25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2996)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki mikið að segja um frv. yfirleitt. Ég ætla ekki að fara að leggja mig á neinar vogarskálar móti hv. samþm. mínum um trúarbrögð eða háttalag gagnvart trúarbrögðum. Ég get þó ekki orðið hv. frsm. sammála um þetta frv., og því síður sem ég heyri meira um það talað. Það er nú svo með þennan trúarbragðafjálgleik, að menn nota hann stundum til ýmissa skemmdarverka. Svo er það nú með hv. þm. Ísaf. og hv. 3. þm. Reykv. Þeir vilja ekki koma nálægt málinu í heild, en þeir vilja nota það til að koma fram skemmdarverki, sem þeir vita vel sjálfir, að það er að hamla öflun tekna hjá almenningi. Þeim hlýtur að vera það ljóst, að með till. sinni verða þeir valdir að því, að menn verða sviptir lífsframfæri sínu og þar með gerðir að verri mönnum og verr hugsandi yfirleitt. En þrátt fyrir að þeir vita þetta vel, þá svífast þeir ekki að koma með till., sem verður þess valdandi að draga úr aflabrögðum og þar með tekjum manna.

Mér fannst þó hv. samþm. minn vilja ganga feti lengra. Hann vill láta þetta bann ná til bátaútgerðarinnar líka. Hann vill fyrirbjóða þeim að leita bjargarinnar á helgum dögum, eins fyrir því þótt landlega hafi verið alla vikuna. Þetta væri skemmdarverk, sem mundi kosta þjóðina afarmikið, ef þingið tekur ekki fyrir slíkan ósóma, sem ég þó vil vona, að það geri. Það væri skemmdarverk, þegar kannske er búið að liggja í stofu eða húsum fjóra daga, ef ekki má róa, ef á sjó gefur fimmta daginn, bara af því, að það er sunnudagur. Þetta hafa þó hv. þm. Ísaf. og hv. 3. þm. Reykv. séð. Þótt þeir af sinni alkunnu góðmennsku til togaranna hafi með brtt. sinni viljað gera slíkt hermdarverk á þeim, þá er það þó miklu minna heldur en ef bátaútvegurinn er tekinn með. (SvbH: Það er enginn að tala um að banna bátum að róa á sunnudögum). Ég er að tala um það, sem hv. frsm. sagði og hann kvaðst ætla að bera fram brtt. um við 3. umr. (SvbH: Vill ekki hv. þm. lesa frv.?). Ég er að tala um það fyrirheit, sem þeir gáfu, hann og hv. 1. þm. S.-M, um að koma með brtt. við 3. umr., sem hefði inni að halda almennt bann gegn helgidagavinnu á sjónum. — Annars var hv. 1. þm. S.-M. ekki viss um það, að togararnir fiskuðu á stórhátíðum, og taldi það ekki líklegt. En ég skal nú fræða hv. þm. á því, og það hélt ég, að hann vissi, að það er engin ánægja í því fólgin að veltast aðgerðarlaus úti í hafi, þótt á stórhátíðum sé. Þeir vilja heldur aðhafast eitthvað heldur en að láta reka í misjöfnum veðrum úti á reginhafi, og brúka því stórhátíðirnar til að fiska, þegar svo stendur á. Þetta hélt ég að jafnskýr maður og kunnugur vissi og mundi skilja. Sem betur fer er þó karlmennska og sjálfsbjargarviðleitni sjómannanna okkar enn svo mikil, að þeir vilja ekki sitja af sér afla, þegar hann er að fá. Svo er þetta enn. En þegar á að fara að nota hverja smugu, sem hægt er að finna, til að aftra mönnum frá að bjarga sér, þá eru atvinnuvegir okkar sannarlega í voða.

Ég vil nú spyrja hv. samþm. minn, hvort hann getur dregið á sig þá helgislepju, sem til þess þarf, að hann vilji nú fara að banna sínum héraðsmönnum að bjarga heyi undan rigningu og skemmdum á helgum degi eða þá að annast skepnuhirðingu, jafnvel þótt á aðfangadag jóla sé. Ég hugsa, að nokkuð annað hljóð kæmi í strokkinn, þegar þangað væri komið. En hv. þm. má vita það, að fiskurinn bíður ekki eftir veiðimanninum, heldur verður hann að taka björgina, þegar hún býðst. Það reyndist Esbjergmönnunum í Sandgerði, sem ekki vildu róa á sunnudag. Fjörðurinn var fullur af síld á laugardag. En á mánudag, þegar þeir ætluðu að taka hana, var hún öll farin. Þeir voru svo beitulausir allan veturinn og öfluðu ekki. — Þetta er bara eitt dæmi þess, hverjar afleiðingar þær till. geta haft, sem nú eru á sveimi.