23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

3. mál, landsreikningar 1930

Jón Auðunn Jónsson:

Ég ætla mér ekki að ræða sérstaklega um LR., vona að hæstv. forseti gefi mér leyfi til þess að líta yfir fjárhagsastandið, eins og það blasir við mér. Finnst mér við verða að gera okkur viðhorfið ljóst og það, hvað er að gerast. Ég vil benda á, að fjárstjórnin hjá ríkissjóði og bæjarfélögum hér á landi hefir verið nokkuð á aðra leið en æskilegt hefði verið síðustu 4 árin. Þegar svo er komið, að útfluttar aflavörur landsins geta ekki borgað kostnað við atvinnureksturinn, svo og vexti og afborgarir af lánum og viðhald atvinnutækjanna, sem nauðsynleg eru til þess að reksturinn ekki gangi saman, þá er illt í efni. Hafa atvinnuvegirnir getað þetta undanfarin ár? Síður en svo. Vil ég fyrst gera grein fyrir því, hvað mér virðist við þurfa að flytja mikið út, til þess að geta fengið vörur til atvinnurekstrar og iðju í landinu. Tek ég fyrst aðfluttar vörur árin 1922 og 1927. Árið 1922 var sérstaklega erfitt ár, einmitt fyrir sjávarútveginn. Þá var ekki keypt mikið af ónauðsynlegum varningi, heldur ekki lagt nægilegt til viðhalds atvinnutækjunum og sama sem ekkert keypt af nýjum skipum eða tækjum.

Árið 1922 nam innflutningurinn 46,1 millj. Þar af

matvæli fyrir .... 9,6 millj. eða 20,8%

ljósmeti fyrir .... 6,2 — — 13,4 til sjávarútvegsins

(kol, salt, veiðarfæri o. þ. h.) 7,4 — — 15,4

til landbúnaðarins 0,9 — — 1,8

til ýmisl. framleiðslu ........ 4,9 — — 10,7

heimilismunir o.fl. 2,6— — 5,7

Samtals 31,6 millj. eða 67,8%

Annað: Byggingarefni fyrir .. 2,9 millj. 6,4%

Vefnaðarvara fyrir ... 6,2 - 13,6

Munaðarvörur fyrir .. 5,4 — 12,2

Samtals 14,5 millj. 32,2%

1927 var einnig erfitt ár, fiskleysi einkum hjá stærri útgerðinni. Þá nam innflutningurinn alls: 53,1 millj. kr., þar af

matvæli fyrir .... 7,5 millj. eða 14,2%

ljósmeti fyrir .... 7,6 – — — 14,3 –

til sjávurútvegsins 8,1 — — — 15,3 –

til landbúnaðarins 1,2 — — — 2,3 –

til ýmisk. framleiðslu ........ 7,8 — — 14,6 –

heimilismunir o. fl. 3,5 – - 6,6 –

Samtals 35,7 millj. eða 67,3% Alþt. 1932. B. (45. löggjafarþing).

Annað:

Byggingarefni fyrir 4,8 millj. eða 9,1%

Vefnaðarvara fyrir 7,8 — — 14,6

Munaðarvörur fyrir 4,8 — — 9,0

Samtals 17,4 millj. eða 32,7%

Þessi tvö ár voru, eins og ég gat um, erfiðleikar og þau árin, sem innflutningur var langminnstur síðan 1917. Það er því óhætt að segja, að til þess að geta haldið uppi atvinnurekstrinum verði að flytja inn vörur fyrir 38–40 millj. kr. á ári. Hér er þó sleppt allri munaðarvöru, sem numið hefir um 5 millj. kr. árlega, helmingi allrar vefnaðarvöru, sem numið hefir um 4 millj. kr. á ári, og helmingi alls byggingarefnis, sem numið hefir um 2 millj. kr. árlega. Auk þess þurfum við til afborgana og vaxtagreiðslu af erlendum skuldum um 6 millj. kr. (Þar af skuldbindingar ríkis og banka 4.16 millj.). Hér við bætast svo flutningsgjöld erlendra skipa, námskostnaður og eyðsla Íslendinga á ferðalögum erlendis og fleira, og verður þetta samtals um 4850 millj. kr.

Þessi áætlun er miðuð við erfiðleika ar, en þá þarf útflutningurinn að vera um 50 millj. kr. Að þetta sé rétt, sést greinilegast á því, að þrátt fyrir 45 millj. kr. útflutning 1931, en aðeins 42 millj. kr. innfl., þá hafa skuldir safnazt á rvi ári erlendis sem svarar 8–10 millj. kr. Þegar við lítum á, að skuldir okkar Íslendinga við útlönd munu vera um 75 millj. króna, þá er sýnt, að við þurfum 8–10 millj. kr. meiri útflutning en innflutning til þess að standa í stað efnalega.

Hverjar eru svo líkurnar fyrir því, að við getum haldið í horfinu þetta árið og hin næstu? Í byrjun fyrra mánaðar hofðu aflazt á landinu 199 þús. skippund af fiski. Ef vel lætur, má búast við 320 þús. skippundum á öllu árinu, í mesta lagi. (Síðasta ár öfluðust 400 þús. skippund). Gerum ráð fyrir því, að skippundið seljist að meðaltali á 58 kr. Þetta næmi þá 18600000 kr. Gerum ennfremur ráð fyrir sölu á ísfiski fyrir 2400000 kr. (5 millj. 1930). Framan af árinu hefir ísfiskur verið seldur fyrir um 2 millj. kr., og er ekki mikil von til þess, að togarar verði gerðir út á ísfisk héðan af, meðan tollurinn helzt í Englandi.

Lýsisframleiðslan og verðið benda til, að sá Iiður muni ekki nema meiru en Í millj. kr. Fyrir fiskimjöl fæst varla yfir 1 millj. kr. Og að þv er síldina snertir, rennum við blint í sjóinn. En það má þó áætla, að síldarafurðir gefi af sér minnst 1/6 minna en í fyrra. Þá nam sá útflutnjngur 6 millj. kr. Hér er því gert ráð fyrir 5 millj. kr. Alls nemur þetta af sjávarafurðum 28 millj. kr.

Kjöt, gærur, ull og aðrar landbúnaðarafurðir áætla ég 4 millj. kr. (Þessi útflutningur nam 5 millj. kr. 1930). Ýmislegan annan útflutning áætla ég 1 millj. kr. og vörubirgðir frá fyrra ári 6 millj. kr. Þetta nemur samtals 39 millj. kr.

Með þessari áætlun er ekki litið svörtum augum á ástandið. Ég er ekki gjarn á það. Er ég fremur bjartsýnn á framtíðina, en e. t. v. er ég þó svartsýnni nú en endranær, enda til þess nægilegar ástæður. Hver er þá afkoma þjóðarbúsins? Ég er sannfærður um, að tap þjóðarinnar á yfirstandandi ári verður ekki minna en 10–15 millj. kr. Hver borgar? Hafa atvinnuvegirnir bolmagn til þess að greiða þetta tap? Ég verð að svara því, að það er óhugsandi. Ástandið er það, að atvinnuvegirnir hafa á undanförnum árum verið svo skattpíndir, að þeir hafa ekki verið þess megnugir að halda við atvinnutækjunum, hvað þá að auka þau, eins og fólksfjölgunin í landinu heimtar. Ég veit sérstaklega um smábátaútveginn, mótorbátana og togarana, að ástandið er þetta. En mér hefir verið sagt, að ástandið sé engu betra, að því er snertir línuveiðarana. Um landbúnaðinn er sama að segja.

Ég vil hér gera samanburð á árunum 1924–1927 annarsvegar og árunum 1928 –1931 hinsvegar, að því er snertir innflutning, útflutning og afkomu þjóðarbúsins.

Árin 1924–1927 var flutt inn fyrir 238,2 millj. kr. og flutt út fyrir 276,1 millj. kr. Tekjur ríkissjóðs voru þá 53,4 millj. kr. eða 19% af útflutningnum. Afkoma ríkissjóðs: Skuldir borgaðar og sjóðaukning 8,3 millj. kr.

Árin 1928–1931 var flutt inn fyrir 256,7 millj. kr. og flutt út fyrir 249,4 millj. kr. Tekjur ríkissjóðs voru þá 62 millj. kr. eða 24% af útflutningnum. Þetta þýðir, að fjórða hver króna útfluttrar voru rann í ríkissjóð. Á síðasta ári keyrði þó svo úr hófi, að ríkistekjurnar námu 38% af útflutningnum. Á þessum árum safnast mikið af skuldum og sjóðinneign ríkissjóðs lækkar um 1 millj. kr. frá árslokum 1927 til ársloka 1930.

Skuldir ríkissjóðs hafa þannig á árunum 1924–1927 lækkað um 8 millj. kr., en á árunum 1928–1930 hækkað um 12645000 kr. og auk þess hefir sjóðeign lækkað um 1 millj. kr. Skuldir ríkissjóðs 31. des. 1927 voru kr. 11288749,77, en 31. des. 1930 kr. 23933883,07.

Ef litið er á útflutning, aðflutning, skuldagreiðslur og skuldasöfnun, staðfestir allt það álit mitt, að útflutningur verði að vera ca. 10 millj. kr. meiri en aðflutningur. Auk skuldasöfnunar 4 undanfarin ár hefir ríkissjóður tekið á sig skuldbindingar, sem ekki eru hættulausar. Býst ég við því, að ríkið tapi nokkrum milljónum á þeim ábyrgðum. sé ég ekki, að atvinnuvegirnir þoli, að svo sé tekið af þeim til ríkisþarfa sem gert hefir verið undanfarin ár. Hafa það þó verið mikil aflaár, og þótt verðið hafi verið lágt síðasta ár, hefði mátt vænta, að komizt hefði verið hjá skuldasöfnun. En skuldum hefir verið safnað úr hófi fram, og er enginn efi á því, að við erum með þessu framferði að stefna að ríkisgjaldþroti, og hver stund, sem liður, án þess að tekið sé í taumana, torveldar, að hægt sé að forðast það sker, sem við erum að sigla á. Fyrir mínum sjónum verður að færa ríkisútgjöldin niður í 10 millj. kr. hæst, ef nokkur von á að vera um að rétta fjárhaginn við.

Að því er snertir ríkissjóð og fjáreyðslu hans, liggur aðalorsökin hjá stj. og þeim, sem farið hafa með völdin síðan 1928, en líka á þeim flokkum, er stutt hafa þessa stj., fyrst og fremst Framsóknarflokknum, en svo og Alpyðuflokknum. Er ekki von, að vel fari, þegar svo eru varðar allar misfellur sem gert hefir verið á þessu þingi í umr. um LR. og síðustu þrem þingum. Sökin er hjá stuðningsflokkum stj., fyrir það að hafa ekki enn tekið í taumana.

Nú er ekki hægt að færa ríkisútgjöldin svo mikið niður, að þar með náist jöfnuður á ríkisbúskapnum á slíkum árum sem 1931, yfirstandandi ári og eftir útlitinu á árinu 1932. Til þess þyrfti allar ríkistekjurnar og jafnvel meira. Hitt ættu allir að verða samtaka um, að færa útgjöld ríkissjóðs svo mikið niður sem fært er og skera miskunnarlaust niður allt nema það bráðnauðsynlegasta. Að öðrum kosti sé ég enga von til að halda trausti erlendra lánardrottna, en það er eins og nú er komið lífsnauðsyn, ella er óskiljanlegt, að þjóðin lifi af næstu árin, án skorts á brýnustu nauðsynjum, nema við fáum 10–15 millj. kr. í erlendum lánum. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara út í það, sem deilt hefir verið hér um einstakar upphæðir LR. Það væri aðeins endurtekning, enda virðist það ekki hafa borið mikinn árangur, samkv. reynslu undanfarandi þinga, þó að stjórnarandstæðingar hafi í aðfinnslum sínum bent á stórfellt brask í meðferð stj. á fé ríkissjóðs. En hitt sé ég ekki, hvar við getum vænzt að njóta lánstrausts, ef svo fer fram um fjárbruðl stj. og gert hefir um hríð. Enda er engin von til, að þær þjóðir, sem allra verst stýra fjármálum, njóti trausts erlendra lánardrottna.

Ég gat þess á þinginu 1931, að enskur fjármálamaður hefði talað við mig 1930; hann er merkur hagfræðingur og auk þess bankastjóri í Englandi. Hann sagði það ískyggilegast í fjármálameðferð ríkissjóðs hjá okkur, að við söfnuðum skuldum þegar við hefðum stórfelldar tekjur umfram áætlun fjárlaga. Ég sá hjá honum skýrslu yfir tekjur og eyðslu flestra ríkja í Norðurálfunni frá 1921. Og ekkert ríki hafði fengið eins miklar umframtekjur árin 1928 og 1929 og Ísland, en jafnhliða hafði ekkert annað ríki eytt eins miklu umfram áætlaðar tekjur. Þarna er meinið, sem verið hefir í ríkisbúskap okkar undanfarin ár. Vel má vera, að neyðin kenni okkur að fara aðrar leiðir, — en er það þá ekki of seint?