19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2913)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. Mýr. taldi frv. þetta útrétta hönd til sjávarplássanna, þar á meðal Vestmannaeyja, en ég held, að það sé ekkert gott í lofa þeirrar handar, sem með frv. þessu er rétt að sjávarsíðunni. Það er að vísu satt, að við björgumst sem bezt við landsins eigin gæði, og þá einnig að þessu leyti. En þau þurfa þá að vera fyrir hendi í þeim máli, að vel dugi. Það má ekki banna innflutning á þeim tegundum, sem vanta hér í stórum mæli, svo sem er um kartöflurnar Af þeim eru fluttar inn tugir þúsunda tunna árlega. Hv. þm. segir að vísu, að hér sé til nóg land til kartöfluræktar. Ég neita því heldur ekki, en á meðan það er ekki brotið né búið undir ræktun, þá er ekki tímabært að leggja innflutningshöft á þennan jarðarávöxt. Eftir mörg ár má kannske banna innflutning á kartöflum, þegar ræktunin er komin á það stig, að fullnægja landsmönnum, en fyrr ekki.

Hv. þm. Mýr. sagði, að í Vestmannaeyjum væru góð skilyrði til ræktunar. Ég neita ekki, að þar eru slík skilyrði fyrir hendi, enda hafa kartöflur verið ræktaðar þar árum saman. En íbúar Vestmannaeyja eru á fjórða þúsund, og auk þess er þar oft mikill sægur aðkomumanna, er stunda þar vinnu. Þar þarf því að rækta bæði miklar og góðar kartöflur, ef fullnægja skal þörfinni. En nú hefir sú óheppni komið fyrir, að kartöflusýkin hefir gert talsvert vart við sig í Eyjunum og eyðilagt uppskeruna að mun. Það er ógeðslegt að ætla sér eða öðrum að borða skemmdar kartöflur hjá þjóðum, sem rækta mikið af kartöflum og flytja þær út, er ræktunin framkvæmd með öðrum hætti en hér tíðkast. Ég veit, að t. d. í Þýzkalandi eru tíðkuð sáðskipti, og kartöflur þá ekki ræktaðar á sama stað oftar en 3.–4. hvert ár. Ástæðan mun vera sú, að hætta er á, að þær úrkynjist, þegar farið er að rækta þær mörg ár á sama stað. Mín reynsla bendir a. m. k. til, að þessi sé ástæðan. Það er hægt að hugsa sér fleiri leiðir til að ýta undir aukna kartöfluræktun en þetta aðflutningsbann. Það má t. d. gera á þann hátt, að hið opinbera taki þátt í þeim kostnaði, sem er á því í að koma vörunni á markaðinn. Hefi ég ekkert á móti því, að sú leið sé farin, og er enda meðmæltur því. Er það allt annað en að leggja hömlur á innflutninginn. Þar við bætist svo það, að þeir, sem hafa ákvörðunarrétt samkv. frv. um innflutningsleyfið, geta alls ekki talizt óhlutdrægir dómarar í því máli. En það er Búnaðarfélagið, sem leggur til, hvenær veita skuli undanþágu frá þessari einokunarhugmynd. Þessi hugmynd er bæði ógeðsleg og skaðleg fyrir þjóðina. Það má gera fólkinu margt illt og á margvíslegan hátt, en hið allra versta af því tægi er þó það, þegar farið er að leggja hömlur á það, að fólk eigi kost á að afla sér ódýrrar og hollrar fæðutegundar. En það er einmitt gert með þessu frv. Ég álít, að innlenda framleiðslan eigi hjálp skilið. En það er algengt hér að kalla eftir verndartollum eða banni löngu áður en framleiðslan er komin í það horf, að hún geti fullnægt þörf landsmanna. Allar slíkar kröfur til verndar framleiðslunni eiga þá fyrst rétt á sér, þegar innlenda framleiðslan er orðin svo mikil og góð, að engin þörf er á að sækja þá vörutegund til annara landa, en nú hefir verið upplýst, að í þessu tilfelli vanti þúsundir tunna til þess, að svo sé. Er því engin ástæða til þess að þingið fari að rasa fyrir ráð fram með því samþ. þetta frv.

Hv. þm. Mýr. sagði, að frv. þetta væri í samræmi við kjörorðið „Ísland fyrir Íslendinga“. — Þetta kjörorð er nú í sjálfu sér gott og blessað. En þó má varlega fara þar sem annarsstaðar. Ef nokkur þjóð er upp á það komin, að henni sett ekki meinuð viðskipti við önnur lönd, þá er það íslenzka þjóðin. Við getum því ekki fylgt þessu kjörorði til hlítar. Ef þessari reglu væri beitt alstaðar, að hver þjóð keypti aðeins af sjálfri sér, en sækti ekkert til nágranna sinna, þá yrðum við illa úti. Við erum nauðbeygðir til að sækja mikið til annara þjóða, og þar af leiðandi að færa þeim mikið. Ég vil, að hv. þm. Mýr., sem nú er nýlega kosinn í utanríkismálan., athugi vel þá hlið, sem að útlendingum snýr í þessu efni. Það er reynt og vitað, að þeim þjóðum, sem girða sig með innflutningshöftum og tollmúrum, helzt það ekki lengi þegjandi uppi. Og þótt nágrannaþjóðir okkar hafi ekki hátt um það, þá gæti farið svo, að við fengjum að kenna á því verklega. En okkur er hin brýnasta nauðsyn, vegna viðskipta okkar við aðrar þjóðir, að lifa í friði við þær og aðhafast ekkert það sem spillt getur góðu samkomulagi.

Það hefir ekkert það komið fram við umr., sem hrekur þá skoðun mína, að frv. þetta verði ef að lögum verður, er til ills fyrir ýmsa landsmenn. Ég get að vísu skilið það, að málið horfi öðruvísi við fyrir þá, sem framleiða þessa voru til sölu, heldur en fyrir þá, sem verða að kaupa hana. En ég vil að þeir, sem fylgja fram þessu máli, sjái það og skilji, að við, sem allt aðra aðstöðu höfum, hljótum að líta á þetta frá sjónarmiði þeirra manna, sem eins eru settir. Og við verðum að vera á verði fyrir það fólk, sem kaupir þessa framleiðslu, svo að því verði ekki gert ókleift með að þau verði að afla sér hollrar og góðrar fæðutegundar.