahald landhelgissjóðs byrjaði. Hv. 2. þm. Skagf. er það sjálfsagt kunnara en mér. Ég hygg þó, að það hafi byrjað þannig, að Jón heit. Magnússon hafi keypt þá, til þess að geta lánað varðskipsforingjunum þá til stuttra ferða um nágrennið, er þeir vildu létta sér upp, þegar varðskipin lágu hér í höfn. Þetta var vitanlega kurteisi og velvild gagnvart varðskipsforingjunum, er þarna kom fram, en hreint ekki skylda. En svo komst sú venja á — ég veit ekki, hvort hv. 2. þm. Skagf. vill kalla það óvenju —, að ráðherrarnir fóru sjálfir að bregða sér á bak þessum gæðingum, þegar þeir þurftu að ferðast, og þar á meðal er þeir þurftu að fara í kosningaleiðangra. Þannig notaði hv.- 2. þm. Skagf. þá, er hann var ráðh., til að ferðast á þeim norður í sitt kæra kjördæmi. Fyrir þetta hefi ég aldrei ávítt hv. þm. Mér þykir ekki nema eðlilegt, að ráðh. hafi þessi hlunnindi, fyrst farartækin eru til á annað borð.

Ég er nú sjálfur svo settur í þessu efni, að ég hefi ekki sömu freistingu og hv. 2. þm. Skagf. til að nota hestana á sama hátt. Kjósendur minir eru dreifðir svo víðsvegar um land allt, að mér mundi aldrei vinnast tími til að heimsækja þá alla með því að ferðast á hestbaki.

Ég verð nú að gleðja eða hryggja hv. 2. þm. Skagf. með því að segja honum það, að hestaeign landhelgissjóðs hefir gengið mjög saman nú í seinni tið, því nú eru ekki eftir nema 2 klárar. Og við þá hestaeign verður alls ekki bætt af þeirri stj., sem nú situr. Það getur því vel verið, að hv. 2. þm. Skagf., ef hann tekur bráðlega við af mér, muni vilja halda uppi heiðri síns kjördæmis, sem, eins og kunnugt er, er mikið hrossaræktarhérað, með því að fjölga hestunum aftur. Vonandi hendir það hv. þm. aldrei að fara að notfæra sér stjórnarráðsbílana, ef hann eignast sæti í stj. landsins innan skamms! —

Ég er þá kominn að hinni miklu ásteytingarhellu, bílaeign ríkisins. Um hana er í raun og veru það eitt að segja, að stj. hefir á þessu sviði fylgt rás tímanna. Hafi það verið rétt og eðlilegt, að stjórnarráðið hefði ráð á hestum áður, vegna gesta sinna og annara þarfa, þá er það eins eðlilegt, að til sömu þarfa nú séu notaðir bílar. Þetta er sú þróun, sem gerzt hefir hér á jandi í þeim héruðum, þar sem vegir eru bílfærir. Nú er þetta mjög fátæklegt hjá stj., enda hart í ári. Þó hefir hún tvo 4–5 manna bíla. (MG: Er búið að selja alla hina?). Ég veit ekki, hvort hv. þm., sem fram í tók, á með þessari spurningu sinni við bíla hinna ýmsu ríkisstofnana, t. d. pósthússins, vegamálaskrifstofunnar, landssímans o. þ. h. En þótt hv. 2. þm. Skagf. kæmi strax upp í stjórnarráð í bílaleit, þá gæti hann ómögulega fundið fleiri en 2 bíla, sem heyra stjórnarráðinu til. Skeð getur reyndar, að stj. selji þessa bíla bráðlega, eða áður en hv. 2. þm. Skagf. og flokksbræður hans, sem hafa svo mikla óbeit á þessum farartækjum, setjast í stjórn, svo þessir 2 bílar freisti þeirra ekki. En meira en þessa 2 bíla getur hv. þm. aldrei tekið sem herfang, þegar hann vinnur aftur stjórnarráðið! ég vil benda hv. 2. þm. Skagf. á það, að þrátt fyrir kunnugleika hans hér í bænum, þá virðist hann þó ekki hafa fylgzt svo vel sem skyldi með þeirri þróun, sem orðið hefir hér í bænum hin síðari ár. Ef hann hefði gert það, þá mundi hann vart átelja það sem óspilunarsemi, þó að stj. hefði umráð yfir tveimur bílum fyrir gesti sína, starfsmenn, embættismenn, skólafólk og jafnvel sjúklinga, því að síðast í gær var dauðveik kona, er komast þurfti hingað á sjúkrahús, sótt austur í Rangárvallasýslu á öðrum bílnum, og voru aðstæður þannig, að það varð að teljast skylda landsins að gera það. Og yfirleitt er það svo, að þessir bílar eru notaðir í þágu þjóðfélagsins, og það á margvíslegan hátt. — Ég held, að hv. 2. þm. Skagf. hafi enn ekki áttað sig á því, að þessi spilling, sem hann er að átelja, sú að eiga bíla, er víðtækari en hann máske hefir grunað eða áttað sig á. Þannig hafa tveir bankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, komizt að þeirri niðurstöðu, að þeim væri nauðsynlegt að eiga bíla vegna starfsemi þeirra. Vegamálastjóri hefir komizt að sömu niðurstöðu. Póstmálastjórinn hafði a. m. k. bíl um stund, svo missirum skipti að ég held, vegna sinnar eigin þarfar og fjöldskyldu sinnar. Veit ég ekki nema hann hafi fengið sér bíl aftur. Einnig keypti Gísli heit. Ólafson landssímastjóri bíl handa símanum. þessi spilling hefir jafnvel gengið svo langt, að menntaskólinn hefir eignazt sinn bíl, sem hann hefir notað sér bæði til gagns og gleði. Ég get þó huggað hv. 2. þm. Skagf. með því, að ekki var miklu fé kostað til þá kassabíl frá einum af spítölum landsins. Hann var svo gerður upp og rúmar nú eitthvað 15 nemendur. Er hann mikið notaður, svo sem þegar kennararnir fara með nemendur burt úr bænum til að sýna þeim fagra eða einkennilega staði, eða þá til sunds eða róðra, þegar það er kennt. Þetta hefir aukið mjög íþróttalíf í skólanum og gert vistina þar skemmtilegri. Hv. þm. mun sjá það, ef hann lifir lengi — sem ég vona —, að einnig muni þykja nauðsynlegt; að menntaskólinn á Akureyri eignist líka bíl vegna kennslunnar þar. En þó það sé nauðsynlegt fyrir þessar stofnanir, er ég nefndi, að eiga bíl, þá hefir samt engin þeirra jafnmikið við bíla að gera eins og stj., jafnvel ekki vegamálastjórinn. Þau not, sem landið hefir af því að eiga bíla, eru afarmargvísleg og getur stórum sparað útgjöld. Ég skal nefna eitt dæmi, sem sýnir þetta. Þegar biskup landsins fór sína „visitaziu“ferð um Suðurlandsundirlendið, þá ferðaðist hann í stjórnarráðsbíl. Að fara í þessa yfirreið á hestum hefði tekið miklu lengri tíma. Biskup hefði þurft að hafa 6 hesta og fylgdarmann og ferðin orðið miklu dýrari. Það er ekki vafa undirorpið, að til þessara margháttuðu þarfa landsins er betra, að það eigi bílinn sjálft, heldur en að leigja bíl í hverju einstöku tilfelli. Þetta sýndi sig t. d., þegar konungur kom hingað í heimsókn 1921. Þá varð að offra mörg þús. kr. til þess að hæfilegur bíll væri til taks vegna þeirrar heimsóknar. Það getur naumast verið deiluatriði, að ódýrara verður fyrir landið að eiga sjálft bíla heldur en að leigja þá af öðrum. Ég hefi nú sýnt fram á það, að þau not, sem landið hefir af því að eiga bíla, eru næsta margvísleg. Mætti þó nefna margt fleira. Ég mun þó ekki nefna nema eitt, en það eru þau not, sem virðast hneyksla hv. 2. þm. Skagf. mest. En það eru þau not, sem ráðh. hafa af bílunum, er þeir ferðast með þeim. Nú kann að vera, að hv. þm. áliti, að það sé hreinasti óþarfi, að ráðh. séu nokkuð að kynna sér þau verk, sem ríkið lætur vinna í hinum ýmsu landshlutum, eða ástand og ástæður þeirra að öðru leyti. Hann álítur maske, að það séu einungis vegamálastjóri og landssímastjóri eða aðrir slíkir starfsmenn ríkisins, sem leyfi eigi að hafa til slíkra ferða. En hafi hv. þm. þetta álit, þá er það sprottið af hinni mestu afturhalds- eða kyrrstöðuhugsun. Stj. er og á að vera framkvæmdarstjóri þjóðarbúsins lögum samkv. Hún þarf því — og til þess ber henni skylda — að hafa sem gleggst yfirlit yfir þjóðarbúskapinn á hverjum tíma. Ef hún kynnir sér hagi og ástæður þjóðarinnar aðeins í gegnum þá pappíra, sem ganga gegnum skrifstofurnar í stjórnarráðinu, þá er áreiðanlegt, að margt fer fram hjá henni af því, sem hún þarf að sjá. Það er hverjum manni nauðsynlegt að kynna sér af eigin raun þau störf, sem hann á yfir að segja. Það er til saga um það, að ungri stúlku var ráðlagt að ganga minnst einu sinni á dag gegnum öll herbergi í höll eða húsi því, er hún átti að vera húsmóðir í. Hún fylgdi því ráði og játaði síðar, að með því hefði hún lagt grundvöllinn að hagfelldri stjórn heimilisins. Ef húsbóndinn athugar allt með eigin augum, þá verður um betri skilning og farsælli stjórn á öllu að ræða. Og ég get varla hugsað mér það, að hér á landi verði nokkurntíma svo mikil kyrrstöðustjórn, að hún finni enga hvöt hjá sér til að ferðast um og líta yfir, hvað verið er að gera, og um leið fá hugmyndir um, hvað vert sé að gera. Þó að það geti sjálfsagt verið praktískt að skamma stj. í eyru þjóðarinnar fyrir bílanotkun hennar, þá er sannleikurinn sá, að það, sem ráðh. nota bílana í eigin þarfir, er ekki nema örlítið brot af allri notkun þeirra. Aðalnotkunin fer fram vegna annara starfsmanna landsins og gesta þess. Það er t.d. venja, þegar herskip koma hingað, að sýna yfirmönnum þeirra Þingvöll eða aðra fagra staði hér í grennd. Eru það hvorttveggja í senn ódýrari og þó heppilegri viðtökur heldur en þó að dýrar vínveizlur væru haldnar vegna slíkra gesta. Nú í vor fór einn slíkur gestur skyndiferð til Þingvalla. Var það franskur skipstjóri, sem hafði víða farið og margt séð, eins og títt er um þessháttar menn. Hann stóð við eina klst. eða svo á Þingvöllum, og hann taldi, að engan greiða hefði verið hægt að gera sér betri hér en að veita sér tækifæri til að kynnast þessum tilkomumikla og einkennilega stað. Hann sagði, að af öllum þeim mörgu stöðum, sem hann hefði séð, mundu sér verða Þingvellir ógleymanlegastir. Svo fer um fleiri, er kynnast fegurð landsins okkar, bæði þarna og víða annarsstaðar. Ef gestir þeir, sem heimsækja okkur, fara héðan aftur burt með samúð og velvildarhug til lands og þjóðar, þá er vel farið. Og þeim litla kostnaði, sem því er samfara, er vel varið.

Ég verð að leiðrétta dálitla missögn, er kom fram hjá hv. 2. þm. Skagf. út af alþingishátíðinni á Þingvöllum og verndun Þingvalla. Ég vil þó fyrst láta ánægju mína í ljós yfir því, að hv. 4. þm. Reykv. hefir í skörulegri ræðu réttilega sýnt fram á það, að Þingvallan. skilaði af sér vel unnu starfi og hafði haldið vel á fjármunum ríkisins og án allrar eigingirni, enda fylgdi henni slík gifta í starfi, að alþingishátíðin öll varð til hins mesta sóma fyrir landið. Þessi orð eru rétt, enda hygg ég ekki, að þau verði vefengd. En það, sem ég vildi leiðrétta, var það, að hv. þm. hélt, að ég ætti einn heiðurinn af því að hafa viljað flytja burtu timburkofana og setja þá þar niður, sem þeir skemmdu ekki útsýnið, og að friða staðinn með því að girða hann. En þetta hvorttveggja var samþ. í n. Og sá, er stóð fastast með þessu, var flokksbróðir hv. 2. þm. Skagf., þav. hv þm. Dal., Sig. Eggerz. Hann leit á þetta eins og ég; að þar sem miklu þyrfti að kosta þarna til hvort sem var, þá væri sjálfsagt að haga þeim endurbótum þannig, að byggingarnar þarna yrðu ekki lengur til minnkunar fyrir þennan fræga sögustað. þetta var gert. En heiðurinn af því á, auk mín, að færast yfir á a. m. k. þrjá meðnm. mína.

Kem ég þá næst að kostnaðinum við byggingu Laugarvatnsskólans. Ég hefi í svari við aths. endurskoðendanna fært fram nokkur rök í því máli og þarf ekki að endurtaka þau. Ég vil þó fara nokkrum orðum um þetta mál, en ég mun tala um það frá víðara sjónarmiði en hv. 2. þm. Skagf. gerði. Ég mun þá fyrst benda á þann skoðanamun, sem er milli mín og hans í skólamálum yfirleitt. En sá skoðanamunur er einkennandi fyrir þá flokka, er við fylgjum, og er jafngamall a. m. k. og héraðsskólamálið. Þegar rætt var um stofnun Laugaskólans 1923, þá barðist sá flokkur, sem hv. þm. var í, gegn því máli. Síðan hefir það gengið eins, og má heita, að héraðsskólamálin hafi verið eins og venjuleg pólitísk mál eru vön að vera. En þó íhaldið hefði ótrú á svona málum, þá hafði æskan trú á þeim, og þess vegna sigruðu þau. Þessum árum, sem síðan eru liðin, hafa risið upp fjórir nýir héraðsskólar og sá fimmti hefir fengið stdra endurbót. Til þess að koma upp þessum skólum hefir fólkið í héruðunum lagt fram peninga, vinnu og ábyrgðir, og sýslufélögin sem slík hafa líka lagt fram fé til þeirra. Hefir fólkið í héruðum þessum hvarvetna sýnt í þessu efni hina mestu góðvild og fornfýsi. Sú skoðun hv. 2. þm. Skagf. og skoðanabræðra hans, að þessir skólar væru óþarfir, hafa hvarvetna orðið að þoka fyrir reynslunni. Með skólum þessum hafa komið upp fjölmörg ný verkefni, sem þörf er á að sinna. Þeir hafa auk aðalhlutverks síns verið notaðir fyrir allskonar námsskeið, sem samkomustaðir héraða, til gistihúsahalds og jafnvel sem lækningastofnanir vegna jarðhitans. Þessar skólastofnanir hafa átt meiri vinsældum að fagna en nokkrar aðrar slíkar stofnanir, sem reistar hafa verið.

Ég hefi bent á fyrri afstöðu hv. 2. þm. Skagf. til skólamálanna, því að það afsakar á vissan hátt, að hann gerir enn tilraun til að halda hinu sama til þrautar. En að því er aðfinnslur hans gagnvart Laugarvatnsskólanum snertir, þá býst ég við, að það sé einkum tvennt, sem hann þykist vilja fóta sig á. Hið fyrra er, að ekki hafi komið nóg framlag frá héraðinu á móti ríkisstyrknum, og hitt er, að ekki sé leyfilegt að leggja úr ríkissjóði til héraðsskóla meira en veitt er í fjárl. hvers árs. Ég tek fyrst til athugunar þá formlegu ástæðu. Hv. þm. hlýtur að vera það kunnugt, að í l. um kaupstaðaskólana, er ríkisstj. heimilað að taka lán til þeirra og héraðsskólanna. En þar sem nú stj. hefir skýlausa heimild til að taka lán til þessa, hvers vegna má hún þá ekki allt eins vel leggja það fé fram úr ríkissjóði, þegar ástæður leyfa það? Ég get a. m. k. ekki séð, að neitt verra sé að leggja féð þannig fram heldur en að taka sérstakt lán til þess. En til þess hefir stj. samkv. nefndum l. alveg skýlausa heimild, svo hún geti fullnægt framlagi til skólanna að sínum hluta.

Ég kem þá að hinu atriðinu, að meira hafi verið lagt úr ríkissjóði í byggingu Laugarvatnsskólans heldur en framlagi héraðsins hefir numið í peningum Ég hefi í svari mínu sýnt fram á það, hve illa hafi verið að þessum hluta landsins búið, svo að þó ríflega hefði verið lagt fram úr rikjssjóði, miðað við framlag héraðsins, þá hefði það ekki verið annað en sjálfsögð réttlætisskylda, til að bæta fyrir gamalt ranglæti, sem héraðið hefir orðið fyrir.

Hv. þm. getur ekki neitað því, enda reyndi hann það heldur ekki, að Sunnlendingar voru sviptir skóla sínum á þeim tíma, þegar þjóðin var ekki vel sjálfráð um, hvað gert var í þeim efnum, menningarstofnun, sem búin var að starfa í þessu héraði í margar aldir. En þegar þjóðin fór aftur að koma á fót skólum í landinu, vildi svo til, að Suðurlandsundirlendi gleymdist. Suðurnesin fengu skóla í Reykjavík, Borgarfjörður, Dalasýsla, Vestfirðir, Húnavatnssýsla, Skagafjörður, Eyjafjörður og Múlasýslur fengu skóla, en sýslurnar á Suðurlandsundirlendinu fengu engan, fyrr en Laugarvatnsskólinn var reistur. Ég býst ekki við, að hv. þm. rengi það, að þekktasti núlifandi sagnfræðingur okkar, Páll E. Ólafsson, hafi verið fær um að reikna út, hvað eignir Skálholtsstóls hefðu gefið af sér nú. Útreikningur hans sýnir, hvernig að Sunnlendingum hefir verið búið, hvað miklu þeir hafa verið sviptir.

Þa er hv. þm. kunnugt um, þvílíku harðræði sú stjórn, sem hann sjálfur átti sæti í, beitti Sunnlendinga næstsíðasta árið, er hún sat að völdum. Það var ekki hv. þm. sjálfur, en það var samverkamaður hans, sem nú er dáinn, sem braut niður skólahreyfingu þeirra 1926 og kom þeim glundroða á, að þegar byrjað var aftur, fengust ekki um 60 þús. kr. af því fé, sem búið var að lofa til skólans, og sem fengizt hefði, ef byrjað hefði verið á byggingu hans 1926 eins og til stóð. Þetta er auðvitað ekki heldur bein röksemd, sem hv. þm. tekur gilda, þannig að hægt sé að telja þessa 60 þús. bókstaflega sem innskotsfé til skólans, en það sýnir bara, hvernig farið hefir verið að við þennan landsfjórðung og hvað veika aðstöðu hv. 2. þm. Skagf. hefir til þess að koma hér fram á eftir, þegar búið er að leysa málið, og vilja bæta nýju ranglæti ofan á það, sem áður er komið.

Hv. þm. spurði um viðbótarlista þann yfir framlög til skólans frá hálfu byggingarnefndar, sem endurskoðunarmenn skólans hafa sent, og vildi fá um þær upphæðir einhverja nánari vitneskju. Það er enga vitneskju um þetta að gefa fram yfir það, sem listinn sjálfur sýnir. Það hefir verið keyptur helmingurinn af jörðinni. Það hefir verið byggt leikfimishús, sem nemendur og kennarar skólans hafa unnið að í hjáverkum sínum, án þess að taka nokkuð fyrir. Og það hefir verið byggður kennarabústaður. Þessir hlutir hafa að nokkru leyti verið gerðir í skuld, en það eru þó eignir, sem skólinn leggur fram af sinni hálfu í þetta félagsbú, og sem hann afborgar sumpart með húsaleigu nemendanna yfir veturinn og sumpart með því, sem hefst upp úr skólahúsinu yfir sumarið.

Sumt af því, sem endurskoðendur skólans tilgreina, eru beinlínis gjafir til skólans, eins og t. d. listaverk, sem metin eru á 20 þús. kr. Það verður nú ef til vill sagt, að það sé ekki brýn nauðsyn fyrir neinn skóla að eiga slíka hluti, en það sýnir, hvað mikilla vinsælda þessi skóli nýtur, að hann á nú þegar fleiri listaverk heldur en nokkur einstaklingur á landinu, sem ýmsir af listamönnum landsins hafa gefið honum.

Steyptu steinarnir, sem endurskoðendurnir meta á 7000 kr., eru þannig til komnir, eins og hv. þm. ætti að vita, að fyrsta árið, sem skólinn starfaði, unnu heir Jakob Lárusson og Guðmundur Ólafsson að því með nemendum að steypa þessa steina, sem svo voru notaðir í bygginguna. Er mat þeirra miðað við það, sem þeir hefðu kostað, ef menn hefðu verið teknir fyrir venjulegt kaup til þess að steypa þá. Auk þessa hafa ýmiskonar umbætur verið gerðar á skólanum og umhverfis hann, sem skólinn hefir lagt mikið fé í af tekjum sínum, gróðanum af sumarstarfseminni o. s. frv. Reikna endurskoðendurnir þær eins og þær kostuðu.

Rúmin og þeir aðrir húsmunir, sem nefndir eru á listanum, eru gjafir til skólans. (MG: Frá hverjum?). Það getur hv. þm. spurt endurskoðendurna um. (MG: ég hefi endurskoðað reikninga skólans). Hann getur líka spurt skólastjórnina um þetta. Ég er ekki skyldugur tll að standa reikingsskil á því, hvað Gunnlaugur Blöndal, Ásgrímur Jónsson eða einhverjir aðrir gefa þessum skóla. Hv. þm. getur skoðað þessa hluti, ef hann vill; skólinn á þá, þeir eru þess virði, sem þeir eru metnir, og það er það, sem máli skiptir í þessu sambandi. Ég get t. d. bent hv. þm. á, að einn flokksbróðir hans, sem sæti á hér í hv. d., hefir gefið skólanum 500 kr. (MG: Þær eru tilfærðar á reikningum skólans). Þetta kemur þá væntanlega einhverntíma á reikning líka. Og hv. þm. kemur það ekkert meira við heldur en aðrar gjafir til skólans, sem maður fer ekki að rifja upp hér, hverjir gefið hafa.

Þá kem ég að langsamlega stærsta atriðinu í þessu efni, sem mest hefir farið fyrir brjóstið á hv. þm. og aðalflokksblaði hans. Er það mat tveggja manna, sem hafa verið trúnaðarmenn landstj. í öllu því, er að byggingum lýtur, um 10–12 ár, á notagildi jarðhitans fyrir skólann, sem telja má, að byggingarnefndin hafi lagt til. Hv. þm. veit það e. t. v. ekki, að áður en ákveðið var að byggja skólann á Laugarvatni, urðu miklar umr. um að hafa hann neðar í sýslunni. M. a. var stungið upp á að hafa hann við Ölfusárbrú, sem liggur bezt allra staða í Árnessýslu við samgöngum. Þess vegna er sanngjarnt að meta verðgildi jarðhitans á Laugarvatni fyrir skólann eftir því, sem hitinn hefði kostað hann, ef hann hefði verið niður við Ölfusárbrú. Matið á afnotum þessara náttúrugæða er miðað aðeins við þann 8 mánaða tíma, sem aðalskólinn og námsskeiðin standa yfir.

Telst svo til, að þau spari 18 þús. kr. á ári. Svarar það til rúmlega 300 þús. kr. höfuðstóls, þegar reiknað er með 6% vöxtum. Af því hv. þm. er sjálfur mikill búmaður, dettur engum í hug, að hann sé svo blankur að álíta þetta verðmæti einskis virði fyrir skólann. Við skulum hugsa okkur, að hann hefði t. d. átt heita laug niður við Ölfusárbrú og skólinn hefði verið reistur þar. Svo hefði hann samið við stofnunina að leigja henni hitann, í stað þess sem hún annars hefði þurft að hita upp með kolum. Hann hefði áreiðanlega miðað verð heita vatnsins við það, sem það hefði kostað fyrir skólastofnunina að fá hitann á annan hátt. Engum prívat manni mundi detta í hug annað en nota sér það, hvers virði hitinn raunverulega er. En það, sem hv. þm. ætlast til af byggingarnefnd skólans, er það, að hún leggi hitann fram sem einskis virði, hitann, sem búið er að sanna með útreikningum, að er 300 þús. kr. virði fyrir skólann nu. Og í framtíðinni verður notagildi hans ennþá meira, eftir því meira, sem byggingunum fjölgar og skólinn vex. Ennþá er ekki notaður nema ca. 1/50 hluti af hitamagninu, sem þarna er til.

Hv. þm. benti á, að ef meta ætti jarðhitann á Laugarvatni til peninga sem framlag frá héraðinu, þá hefði ríkisstj. eins getað reiknað jarðhitann á Reykjum og í Reykholti sem framlag frá ríkissjóði til skólanna þar. Það er alveg rétt, að þetta hefði landsstj. getað, en hún óskaði alls ekki eftir að gera það. Landsstj. eða þjóðfélagið hefir töluvert aðra aðstöðu heldur en prívat menn. Það veit hv. þm. Þar sem landsstj. vann sérstaklega að því og með töluverðum áhuga að koma skólunum í Reykholti og á Reykjum upp, datt henni vitanlega ekki í hug að leggja þar sérstaka erfiðleika í veginn, þegar líka héraðsbúar tóku mjög myndarlega í málið.

Ég skal nú skýra það fyrir hv. 2. þm. Skagf. með nokkrum dæmum, hvað mikill munur er á því, hvort það er ríkið eða einstaklingur, sem fær aðstöðu til þess að heita sér á líkan hátt og hér er um að ræða. Við erum víst báðir dálítið kunnugir vestur við Breiðafjörð. Þar er jörð ein í eigu manns, sem búsetttur er hér í Reykjavík. Maðurinn, sem á þessari jörð bjó, byggði þar steinhús, sem sennilega hefði verið selt á 10 þús. kr., ef það hefði verið hér í Rvík. Nú fór maðurinn burt af jörðinni, og eftir núgildandi ábuðarlögum bar hvorki næsta ábúanda jarðarinnar eða eiganda hennar lagaskylda til að kaupa húsið kostnaðarverði. Niðurstaðan varð sú, að jarðareigandinn bauð manninum að kaupa húsið fyrir eitt þús. kr. Ég skal ekki um það segja, hvrnig þessi skipti fóru, en mér þykir líklegt, að fráfarandi hafi orðið að sætta sig við þetta verð fyrir húsið.

Þa skal ég nefna annað dæmi til þess að sýna, að þjóðfélagið getur ekki beitt sér á þann hátt, sem þessi jarðeigandi gerði. Það er núna verið að skipta upp Garðatorfunni á Álftanesi. Í fyrradag kom til mín kaupmaður úr Hafnarfirði og skýrði frá því, að hann hefði byggt hús fyrir 7 þús. kr. þarna suður frá, á landi, sem hann hefði haft samningsbundinn rétt til að byggja á En það var ekki samkv. fullri lagaheimild, og við þessi skipti kvað hann eiga að leggja þetta land undir aðra jörð og að hann mundi þá tapa öllu saman. Hann var því bókstaflega eins settur og bóndinn vestur á Breiðafirði; það var hægt að búa þannig að honum, að hann tapaði mestum hluta af andvirði hússins. Ég bað þennan mann að finna skrifstofustjórann í 1. skrifstofu og tala við hann um málið. Þegar ég svo leitaði aftur álits skrifstofustjórans um þetta, þá sagði hann, eins og flestir mundu hafa gert í hans sporum, að það væri ómögulegt fyrir ríkið að láta fara þannig að við manninn, það yrði að játa hann hafa landið, því það næði engri átt að fara að eyðileggja fyrir honum þau verðmæti, sem hann væri búinn að binda þar. Ég gekk inn á þetta, og við reyndum svo að gera ráðstafanir til þess, að ekki yrði farið með þennan mann á sama hátt af hálfu hins opinbera eins og hinn prívat gróðamaður, sem átti jörðina vestur á Breiðafirðinum, fór með landseta sinn.

Við getum athugað fleiri dæmi. Við getum borið saman mannaráðningar ríkisins og einstakra manna eða félaga. Hv. þm. veit, að það er svo t. d. á togurunum okkar, að ef hásetar verða lasnir eða of gamlir, þá er þeim kastað á land fyrirvaralaust. Þeir hafa engan rétt til launa nema meðan þeir einstaklingar, sem togurunum stjórna, vilja nota vinnu þeirra. Aftur fer ríkið öðruvísi að við þá menn, sem það hefir í sinni þjónustu. T. d. hefir þingið haft þann sið í mörg ár að bæta nokkur hundruð krónum við þau eftirlaun, sem prestar fá lögum samkv., þegar þeir eru orðnir gamlir og hættir störfum. Og yfirleitt hjálpar ríkið þeim mönnum, sem lengi hafa verið í þess þjónustu. Það hefir því lítið öðruvísi á sína mórölsku aðstöðu gagnvart þeim, sem það á skipti við, heldur en einstakir gróðamenn gera.

Svo framarlega, Sem landsstj. gekk inn á, að þau verðmæti, sem byggingarnefndin leggur fram, séu rétt metin, þá var hún bundin við að sýna hina sömu mildi og mannúð í þessum efnum, sem yfirleitt einkennir framkomu ríkisins og Alþingis gagnvart einstaklingum og stofnunum þjóðarinnar. Stj. veit ekki annað en að matið á heim náttúrugæðum, sem skólinn nýtur, sé satt og rétt, og hún getur ekki hundsað það framlag héraðsins nema með því að halda áfram að níðast á Sunnlendingum, bæta nýju harðræði ofan á þau rangindi og þær vanrækslur á þessu sviði, sem þeir hafa áður orðið fyrir af hálfu ríkisvaldsins.

Síðast í svari mínu við aths. hv. þm. eru nokkrar skýringar, sem sýna það, hvaða þýðingu það hefir fyrir landið fjárhagslega, að ráðið var fram úr skólamáli Sunnlendinga á þann hátt, sem gert var. Þar er gerður samanburður á námskostnaðinum við Laugarvatnsskólann og skólana hér í Rvík. Og það kemur í ljós, að svo miklu ódýrara er skólahaldið á Laugarvatni, að það munar um 100 þús. kr. á allri útgerðinni yfir veturinn. Til þess að sýna, hvað þessi skólastofnun er ríkinu ódýr, má benda á það, að árlegur rekstur menntaskólans hér í Rvík með 160 nemendum kostar ríkissjóð um 130 þús. kr., en rekstur Laugarvatnsskólans með 130 nemendum kostaði ríkið ekki nema tæpar 30 þús. kr. á síðastl. vetri. Þessi mikli munur stendur að miklu leyti í sambandi við það, hvað rekstur skóla verður mikið öðruvísi þar, sem slík skilyrði eru fyrir hendi sem á Laugarvatni. Hv. þm. er kunnugt um það frá starfi sínu sem endurskoðandi LR., ráðherra og þm., hvað bændaskólarnir á Hólum og Hvanneyri kosta ríkissjóð árlega. Ef hann ber rekstrarkostnað þeirra, í hlutfalli við nemendafjölda, saman við tilkostnað ríkissjóðs í sambandi við Laugarvatnsskólann, þá hlýtur honum að verða ljóst, að þar hefir sannarlega ekki verið bruðlað með fé. Þegar hv. þm. athugar, hvað mikið ríkinu og nemendunum á Laugarvatni sparast, samanborið við það, ef þeir hefðu leitað sér menntunar annarsstaðar, þá ætti hann að samgleðjast Sunnlendingum og ríkisstj. yfir því, hvað það tókst að lokum að leysa skólamál þeirra á heppilegan hátt.

Hv. þm. tók það réttilega fram í ræðu sinni, að það hefði fallið úr svari mínu skýring á smávillu í reikningum skólans. eða vöntun á greinargerð fyrir eitthvað 1300 kr. Þetta atriði var athugað eftir að hv. þm. gerði fyrirspurn um það, og kom í ljós, að fyrir þessari upphæð var til kvittun. Þessar krónur höfðu verið greiddar fyrir viðgerð á hlut, sem einir fjórir flokksbræður hv. þm. gáfu skólanum, mjög dýrum hlut, sem kom samt ekki að notum nema hann fengi þessa aðgerð. Reikninginn getur hv. þm. fengið að sjá, ef hann vill líta inn í dómsmálaræaðuneytið; ég skal biðja skrifstofustjó6rann að hafa hann til taks.

Til viðbótar get ég sagt hv. þm. frá því, að það kom í ljós önnur villa í reikningunum. Hún var þannig, að taldar höfðu verið með framlögum ríkissjóðs til skólans 2000 kr., sem í rauninni var framlag frá skólanum sjálfum. Fyrir því getur hv. þm. einnig fengið að sjá gögn við tækifæri. (MG: Þetta getur ekki verið rétt). Hv. þm. getur nú séð það, þegar þar að kemur. Ég er ekki að tala um þetta sem stórt atriði; ég vildi aðeins geta um það, að þetta hefir verið leiðrétt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni, þó að hv. þm. hafi komið inn á ýms fleiri atriði, sem eru margfaldlega útrædd, bæði í blöðum, á fundum úti um land og hér á Alþingi. Ég ætla ekki að fara að halda langar ræður um þau, heldur mun ég aðeins gera smáleiðréttingar við þær ræður, sem hv. 2. þm. Skagf. eða vinir hans kunna enn að flytja í þessu máli.

Að endingu skal ég segja það til lofs um tvo af harðsnúnustu íhaldsmönnunum hér í Reykjavík, sem auk þess eru miklir andstæðingar mínir persónulega, að þeir hafa haft svo góða greind á skólamáli Sunnlendinga, að þeir sögðu einu sinni, að þó að ég hefði verið — eins og þeir komust að orði — heldur óheppinn með margt af því, sem ég hefði gert, þá væru þeir ánægðir með afskipti mín af því máli, því að þar hefði ég vel gert. Og það mun verða dómur sögunnar.