17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það lítur út fyrir, að andstæðingum þessa máls þyki mikið við þurfa, þegar þeir fara á síðustu stundu að skjóta inn mörgum og víðtækum skrifl. brtt., er á margvíslegan hátt grípa inn í frv., svo að engu er líkara en að samtök þessara hv. þm. miði að því einu að reyna að gera frv. sem allra vitlausast. Og er ekki annað um þau samtök að segja en að þau séu öll runnin af hinni sömu illu rót. (EA: Hver er sú illa rót?). Það er sú illa rót, sem sumum mönnum virðist vera runnin í merg og bein til þess að spilla góðu máli.

Ég ætla nú að minnast á nokkur atriði í sambandi við þau samtök, sem hér virðast vera gerð til þess að rugla þetta mál svo, að erfitt sé að átta sig á því. Það er nú kannske ofsagt, að dauðir menn rísi hér upp úr gröfum sínum til þess að vinna máli þessu tjón, en hitt má segja, að þá hlýtur sérstaklega mikils við að þurfa, er dauðhásir menn rísa hér upp og brýna röddina með það eitt fyrir augum að geta laumað rýting í bakið á þessu máli, og á ég þar við þann, er síðast talaði, hv. 4. þm. Reykv. Ræða hans var að vísu styttri en venja er til, þegar hann þykist eitthvað mikið hafa að segja, en alt um það kom þó skýrt fram, hver hugur hans er til þessa máls. Hann er einn í hópi þeirra manna, er bera nú fram skrifl. brtt. — mér heyrðist þær vera þrjár — til þess að tefja fyrir málinu og gera þau torskildara. Eftir því, sem mér skildist, fara brtt. þessar fram á að gera frv. Þetta að heimildarlögum handa atvmrh., er hann getur notað sér að fengnum till. Búnaðarfél. Ísl. Ég verð nú að segja, að mér þykir undarlegt að heyra frá þeim hv. þm., sem einatt er að tala um, að þeir treysti ekki Búnaðarfél. til þess að halda á þessu máli eða öðrum án þess að beita hlutdrægni, að þeir skuli nú leggja til, að Búnaðarfél. og atvmrh. skuli öllu ráða um þetta mál. Ég endurtek það, að mér þykir undarlegt, að þessir hv. þm. skuli vilja leggja þetta á vald þeirra manna, sem vitað er um fyrirfram, að mundu beita þessari heimild. Það er því auðsætt, að á bak við slíkar till. liggur engin önnur hugsun en sú, að reyna að koma svo miklum glundroða í málið, að takast megi að koma því fyrir káttarnef.

Annars vék þessi sami hv. þm. að því, að kartöfluskortur mundi verða í landinu, ef innflutningur yrði bannaður einhvern tíma, og mun ég taka það til athugunar, er ég svara hv. þm. Vestm. Hann hefir ekki sézt hér í hv. d. þá daga, sem mál þetta hefir verið til umr., enda fór ekki dult, að hann vantar tilfinnanlega fræðslu í þessu efni, eins og ég mun sýna fram á síðar.

Hv. 2. þm. Reykv. stóð nú enn upp til þess að sýna hug sinn til þessa máls og talaði aðallega um brtt. þeirra Rangæinganna á þskj. 197. Í því sambandi fórust honum svo orð, að hann teldi betra að leggja innflutningstoll á erl. kartöflur en að banna innflutning þeirra ákveðinn tíma. En svo klykkti hann út með því, að þótt hann teldi tollinn betri en þann, mundi hann þó ekki getu fylgt brtt. hv. þm. Rang. (EA: Nei !). Nei, það er einmitt það, sem hann getur ekki. En hann hugsar, að með þessu geti hann e. t. v. veitt einhverjar lítilmótlegar sálir til þess að vera með brtt. á þskj. 197, svo að takast megi að gera frv. að því skrípi, að ekkert gagn verði að því. Hér ber allt að sama brunni hjá þessum hv. þm. Allt hans skraf stefnir að því að reyna að villa munnum sýn í þessu máli, og það hefir hann reynt að gert eftir helztu getu. Eins og ég sagði áðan, vill hv. þm. heldur innflutningstoll en innflutningsbann á kartöflum. (EA: Ekki sagði ég það). Jú, það sagði hann, en þetta eru ekki annað en undanbrögð, sem engan þarf að furða, eins og hann og fleiri andstæðingar þessa máls era orðnir ruglaðir. Innflutningstollur á kartöflum mundi þó aldrei geta haft annað í för með sér en að hækka verð á þessari vöru, en um það eru þessir herrar ekki að fást. Þó að erlendu kartöflurnar verði dýrari á þennan hátt, gerir það ekkert til, bara að smekkurinn af heim sé danskur.

Annars er ekkert eðlilegra en að andmælendur þessa máls skilji ekki sjálfa sig lengur, eins og sú hugsun hefir verið skýrð, sem liggur á bak við frv., og tilgangur okkar hinna, sem borið höfum það fram. En hitt hefði mátt ætla, að þm. Reykv. hefðu snúizt öðruvísi við þessu máli, ef þeir teldu sig vera í samræmi við vilja kjósenda sinna. Hér í Rvík hefir sú alda risið hæst nú að undanförnu að efla og styðja innlendan iðnað og innlenda framleiðslu, svo að þjóðin geti búið sem bezt að sínu, en þurfi ekki að snara jafnmiklu út fyrir erlendan varning eins og hingað til. Og núna á næstunni kemur svo „íslenzka vikan“, sem á að sannfæra okkur um, að hve miklu leyti við getum verið sjálfum okkur nógir. Ég hefi á undanförnum vikum lesið fjölda greina í dagblöðunum, er allar stefna í sömu átt, að hvetja menn til þess að efla og styðja innlenda framleiðslu. Og verður ekki annað sagt en að raddir hv. þm. Reykv. séu nokkuð hjáróma við raddir annara bæjarbúa um þessi mál. Ég hefi hér í höndum Vísisblað, þar sem m. a. stendur skrifað, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú stefna er yfirleitt uppi með öllum þjóðum að búa sem bezt að sínu. Að sjálfsögðu þarf ekki að fjölyrða um, að oss Íslendingum er lífsnauðsyn að búa sem mest að vorri eigin framleiðslu, þegar erfitt er í ári. Og öll viðleitni, allt starf, sem fer í þá átt að hvetja menn til að kaupa íslenzka framleiðslu, er mjög þarft . . . . “.

Þetta frv. stefnir í sömu átt og haldið er fram í þessari grein og mörgum fleirum. Andstaða hv. þm. Revkv. gegn frv. er því ekki í samræmi við þann vilja borgaranna í þessu efni, sem virðist þó vera efst á baugi hér í Rvík. Ég gæti lesið mörg ummæli slík, er sýna og sanna, að þm. Reykv. eru hér á öndverðum meið við allan þorra kjósenda sinna.

Þá er ég kominn að hv. 2. þm. Rang., og verð ég að segja um hann, að hann var fljótur að sjá að sér, því ég hafði ekki fyrr lokið predikun minni yfir honum en samvizkan slær hann svo, að hann fer að reyna að má af sér stimpil þann, er á hann var kominn, og labbar upp að forsetastól og afhendir hæstv. forseta skrifl. brtt. um það, að 6. gr. falli niður.

(Forseti: Ég vil upplýsa, að það var snemma í ræðu hv. þm. Borgf., að hv. 2. þm. Rang. afhenti mér brtt. sína). En ég byrjaði einmitt á því á benda hv. 2. þm. Rang. á þetta, svo að það sýnir, að samvizkan hefir slegið hann fljótt. En þó er hann ekki kominn á þurrt land enn, því að 3. gr. frv. er óþörf, ef brtt. hans verður samþ. Skýrslur Búnaðarfél. Ísl. um uppskerumagn kartaflna eru óþarfar með öllu, þegar búið væri að fella niður ákvæðin um innflutningsbannið. Ég vona því, að hv. þm. taki sig betur á eftir þessa viðbótarpredikun mína og laumi á ný til hæstv. forseta skrifl. brtt. um að fella 3. gr. niður.

Hv. 2. þm. Rang. reyndi að snúa því við, sem ég hafði sagt um brtt. hans á þskj. 197, að tilgangurinn helgaði meðalið og allt væri gert til þess að gera frv. sem vitlausast. Þessu reyndi hann að snúa þannig við, að ég ætti við frv. sjálft, en þetta sagði hann áður en hann bætti ráð sitt. Ég átti vitanlega við brtt. þeirra beggja hv. þm. Rang., að þær gerðu frv. sem allra vitlausast, enda hefir hann viðurkennt að nokkru leyti, að það sé rétt. og þess vegna borið nú fram skrifl. brtt. um niðurfellingu 6. gr.

Annars hefi ég margbent á, að brtt. á þskj. 197 stefna að því einu að gæta hagsmuna sérstakra héraða. En þetta skilur hv. 2. þm. Rang. ekki, enda er ég orðinn úrkula vonar um, að mér takist að fá hv. 2. þm. Rang. til þess að skilja muninn á frv. og brtt. hans. Frv. er miðað við hagsmuni allra landsmanna, en brtt. þær, sem báðir hv. þm. Ragn. flytja eru einskorðaðar við þann landshluta eða umhverfi, sem kartöflugarður hv. 2. þm. Rang. er í. Ég veit, að hv. þm. skilur þetta vel, þó að hann vilji heldur berja höfðinu við steininn í lengstu lög og láta líta svo út, að hann skilji það ekki. En ég óska, að frv. fái afgreiðslu hv. d. áður en þessi hv. þm. brýtur höfuð sitt, því að ég vil ekki dauða syndugs manns, heldur að hann lifi og bæti ráð sitt.

Út frá því, sem þessi sami hv. þm. sagði, að landbn. þessarar hv. d. hefði samið frv., þá vil ég upplýsa, að svo er ekki, heldur var frv. í upphafi samið af búnaðarþingi því, sem nýlega hefir lokið störfum sínum, þar sem sæti átti meðal annara maður úr Rangárvallasýslu, sem ég held, að óhætt sé að nefna hér, en það er Guðmundur bóndi Þorbjarnarson á Stóra-Hofi. Ætla ég því, að þetta nægi til þess að sýna hv. þm., að búnaðarþingið og þar á meðal fulltrúi Rangárvallasýslu þar hafi gengið svo frá þessu frv., að á því sæist heildarsvipur þess héraðs ekki síður en annara háraða. Fleira held ég, að sé ekki, er ég hefi ástæðu til að svara hv. 2. þm. Rang. að svo stöddu.

Hv. þm. Vestm. sagði, að í grg. frv. væri viðurkennt, að kartöfluframleiðslan í landinu væri ekki nándarnærri nóg til þess að fullnægja þörfum landsmanna. Þetta er alveg rétt, og einmitt á þessum kartöfluskorti byggist ákvæði 1. gr. frv., því þar er ekki lengra gengið en að banna innflutning á kartöflum aðeins þann tíma, sem þörf landsmanna er fullnægt með innlendri framleiðslu. Ég held því, að hv. þm. hafi misskilið þetta og skoði þetta ákvæði sem algert innflutningsbann, sem gefa mætti undanþágu á. En svo er ekki. Bannið gildir aðeins á meðan innlend framleiðsla getur fullnægt þörfum landsmanna, eins og margoft hefir verið bent á. Ákvæðið miðast því við, að slakað sé strax á innflutningsbanninu og ljóst er orðið, að kartöflumagnið í landinu fullnægir ekki þörfum landsmanna, og svo líka, þegar ekki er nógu mikið til af þessari voru í landinu til þess að skapa heilbrigt verð. Og ef slíkur skortur er fyrir á einum stað fremur en á öðrum, þá er heimilt að létta banninu fyrr af þar en annarsstaðar. Með frv. er því vel og tryggilega fyrir því séð, að kartöflur skorti ekki af þeim völdum og að óþarfa verkhækkun eigi sér ekki stað, svo að getsakir hv. þm. Vestm. falla algerlega niður.

Hv. þm. Vestm. sagði eitthvað á þá leið, að þó að nóg væri kannske framleitt af kartöflum á vissum stöðum, þá geymdust þær svo illa, að eftir litla stund væru þær ekki mannamatur, og nefndi hann Vestmannaeyjar sem dæmi. En ég vil benda honum á, að þarna er einmitt eitthvert mesta þjóðþrifamál kaupstaðanna, að vanda svo til geymslu kartaflnanna, að þær skemmist ekki fyrir handvömm. Ég held, að erlendar kartöflur séu geymdar í sömu geymslu, og geta þær þá líka skemmzt, ef menn sjá ekki gegnum fingur með þeim eða gera þeim hærra undir höfði með geymslu en þeim innlendu. Hann sagði líka, þessi hv. þm., að alltaf væri hægt að fá nýjar kartöflur frá útlöndum. En það er misskilningur. Þær eru oftast jafngamlar og þær ísl. kartöflur, sem seldar eru hér. Í næstu löndum er kartöfluframleiðslan einu sinni á ári og teknar upp nærri á sama tíma og hér, svo að þær verða sízt yngri eða nýrri, er þær koma á markaðinn her, en þær kartöflur, sem framleiddar eru í landinu. Í Vestmannaeyjum eru að sögn góð skilyrði fyrir aukinni kartöfluframleiðslu. Hv. þm. Vestm. ætti því að vinna að því, að kjósendur hans geti sem fyrst framleitt nóg af kartöflum handa sér, svo að þeir þurfi ekki að taka af því litla verði, er þeir fá nú fyrir fiskinn, stóra upphæð til þess að greiða fyrir kaup á erlendri vöru, sem auðvelt er að framleiða heima hjá sér. Hv. þm. ætti því að taka höndum saman við okkur, sem af þessu frv. stöndum, og stæla hann áhuga, sem vaknaður er í landinu til þess að auka kartöfluræktina, svo að þjóðin geti sparað það fé, sem nú streymir út úr landinu fyrir þessa vöru.

Ég held, að ég þurfi þá ekki að svara frekar þeim hv. þdm., sem beint hafa máli sínu til mín. En út af fyrirspurn hæstv. forseta vil ég segja, að eins og komið er, með þeim grúa skriflegra brtt., sent honum hefir borizt nú á síðustu stundu, þá mun réttara að fresta umr. nú, og jafnvel nauðsynlegt, til þess að hv. þdm, geti séð í gegnum þann híalínsvef, sem ofinn hefir verið um þetta mál með það fyrir augum að villa sem flestum sýn. Þess vegna get ég fallizt á, að málið verði tekið af dagskrá og brtt. prentaðar, en mælist þó til þess, að hæstv. forseti taki málið á dagskrá á morgun, svo að sem fyrst fáist afgreiðsla þess.