19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Einar Arnórsson:

Hv. þm. Borgf. hefir annaðhvort misskilið eða rangfært það, sem ég sagði um brtt. frá hv. þm. Rang. um innflutningstoll á kartöflum. Ég sagði, að sú till. væri skárri en frv., þó að ég væri vitanlega á móti tollinum. Hv. þm. hefir því sjálfur brennt sig á því soðinu, sem hann var að bregða mér um; hann er hér að berjast við skuggann sinn.

Ég skal að öðru leyti ekki tala langt mál um reiðilestra hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf. En þó get ég sagt hv. þm. Mýr. það, að ég hefi aldrei skammazt mín fyrir að vinna verk og taka fulla borgun fyrir. Hv. þm. sagði, að mér hefði löngum þótt gullið gott. Það má vel vera, en mér hefir þó ekki þótt það svo gott, að ég hafi lotið svo lagt að flæma gamlan öldung og þjóðkunnan heiðursmann frá litlu starfi, sem aðeins var goldið fyrir 50 kr. á ári; það er hv. þm., sem á sjálfur heiðurinn af því. Og hafa flestir furðað sig á því, að svo lítill og fégjarn maður yfir höfuð gæti verið til. Ég held, að maður, sem slíkt gerir fyrir einar 50 kr., sé líklegur til að gera margt fyrir peninga.