19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. Borgf. hefir nú að mestu tekið af mér það, sem ég ætlaði að segja. Hv. þm. Vestm. neitaði því, að búið væri að reka Íslendinga með framleiðsluvörurnar út úr viðskiptalöndum þeirra. En ég vil benda honum á, að hann má minnast þeirra erfiðleika, sem urðu í vetur um fisksölu okkar í Þýzkalandi, og eru þar að nokkru leyti enn. Sömuleiðis má segja, að tollalagningin á fisk okkar í Englandi valdi örðugleikum á fisksölunni þar. Þá má benda á kjötsöluhorfurnar í Noregi. Þar í landi er ríkjandi sá andi að styðja innlenda framleiðslu og útiloka aðra frá markaði í Noregi, er hafa á boðstólum samskonar vörur og framleiddar eru í landinu, auk þess sem við vitum ekkert um breyt. á kjöttollinum, hverjar þær verða. Þetta er auðvitað sprottið af sjálfsbjargarhvöt þjóðarinnar, alveg eins og í Þýskalandi og víðar. Ég veit það vel, að Þjóðverjar beita þessum rástöfunum eigi aðeins gagnvart okkur Íslendingum, heldur öllum öðrum þjóðum. Og það er ekki mín meining, að við eigum að sýna Þjóðverjum óvild með því, þó að við reisum okkar sjálfsbjargarráðstafanir á sama grundvelli og allar aðrar þjóðir á þessum alvarlegu krepputímum.

Hv. 2. þm. Reykv. þarf ég ekki miklu að svara. Þeim orðum, sem hann lét falla í garð okkar hv. þm. Borgf., um að framkoma okkar í þessu máli benti til þess, að við hefðum þegið mútur, er ekki hægt að svara á annan hátt en ég gerði í minni fyrri ræðu. Hv. þm. var nú að brigzla mér um, að ég hefði bolað gömlum manni frá starfi fyrir 50 kr. þóknun ári. Ég býst við, að hv. þm. eigi við það, þegar ég var í fyrra kosinn endurskoðandi við söfnunarsjóðinn í stað séra Sigurðar Gunnarssonar. Þeir, sem kusu mig til þess, geta borið vitni um, að ég var mjög ófús til að taka það starf að mér, og gerði það nauðugur. Ég býst nú við, að hv. þm. sjái sjálfur, hvað það er hlægilegt að bregða mér um, að ég hafi flæmt manninn frá starfinu vegna þessara 50 kr. þóknunar á ári. — Hinsvegar efast ég ekki um, að hv. 2. þm. Reykv. hefði viljað fá meira fé fyrir að gegna þessu litla starfi, ef hann hefði átt þess kost.