25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Hv. samþm. minn hefir nú heldur dregið inn frá sinni fyrri ræðu. Það er rétt, að frv. sjálft gaf ekki tilefni til orða minna, en það var þetta fyrirheit hans um að koma fram með brtt. við frv. við 3. umr. sem orð mín áðan voru miðuð við. En honum skjátlast, þegar hann segir, að ég haldi hinu sama fram nú og þegar vökulögin voru fyrst samþ. Ég átti þá alls ekki sæti á Alþingi og gat því engu haldið fram þar. En ég get trúað honum fyrir því, að ég var á móti þeim, og það af ástæðum, sem nú eru þegar komnar fram. Ég sá ekki, að hægt væri að halda skipunum úti í samkeppni við aðrar þjóðir með 4–5 mönnum fleira á hverju skipi en þær hafa. Það hlýtur að reka að því, að þeir, sem búa við slíkar kvaðir, dragist aftur úr í samkeppni þjóðanna. Það er nú komið á daginn, og stend ég því með pálmann í höndunum að því leyti, að ég sá rétt þá.

Hv. þm. Ísaf. hefir nú um hríð verið leiðtogi þeirra Ísfirðinga í heilbrigðismálum, eins og vera bar. Ég ætla, að hann hafi og verið í stjórn samvinnufélags þeirra, og því líka leiðtogi í atvinnumálum. Nú vill hann líka gerast leiðtogi í kristindómsmálum. En þá ætti hann líka að fara rétt með tilvitnanir í ritninguna. Hann sagði, að framar bæri að hlýða guði en mammon. Hingað til hefir þessi tilvitnun verið höfð svo, að framar bæri að hlýða guði en mönnum. Ég get ekki talið hann fyllilega færan um að gerast leiðtogi í trúarefnum, meðan hann fer svona með tilvitnanir, og get því ekki óskað Ísfirðingum til hamingju með hann sem trúarbragðakennara.