05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, fjárlög 1933

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að eyða fáeinum mínútum af mínum stutta tíma til þess að svara nokkrum pexatriðum úr ræðu hv. 2. þm. Skagf. í gær. Hv. þm. sagði þá, að sig furðaði á því, að einn héraðslæknir skyldi fá 2000 kr. í launauppbót. Hann átti hér við Sigvalda Kaldalóns, og skal ég skýra frá ástæðunni til þessa. Þessi læknir flutti úr héraði, sem var miklu tekjuhærra, í annað tekjulægra. Og þetta var meðan hæst stóð baráttan milli læknafélagsins og landsstj., en í þeirri baráttu var félagið stutt af hv. 2. þm. Skagf. og flokki hans. Honum mun því kunnugt um, að herkostnaðurinn í því stríði varð nokkuð mikill, þó að hann hafi vafalaust verið minni en þegar flokkur hv. þm. kom hér upp herliði árið 1921, til þess að bola úr landi erlendum dreng. Íhaldið þyrlaði upp miklu ryki í sambandi við það mál, en síðar sýndi sig, að bar var allt byggt á heimskulegum vottorðum. Þá deildi hv. þm. á stj. fyrir það fé, sem hún hefði veitt til Reykjabúsins. En hversvegna mátti koma upp búum í sambandi við Klepp og Vífilsstaði, sem þegar eru farin að spara fyrir þessum spítölum þúsundir króna á ári á þeirri mjólk, sem þarf til þeirra, ef ekki má koma upp þarna á Reykjum samskonar búi fyrir Landsspítalann.

Hv. þm. sagði ennfremur, að einum embættismanni í Reykjavík hefði verið greidd sérstök launauppbót af stj. Þessi embættismaður, sem hér um ræðir, er Jón Hermannsson, tollstjóri í Reykjavík. Hann hélt því fram, að hann ætti ógreidda dýrtíðaruppbót frá fyrra ári, og þar sem allt benti til, að svo væri, fékk hann þessa upphæð greidda. Eina árásin, sem hv. þm. getur því fært fram út af þessu, verður að byggjast á því, að hann lýsi Jón Hermannsson ósannindamann að þessari kröfu sinni og Gísla Ísleifsson ómerkan að þeirri tillögu að greiða þetta fé.

Þá er mjög óheppilegur sá blástur, sem verið hefir í nokkrum hv. þm. út af Gísla Ólafsson, fyrrv. landssímastjóra. Þessi maður á það upp á sig og Morgunblaðið, að á hann skyldi vera minnzt hér. — Í Morgunblaðinu er þrásinnis ráðizt á okkur Framsóknarmenn fyrir að veita ekki meira fé en gert er til ýmsra verklegra framkvæmda, vega, brúa o. s. frv. Og í sömu blöðunum er Morgunblaðið að ráðast á stj. fyrir það, að eyðileggja ekki sæsímann hingað til lands, og kasta þannig bókstaflega í sjóinn öllum þeim peningum, sem búið er að leggja í það fyrirtæki. Með þeirri uppástungu braut Gísli Ólafsson af sér við land sitt og stj., og sömuleiðis Íhaldsflokkurinn fyrir það að taka undir þessar till. hans. Ennfremur sést það af skjölum, sem geymd eru í stjórnarráðinu, að það var einmitt þessi sami maður, sem réð því, að rándýr lóð í miðbænum var keypt undir nýju símastöðina, þrátt fyrir það, að ríkið ætti ágætar lóðir á Arnarholstúni, sem auðvitað var sjálfsagt að nota. — Það skiptir engu máli, hvort maðurinn er dauður eða ekki; það verður að segja sannleikann um hann jafnt fyrir því, þegar tilefni gefst, þegar um alþjóðar málefni er að ræða. Íhaldið og blöð þess ávítuðu landsstj. fyrir það, að hún tók í taumana 1930, þegar Gísli Ólafsson beitti sér af alefli fyrir því, að sæsíminn yrði lagður niður og tekið stórlán til að koma á talsambandi við útlönd. Íhaldið stendur varnarlaust í þessu máli. Það vildi þessa heimskulegu eyðslu, og reynir nú að fela sig á bak við dáinn mann. Það má einnig á það minna, að í vetur var gerður mikill hvellur út af væntanlegum talsímagjöldum og kallaður saman fundur til að mótmæla þeim gjöldum, sem heyrzt hafði um. En þegar það svo upplýstist á fundinum, að hér var um að ræða fyrirkomulag frá fyrrverandi landssímastjóra, þá datt allt í dúnalogn og hefir ekki heyrzt nefnt síðan. Þá sýndist ekkert athugavert við það, þegar till. um hina alltof dýru sjálfvirku stóð höfðu komið frá íhaldsmanni.

Þá kem ég að aðalatriðinu, því, hvor flokkurinn hafi farið betur með fjármálastjórnina og með meiri heiðri. — Um jafnaðarmenn tala ég ekki í þessu sambandi, því að þeir þvo hendur sínar og þykjast engu hafa nærri komið. Er því rétt að lofa þeim að vera utan við.

Þegar litið er á fjármálastjórn íhaldsins, þá er þar um líkt að segja, eins og hv. þm. G.-K. sagði um sinn atvinnuveg hér í gærkveldi, þar sem hann taldi hann mergsoginn og máttvana. Á árunum 1917 –1922 voru þeir fjmrh. Björn Kristjánsson, Sig. Eggerz og Magnús Guðmundsson, núv. hv. 2. þm. Skagf. þá var Jón Magnússon alltaf stjórnarforsetinn. En á þeim árum söfnuðust allt að 20 millj. kr. skuldir, sem eru uppistaðan að ríkisskuldunum. Og öllu þessu fé var varið í eyðslu, en ekkert varanlegt og gagnlegt var gert. Allt fór í botnlaust sukk. Þá í endalok þessa tímabils er það, sem Jón Magnúson réð Eggert Claessen að Íslandsbanka fyrir 40 þús. kr. árslaun. Þetta ásamt fleiru gaf tóninn um hin háu laun og þá miklu eyðslu, sem þeim urðu samfara. Verk þessara ára tala líka, en þau tala um þá óhófseyðslu sem þá átti sér stað. Þau tala til viðvörunar. Þegar svo Eggert Claessen er kominn að bankanum, þá þróast þau viðskipti, sem ég lýsti í gær, eða gaf sýnishorn af. Þá er Gísla Johnsen, Sæmundi Halldórssyni, Copland og fleirum þess háttar gæðingum íhaldsins haldið uppi á þann hátt, að það er hið glæfralegasta, sem hefir gerzt í okkar fjármálasögu. Þetta gerðist allt í tíð íhaldsins og er undirbúið af því. Og þó segir hv. 2. þm. Skagf., að stj. Tryggva Þórhallssonar beri ábyrgð á þessu. Og í sambandi við tapið á Seyðisfirði má geta þess, að Jón Þorláksson greiddi atkv. gegn því í bankaraði, að bróðir Stefáns Th. Jónssonar færi frá stjórn útibúsins þar, eftir að Svavar Guðmundsson var búinn að fara austur og komast að raun um, hvernig komið var.

Það hefir verið gert yfirlit yfir það, hvernig skuldum ríkissjóðs var varið 1927 og hvernig þeim er varið nú. 1927, þegar íhaldið skilaði af sér, voru skuldir ríkissjóðs samkv. landsreikningum milli 11 og 12 millj. En þar sem mikið af þeirri upphæð var í dönskum krónum, þá verða þetta nærri 13 millj. ísl. kr. Hér við bætast svo lan MG og veðdeildarlán JónsÞ, 16 millj. kr. Eru skuldir ríkissjóðs þannig, þegar íhaldið skilaði af sér 1927, samtals ca. 29 millj. kr. Nú eru skuldir ríkissjóðs um 39 millj. kr. Skuldaraukning er því um 10 millj. kr. þar af hafa bankarnir fengið:

Landsbankinn ............. 3 millj.

Búnaðarbankinn .......... 3.6—

Útvegsbankinn ............ 1.5 —

Síldarverksmiðjan ....... 1.5 —

Samtals 9.6 millj.

Auðvitað hafa verið tekin lán, sem nema meir en skuldaraukningunni, 10 millj., en jafnframt hefir árlega verið borgað af gömlum skuldum, svo að mismunurinn er þessi.

Eins og sest, þá hafa stærstu upphæðirnar af skuldaaukningunni farið til bankanna, og það að mestu leyti fyrir þá óstjórn, sem hefir ríkt um stjórn hinna stærri fyrirtækja íhalsmannanna. Það eru því tómar blekkingar að segja, að það sé Framsóknarflokkurinn, sem hafi stofnað til skuldanna.

Við skulum svo rétt líta á, hvernig þar stendur, sem íhaldið hefir öllu ráðið á þessum árum, svo sem eins og er í Vestmannaeyjum og Reykjavík. hér var það nú svo í vetur, að bæjarstjórnin her, þar sem íhaldið ræður með Knud Zimsen í fararbroddi, varð að fá leyfi ríkisstj. til þess að leggja nýtt aukaútsvar á, er nam 10% af aðalútsvörum, til þess að geta innt af hendi daglegar skyldur. Leyfið var veitt. Það var lítið svo á, að ekki væri um annað að gera, þótt það hafi máske ekki verið rétt að gera það.

Bær, sem teljast vill til menntaðra bæja, verður að uppfylla ýms nauðsynleg skilyrði, sem setja á hann menningarbrag. Margt af þessu vantar enn hér í Reykjavík. T. d. hefir bærinn verið svo aumur, að hann hefir ekki getað lokið við að gera lítinn baðklefa í Nýja barnaskólanum, auk heldur að hafa fullgert sundhöllina. Þannig er þá getan í Reykjavík, þar sem þó íhaldið hefir ávallt ráðið. Og þetta er í samræmi við harmagrát hv. þm. G.-K. hér í gærkveldi. Annar blær var á þeim hv. þm. við Þjórsarbrú 1927 á fundi þar. Þá sagði hann, að íhaldið í Reykjavík væri aflaklærnar, sem ættu að leggja peningana í ræktun landsins. En í gærkveldi var það sultardropinn, sem lak úr nefi hv. þm., er hann lýsti ástandinu hér. Hann sagði að skipin væru orðin gömul. Engir sjóðir væru til að bera hallann af útgerðinni og að gjaldþrot lægi fyrir henni við næstu áramot. Það eru nú 10 ár síðan ÓTh breiddi út faðminn og kallaði sig aflaklóna. En nú telur hann allt líf aflaklónna í kaldakoli og kveinar yfir því, hvernig þeir séu kúgaðir af sköttum í ríki Knud Zimsen. Hann hælir hv. 3. þm. Reykv. fyrir göfuglyndi í kaupgjaldsdeilum, en Morgunblaðið kvartar yfir því, að tillögur útgerðarinnar hafi verið hundsaðar af sócialistum En þó að þetta sé nú allt svart, þá eru þó ráð á að launa forstjóra útgerðarfélaganna sumra með 30–50 þús. kr. árslaunum. Og skipstjórarnir hafa stundum sín 40–50 þús. kr. Og útgerðarmannavillurnar í Vesturbænum kosta sumar fráleitt minna en 100–150 þús. kr. hver. Þetta hafa þessir fátæku menn byggt. Sagan sannar, að það eru íhaldsmennirnir, sem með óhófi sínu og sukki hafa sett allt á hausinn, hvar sem þeir hafa ráðið. — Og verkafólkið á þaðan einskis góðs að vænta, enda þótt reynt sé þetta ár að halda kaupinu óbreyttu, meðan verið er að véla alþýðuna til þess að lyfta íhaldinu í aðstöðu til að ráða öllu hér á landi. —