30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jakob Möller:

Hæstv. fjmrh. getur enn ekki fundið neina skynsamlega ástæðu fyrir þeirri staðreynd, að tóbakseinkasalan valdi því, að tolltekjurnar af tóbakinu verði minni, aðra en þá, að tóbaksnotkun minnki. Hann hélt því fram, að notkun tóbaks hefði verið minni meðan einkasalan var áður, vegna þess að þá hafi verið erfiðleikar. En þá voru einmitt veltiár, t. d. 1924 og 1925, og nógir peningar manna á meðal. Samt var innflutningur tóbaks meiri árin eftir, sem reyndar voru líka góð, en hann var líka meiri árin á undan, sem voru miður góð.

Hæstv. ráðh. lýsti eftir því, hvort við vissum til þess, að menn notuðu smyglað tóbak. Ég hefi áður sagt það, og get endurtekið það, að ég veit til, að á ýmsum stöðum, þar sem lítið var flutt inn löglega af tóbaki í tíð gömlu einkasölunnar, þar var enginn skortur á tóbaksvörum. Það er hægt að gefa ýmsar skýringar á því, hvers vegna menn fá meiri freistingu til að smygla, þegar tóbakseinkasala er heldur en þegar verzlunin er frjáls. Það hefir t. d. verið áður bent á, að þegar verzlað er með tóbakið aðeins á einum stað, þá geta beinlínis orðið vandræði að ná í það. Við skulum bara líta á gömlu tóbakseinkasöluna, hvernig það var í hennar tíð. Þá áttu sumir þar svo erfitt með viðskipti, að þeir voru neyddir til að leita fyrir sér annarsstaðar. (EÁrna: Voru það skilamenn?). Ég ætla ekkert að upplýsa um það, hvaða menn þetta voru, en til þessa geta legið ýmsar ástæður.

Það er vitanlegt, að þegar tóbaksverzlun er rekin í frjálsri samkeppni, þá er eftirlit með að ekki sé smyglað miklu öflugra heldur en þegar einkasala er. Þá eru allir, sem verzla með löglega innflutt tóbak, „interesseraðir“ fyrir því, að tóbak sé ekki flutt inn ólöglega, og það er það sterkasta eftirlit, sem hægt er að fá í þessu efni.