30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (2963)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jón Þorláksson:

Hæstv. fjmrh. bar á mig þær sakir, að ég teldi tekjurýrnun af tóbakinu byggjast á því, að salan yrði minni í einkasölu en frjálsri verzlun. Ég hefi gert rækilega grein fyrir skoðun minni á þessu, og er hana að finna í nál. á þskj. 261 frá sumarþinginu 1931. Ég hefi þar gert grein fyrir því, að reynslan er sú, að á þremur árunum síðustu áður en einkasalan hófst var innflutt tóbak, sem tollur greiddist af, 1,3 kg. að meðaltali á mann. Á næstu 4 árum eftir að einkasalan var afnumin 1,2 kg. En meðaltalið á ári þau 4 ár, sem einkasalan stóð, var innflutningurinn aðeins 0,9 kg. á mann. Ég hefi ekkert sagt um sölu, verzlun eða neyzlu. Ég hefi aðeins tekið innflutningsskýrslurnar, sem sýna þetta, að innflutningur, sem tollur greiðist af, verður minni. Margir halda, að notkunin eða neyzlan í landinu verði ekki minni, en um það hefi ég ekkert sagt. Ég hefi aðeins byggt mína skoðun á staðreyndum.