23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

3. mál, landsreikningar 1930

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Vegna þess að hv. 2. þm. Skagf. hefir notað ræðutíma sinn, ætla ég að beina fáeinum orðum til hv. þm. Dal. út af þessari einu aths. hans við LR. Mig furðar dálítið á, að hann skyldi bera niður á þessu eina atriði, sem ég held, að lakast sé að verja, sem sé það, að hæstv. stj. borgar embættismanni 2000 kr. hærra en mögulegt er lögum samkvæmt. Það er ómögulegt að hugsa sér skýrara brot á gildandi lögum, því að hér eru beinlínis teknar 2000 kr. úr ríkissjóði árlega og borgað einum lækni umfram hans lögákveðnu laun. Og svo er hv. þm. Dal. að tala um, að þeir, sem hafa andmælt þessu, taki ekki til greina þau rök, sem fyrir þessu lágu, en rök hv. þm. Dal. og hæstv. dómsmrh. liggja langt fyrir utan efnið.

Við skulum nú líta á þetta svolítið nánar. Yfirskoðunarmenn gera aths. við, að einum embættismanni hafi verið greiddar 2000 kr. meira en honum bar að lögum. Stj. fóðrar þetta með því, að þessi embættismaður hafi verið fluttur úr tekjumeira embætti í tekjuminna. Svo sannast ekki aðeins, að þessi læknir var ekki fluttur úr tekjumeira héraði í tekjuminna, heldur er Keflavíkurhérað betra en það hérað, sem í er vitnað, en svo kemur það merkilega, — þessi læknir var aldrei fluttur milli héraða. Í stað þess að koma með rök í málinu vefja þeir og vaða um einhverja ímyndaða deilu milli hæstv. dómsmrh. og Iæknafélagsins, og úr því að farið er út í það, finnst mér rétt að minnast nánar á það, og einkanlega í sambandi við það, sem hæstv. dómsmrh. kallar upplausn þjóðfélagsins.

Samkv. 69. gr. stjskr. er gert ráð fyrir, að menn megi stofna með sér félagsskap. Og ég efast ekki um, að læknar megi hafa slík samtök með sér eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Hvernig getur þá verið um upplausn þjóðfélagsins að ræða? hér er ekkert annað en tóm ímyndun í heila hæstv. dómsmrh.

Við skulum taka dæmi. Embættismaður úti á landi sendir mér eða hv. þm. Dal. umsókn sína, en biður mig að athuga einhver viss atriði í sambandi við hana, er ráða því, hvort ég á að láta umsóknina koma fram eða ekki. Er þetta ekki heimilt? Við getum alveg eins hugsað okkur, að prestur úti á landi sendi prestafélaginu hér umsókn sína og bæði það að athuga einhver viss atriði í sambandi við hana.

Hvað hefir þá skeð hér? Ekkert annað en að læknar hafa gert samtök sín á milli um að í stað þess að senda stjórnarráðinu umsóknir sínar, skuli þær sendar læknafélaginu, sem ræður hver af umsóknunum skuli koma fram. Hér er alls ekki um að ræða, að fyrst sæki svo og svo margir um embættið og svo taki stjórn læknafélagsins umsóknirnar og stingi þeim undir stól. Það sótti enginn um Keflavíkurhérað annar en Jónas læknir Kristjánsson, þangað til lækni var hröngvað að taka við embættinu. Allar stéttir hafa heimild til að hafa með sér þau samtök, sem þær vilja, aðeins að það brjóti ekki í gegn gildandi lögum. Og þó að ein stétt feli félagi sínu að ráða, hvort umsóknir komi fram eða ekki, þá réttlætir það ekki herkostnað þann, sem þeir hafa verið að tala um, hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Dal.

Það skal að vísu játað, að það er óvanalegt, að embættismenn leggi vald í hendur nefnd manna, eins og hér var um að ræða. En það var af því, að hæstv. dómsmrh. var búinn að misbjóða og óvirða allar reglur um veitingu læknishéraða, að ómögulegt var fyrir læknastéttina, sem ber siðferðilega ábyrgð á öllu slíku, að þola það lengur. Stundum þverbraut hæstv. ráðh. till. jandlæknis; stundum var landlæknir hundsaður og alls ekki spurður. Stundum var safnað undirskriftum, þar sem skorað var á stj. að veita einhverjum ákveðnum lækni héraðið. En ef undirskriftirnar voru öðruvísi en ráðh. vildi, eins og t. d. í Keflavíkurhéraði, þá var ekkert eftir heim farið. Það sézt á þessu, hvað búið var að brýna járnið og að læknar gátu ekki þolað slíkt ástand lengur: þess vegna tóku þeir það ráð að senda stjórn læknafélagsins umsóknir sínar og láta hana ráða, hverjir fengju embættið.

En það hefir ekki farið farið út í hér, að það var fleira, sem þeim bar á milli, hæstv. dómsmrh. og læknum. T. d. kom Helga Tómassonar-málið hér inn í. Þessi læknir og vísindamaður hafði farið heim til hæstv. dómsmrh. og tilkynnt honum, að hann hefði grun um, að ráðh. mundi geðbilaður. Hæstv. dómsmrh. brást reiður við og fullyrti bæði í ræðum og blaðagreinum, að öll læknastéttin stæði að baki Helga Tómassyni og væri á móti sér. Þetta varð svo að margföldu fjandskaparefni milli hæstv. dómsmrh. og lækna. Þess vegna gengur hæstv. dómsmrh. út í þennan hernað við læknana, sem hann er að tala um, með Sigvalda Kaldalóns við hlið sér. En hvort einn maður, hvort sem hann er dómsmrh. eða ekki má leggja á þjóðina herkostnað í einkadeilum við hina og þessa menn í landinu, það er spurningin. Ég fyrir mitt leyti svara því hiklaust neitandi. Það er engin heimild til að leggja herkostnað á þjóðina í einkamálum eins ráðh. við Pétur eða Pál.

En í raun og veru kemur þetta ekki málinu við. Aðeins má ekki vera ómótmælt, eins og ég drap á í upphafi, að hér var ekki um upplausn þjóðfélagsins að meða af hendi lækna og enginn bardagi um lýðfrelsi í landinu. Hér er bara að skera ur, hvort einum ráðh. á að haldast uppi takmarkalaust að brjóta allar reglur, sem gilt höfðu áður um veitingu læknishéraða. Um þetta stóð deilan, og til að vinna hana varð ráðh. að kaupa einn lækni fyrir 2000 kr. á ári, og það er þetta, sem hann vill kalla herkostnað. Nú er aðeins spurt af mér og öðrum, hvort Alþingi ætli að viðurkenna þennan herkostnað, því að ekki er fyrir að synja, að þessi sami ráðh. geti fundið upp á að leggja fleiri herkostnaði á þjóðina.

Úr því að hv. þm. Dal. ætlar að standa upp aftur, þá vona ég, að hann svari í fyrsta lagi, hvort Keflavíkurhérað sé launaminna en hitt, og í öðru lagi, hvort til þess að borga hærri laun þurfi ekki að flytja menn á milli embætta?

T. d. gæti hæstv. dómsmrh., ef hann vildi, borgað einhverjum presti biskupslaun, en svo væri biskupslaust eftir sem áður. Hann borgaði prestinum aðeins biskupslaun og segði: Ég ætlaði að gera þig að biskupi og flytja þig síðar í embættið, en þótti ekki taka því.