25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (3000)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. frsm. sagði, að helgihald væri upprunnið í Austurlöndum af algerlega hagnýtum ástæðum. Ef svo er og ekkert trúarlegt við það bundið, þá sé ég ekki, hvers vegna á að halda þessari reglu mjög fast að okkur Íslendingum, því að í mörgum tilfellum er það hér á landi bein nauðsyn, frá hagfræðilegu sjónarmiði séð, að vinna á helgidögum. Ég skal benda á smábátaútveginn. Það getur komið fyrir, að menn komist ekki á sjó hálfa eða heila vikuna til að ná upp netjum sínum. Svo gefur á sunnudegi. Eiga þeir þá að eiga það á hættu að missa bæði net og afla, eða eiga þeir að fá að bjarga eignum sínum, þótt helgur dagur sé? Það má nefna fjölda tilfella, þar sem orðið getur brýn nauðsyn á að nota sunnudagana til að forðast stórtjón. Þótt ég vilji ekki viðurkenna, að ég sé miklu verr kristinn en allur almenningur, þá get ég samt ekki talið það vilja guðs að meina mönnum að bjarga atvinnu sinni og afkomu undan stórskemmdum, þótt á helgum degi sé. Það er dálítið annað, þegar helgihald annara er truflað með vinnu, t. d. þegar unnið er í bæjum um messutímann. Það hagar öðruvísi til úti á sjó en í landi í þessu tilfelli. Ég veit, að á mörgum togurum er alls ekki unnið frá aðfangadagskvöldi og fram yfir miðjan jóladag, nema því aðeins, að fyrirsjáanlegt sé, að með því verði eyðilögð heil veiðiför. Menn hafa talað hér eins og ísfiskveiðar væru stundaðar árið um kring. En það er nú eitthvað annað. Á síðustu vertíð, árið 1931, stundaði togari sá, sem ég sé um, ísfiskveiðar í þrjá mánuði; þar af voru 47 innilegudagar vegna óveðurs. Það er alvanalegt, að yfir haustvertíðina sé a. m. k. þriðji hver dagur og stundum helmingur, sem ekki verða stundaðar veiðar vegna storma. Það er víst, að sé bannað að veiða, þótt ekki sé nema 5–6 klst., þegar gott er veður, þá getur það eyðilagt heilan túr. Ég held, að það sé betra að láta skipshöfnina sjálfa um það, hvort hún starfar að veiðum þessa tíma eða ekki.

Hv. þm. Ísaf. reiknaðist það vera milljónatap fyrir þjóðina að halda jólahelgi. ég held þetta sé fjarri sanni. Jólin eru á þeim tíma árs, þegar langflestir landsmenn geta látið vera að vinna sér að meinalausu. Það eru aðeins fiskimennirnir, sem geta beðið tjón, ef vinna er felld niður, aðrir ekki.

Það er rétt, að það er leiðinlegt að sjá skip fara á veiðar rétt fyrir jólin, jafnvel á aðfangadag. Ég væri ekki á móti að banna slíkt, því að það er næsta óviðkunnanlegt.

Hv. þm. talaði um vökulögin. Ég var samþykkur þeim að því er saltfiskveiðar snertir. En á ísfiskveiðum eiga þau ekki við. Vegna þeirra þarf þriðjungi fleiri menn á skipin á ísfiskveiðum en keppinautar okkar, Englendingar og Þjóðverjar, nota. Þá er alltaf hægt að fá sér hvíld meðan varpan er niðri, svo sem klst. í senn. Það er ekki mikill svefn að vísu, en þó nokkur hvíld. Þess er líka að gæta, að meðan siglt er til Englands með aflann og aftur heim, þá er nóg hvíld. Sannleikurinn er sá, að meðan togararnir stunda ísfiskveiðar, þá er vinnan óvenjulega létt. Hún er stórkostlega miklu léttari en vinna á línuveiðurum og stórum mótorbátum.

En ef það á yfirleitt að banna að vinna á helgidögum og hátíðum á togurum, hvað sem við liggur, því þá ekki að banna það líka á millilandaskipunum? Það ætti ekki að vera síður ástæða til þess. En það kann að vera, að hv. þm. þekki ofurlítið betur til þess atvinnurekstrar og verði því ekki eins auðfengnir til að ganga inn á það.