19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2917)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það má segja um andstæðinga þessa máls, að þá skortir ekki úthald til að sparka úr klaufunum og þyrla upp ryki, sem gæti orðið til þess, að mönnum yrði ekki eins ljóst og bjart fyrir augum, þegar taka á þetta mál til endanlegrar afgreiðslu. Þeir sjá nú fyrir sinn ósigur í málinu og reyna því að veita sér einhverja stundarfró með aðdróttunum eins og þeim, sem fólust í orðum hv. 2. þm. Reykv., þegar hann var að tala um múturnar, sem hv. þm. Mýr. hefir nú svarað, og ætla ég, að hann hafi í því svari sínu sannarlega hitt naglann á höfuðið.

Hv. þm. Dal. sagði, að ástæðan til þess, að hann gæti ekki greitt frv. atkv. sitt, væri sú, að þar væri um of miðað við einstaka landshluta, en þetta er mesti misskilningur eins og annað, sem haft hefir verið á móti málinu.

Að því er bannið snertir, þá má segja það, að það sé sérstaklega fyrir þá landshluta, sem góð skilyrði hafa til framleiðslu á kartöflum. Þeim, sem lakari skilyrði hafa og eru lengra frá markaðsstöðunum, er aftur hjálpað með því að veita þeim styrk til flutninganna, og verður líka til þess, að neytendur fá kartöflurnar með lægra verði en annars. Auk þess er öllum landsmönnum óbeinn styrkur að þessu, að við komumst lengra áleiðis með þessa framleiðslu og þurfum ekki að kaupa vöruna frá útlöndum. Hv. þm. er því óhætt að greiða frv. atkv. þess vegna, því að það er séð vel fyrir hagsmunum allra hlutaðeigenda.

Þá var það hv. 1. og 2. þm. Rang., sem ég ætlaði að víkja fáeinum orðum að. Þeir hafa í öllum sínum síðari ræðum verið að reyna að þvo af sér þann sérhagsmunastimpil, sem þeir hafa sett á sig með þessari till. sinni. En litur þessa stimpils er svo sterkur, að þrátt fyrir allan þennan þvott, hefir hann ekki máðst af það minnsta. Og þessi stimpill hefir ekki aðeins sézt á þeim hér á þingi, heldur líka hér úti í bæ, eins og hefir nú verið bent á af hv. þm. Mýr.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að hann vildi styðja fleiri greinir framleiðslu og iðnaðar en þessa einu. Ég vil benda honum á það, að við hv. þm. Mýr. höfum nú flutt till., þar sem farið er fram á nokkurn stuðning til annarar framleiðslu og annara iðngreina, og vænti ég þá, að hv. þm. styðji það mál samkv. þessum ummælum sínum. Þessi stuðningur snertir niðursoðna mjólk, sem er innlendur iðnaður, og nokkrar aðrar innlendar vörutegundir. Ef hv. þm. vill vera sjálfum sér samkvæmur, þá styður hann þessa till., því að hann hefir nú gefið nokkurskonar loforð um að styðja hér þær innlendu atvinnugreinir.

Ég þarf ekki að fara langt út í það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði um það, hvernig þeir ætluðu sér að fara með þetta frv., hvað búning þess snertir. Þeir hafa nú sýnt nokkra iðrun og yfirbót í því efni, þó að þeir hinsvegar hafi ekki með sínum till. fært frv. í það form, sem það hefði átt að hafa, ef þeirra till. hefðu náð fram að ganga, því að samkv. þeirra till. á ein gr. í frv. að verða eftir, sem ætti að réttu lagi að falla niður, ef þeirra brtt. verða samþ.

Hv. þm. Vestm. reið allgeyst úr hlaði í ræðu sinni og var fremur laus á kostunum. Þó er eitt í ræðu hans, sem ég er honum pakklatur fyrir. Hv. þm. gekk sem sé alveg inn á þá stefnu frv., að rétt væri að banna innflutning á kartöflum, þegar nóg er til af þeim í landinu. Það er því undarlegt, að hann skuli berjast eins mikið á móti frv. og hann gerir, þar sem ekki á að ganga lengra í þessu efni en hann vill gera. Ef hv. þm. meinar nokkuð með þessu, þá hlýtur hann að gefa frv. samþykki sitt, þegar til atkvgr. kemur.

Hv. þm. var að tala um, hvernig þessu væri hagað í Þýzkalandi. Hann er því sjálfsagt kunnugur, þar sem hann er þýzkur konsúll, eins og kunnugt er. Hann sagði, að þar væru kartöflur ekki ræktaðar á sama stað nema 3.–4. hvert ár, því að annars skemmdust þær. En ég vil benda hv. þm. á það, að þótt það komi fyrir einstöku sinnum, og á stöku stað, að kartöflur skemmist, þá er það ekki af því, að þær hafi verið ræktaðar á sama stað ár eftir ár, því að þess eru fjöldamörg dæmi, að kartöflur hafi áratugum saman verið ræktaðar á sama stað, án þess að nokkrar skemmdir hafi komið af þeim sökum. Hitt er vitanlegt, að þar sem kartöflur eru lengi ræktaðar, þarf mikinn áburð til að bæta upp þá rýrnun jarðvegarins, sem alltaf hlýtur að leiða af ræktun kartaflnanna.

Fyrst hv. þm. er svona kunnugur í Þýzkalandi, þá hefði hann nú átt að gefa hér upplýsingar um það, hvernig Þjóðverjar haga sínum tollalögum í sambandi við þessa framleiðslu og hvað þeir gera til að girða fyrir innflutning á kartöflum til Þýzkalands. Vissan tíma ársins er tollurinn 6 kr. á hverja tunnu, en þegar ný framleiðsla kemur frá Miðjarðarhafslöndunum, þá er tollurinn á þeim tíma 30 kr. á hverja tunnu. M. ö. o., þeir eru alveg að útiloka innflutning á þessari vöru, en bara með öðrum hætti en hér er farið fram á. Það getur verið, að hv. þm. sé ekki kunnugt um þetta, en fyrst hann var að fræða hv. þm. á því, hvernig Þjóðverjar færu að því að rækta kartöflur, þá hefði hann miklu fremur átt að skýra frá því, hvernig þeir haga tollalöggjöf sinni í sambandi við þær, því að það skiptir óneitanlega miklu meira máli en þær upplýsingar, sem hann var að gefa.

Þá sagði hv. þm., að með þessu frv. væru Vestmannaeyingar hindraðir frá að fá nægar og góðar kartöflur. Þetta er einber misskilningur hjá hv. þm., því að eins og ég hefi margsinnis sagt, þá á bannið ekki að gilda, nema þegar nóg er til í landinu af góðum kartöflum. Og ég get ekki skilið það, enda hefir enginn haldið því fram, að íslenzkar kartöflur geti ekki talizt góð vara. Þvert á móti hefir því verið lýst yfir, og þá af andstæðingum frv., að kartöflur væru góð vara. Og ég verð að segja það, að málshátturinn: „það er sama, hvaðan gott kemur“, — hann á sannarlega ekki við. Það ætti a. m. k. öllum að þykja betra að kaupa kartöflurnar af landsmönnum sjálfum en að kaupa þær dýru verði frá útlöndum. Ég veit, að Vestmannaeyingar verða árlega að kaupa miklar kartöflur, en það getur ekki verið þeim sársaukalaust að verða að taka svo og svo mikið af því, sem þeir fá fyrir sína aðalframleiðsluvöru, fiskinn, og kaupa fyrir það sá hluti, sem þeir hafa öll skilyrði til að framleiða sjálfir.

Hv. þm. sagði, að það væri óvarlegt fyrir okkur að gera slíkar ráðstafanir, þar sem við værum svo mjög komnir upp á aðrar þjóðir með öll okkar viðskipti. En hv. þm. veit það, að nú eru allar okkar viðskiptaþjóðir að girða sig með allskonar tollmúrum, sem er ekki hægt að komast yfir nema með því að selja vörun. langt undir framleiðsluverði. Ég get þess vegna ekki skilið, hvers vegna hv. þm. er að nota þetta sem grýlu á okkur. Hv. þm. ætti að vera öðrum fremur kunnugt um það, hvernig Þjóðverjar fóru að í vetur, þegar þangað voru sendir nokkrir farmar af fiski. Þá fór svo í tveimur tilfellum, að þeir tóku hann fyrir sama og ekkert verð, greiddu fyrir heila togarafarma 2–3 þús. Hv. þm. hlýtur að vita mjög vel um þetta, því að hann var einmitt sendur til að reyna að fá einhverja leiðréttingu þessara mála, og ætla ég, að sú för hans hafi tekizt, svo sem vænta mátti, vel og giftusamlega og borið góðan árangur.

Þetta dæmi og önnur fleiri sýna ljóst og greinilega, að okkur dugir ekki að sýna neina undanlátssemi í þessu efni.

Hv. 2. þm. Reykv. var að gera aths. við það, sem ég sagði um orð hans viðvíkjandi till. hv. þm. Rang. um toll á kartöflum. Hann sagðist vera á móti slíkum sköttum, sem þeir bera fram, en þó ætlaði hann að greiða till. þeirra atkv., og fá þannig útlendar kartöflur með hærra verði. Í þessum orðum hans fólst ekkert annað en það, að hann vildi kaupa útlendar kartöflur dýrara en íslenzkar kartöflur á sama tíma. Þessi yfirlýsing hans varpar skýru ljósi yfir andstöðu hv. þm. gegn þessu nauðsynjamáli, og er það viðurkenningarvert, að hann skuli nú loksins hafa gefið þessa yfirlýsingu.

Þá sagði hann, að þetta skipti ekki miklu máli fyrir okkar utanríkisverzlun. Það má nú ef til vill segja svo um hvern hlut út af fyrir sig, að hann skipti ekki miklu máli. Á þessum eina lið er þó hægt að spara fjögur hundruð þúsund kr. á ári og slíkt hið sama má gera á mörgum öðrum sviðum, og þegar það allt kemur saman, þá er það mjög stór liður í okkar gjaldeyrismáli að geta sparað það. Það getur farið svo, að það mikið kreppi að okkur, að við verðum hreint og beint að neita okkur um innflutning á vörum, sem óhjákvæmilegt er að kaupa, vegna ónógs gjaldeyris. Það er því bezt fyrir okkur að byrgja brunninn í tíma og vera ekki af ónógum efnum að kaupa vörur, sem við með hægu móti getum framleitt í okkar landi.