17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2894)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Einar Arnórsson:

Ég þarf litlu við það að bæta, sem ég sagði við 2. umr. um þetta mál. frá hv. þm. Rang. eru nú komnar fram brtt., sem lofað var við 2. umr. Tilgangur þessara brtt. er að draga úr þeirri hreppapólitík, sem felst í því, að styrkur ríkissjóðs á aðeins að vera hlunnindi fyrir þá, sem hafa aðstöðu til þess að nota flutninga hafna milli með strandferðaskipunum, en auk þess bæta þeir öðru óyndisúrræðinu við, og það er að leggja verndartoll á innfluttar kartöflur. Þeir vita, að bannið verkar á þá leið að hækka kartöflurnar í verði, og þess vegna vilja þeir heldur toll en bann. Það má segja það þeim til hróss, að þeir ganga þó hreint til verks. Og af tvennu illu verður þó að telja skárra toll en bann. Þessi tollur, sem nú á að vera 2 kr. á hver 100 kg., er ekki sérlega þar og verður hann því ekki til þess að útiloka innflutning á kartöflum svo að orsaki skort á þessari vöru. Þess vegna er skárra fyrir þá, sem þurfa að kaupa kartöflur, að samþ. þessa brtt. en bannið. Þar með er ekki sagt, að ég ætli að greiða þessum verndartolli atkv., því ég álít hann í sjálfu sér illan.

Ég býst við, að rök öll með og móti þessu frv. hafi komið fram við 2. umr. Ef frv. verður að lögum, þá vinnst þetta þrennt: Í fyrsta lagi, að verðið hlýtur óhjákvæmilega að hækka, í öðru lagi, að kaupendur fá meira eða minna skemmda vöru þegar líður á veturinn, og í þriðja lagi, að skortur verður á kartöflum á tímabili. Það er þetta þrennt: verðhækkun, skemmd vara og skortur, sem neytendur bera úr býtum.

Ég þarf ekki að endurtaka það, að ég treysti ekki því, að stjórn Búnaðarfél. Ísl. verði sanngjarn dómari í þessu máli; bæði hún og hæstv. atvmrh. munu fyrst og fremst líta á hag framleiðenda. Mér finnst það hefði verið sönnu nær að fela hagstofunni tillöguréttinn í þessu efni, því að meiri ástæða er til að ætla, að hún yrði óhlutdrægur dómari.