19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Jónas Þorbergsson:

Ég vildi ekki, að gengið væri til atkv. um frv. Þetta án þess að mér gæfist kostur á að gera stutta grein fyrir atkv. mínu. Ég lít svo á, að ef frv. um kartöflukjallara og markaðsskála, sem nú liggur fyrir þinginu, nær samþykki, þá muni það verða til mikilla hagsbóta fyrir alla kartöfluyrkjendur á Suður- og Vesturlandi, og að þingið geti látið sér nægja þær ráðstafanir í bili. Í öðru lagi tel ég, að frv. Þetta sé um of miðað við einstaka landshluta, eða jafnvel einstaka kartöflugarða. Þær áköfu umr., sem orðið hafa um þetta mál, sýna, að uppruni málsins á eitthvað skylt við hreppapólitík. Ég mun því greiða atkv. með heim brtt., sem ég tel, að séu til bóta, en treysti mér þó ekki til að greiða atkv. með frv. út úr d.