30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jón Baldvinsson:

Í fyrra voru samþ. lög um einkasölu á tóbaki, og var gert ráð fyrir því í þeim lögum, eins og hæstv. fjmrh. vék hér að, að hagnaðinum af þessari verzlun ríkisins væri skipt milli byggingar- og landnámssjóðs og verkamannabústaðanna. Í frv. var ekki ákveðið, hvert hagnaðurinn skyldi renna, en þess getið í framsögu, að ætlazt væri til, að það væri ætlun flm., að verzlunarágóðinn yrði notaður til raforkuvirkjunar, sem nánara var til tekið í frv., sem borið var fram á sama tíma. Nú var auðséð, að ekki var hægt að koma fram frv. um raforkuveitur, og þá varð að samkomulagi milli Alþýðufl. og Framsóknarfl. að setja inn í frv. þetta ákvæði um að skipta hagnaðinum af tóbakseinkasölunni milli þessara tveggja fyrirtækja, sem þar um ræðir. Það var álítið rétt af þessum tveim flokkum, að þessi fyrirtæki fengju þennan hagnað, sem ekki var hægt að segja, hver yrði, en gert var ráð fyrir, að næmi í sæmilegu árferði um 200 þús. kr., og sennilega meiru, ef vel léti í ári. Það yrði þá um 100 þús. kr., sem hvort þessara fyrirtækja fengi til umráða, og fyrir það má gera talsvert mikið. Nú kemur þetta frv. um að leggja verðtoll á tóbaksvörur, og hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir, að þetta myndi minnka hagnaðinn af einkasölunni um helming. Ef maður heldur sér við 200 þús. kr. sem hagnað af verzluninni, þá fellur ekki í hlut hvors sjóðs nema um 50 þús. kr. Þetta munar miklu, og það er heldur ekki víst nema það verði meira, því það er sennilegt, að þessi tollhækkun muni eitthvað draga úr neyzlu tóbaks, og gerir það náttúrlega ekki mikið til, en það gengur út yfir þau fyrirtæki, sem tilgangurinn var, að einkasalan styrkti. Ég sé ekki ástæðu til að samþ. þessar breyt. á lögunum frá í fyrra og mun greiða atkv. móti frv.