25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (3005)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Ég skal ekki lengja umr. mikið, sem þegar eru orðnar nógu langar um þetta mál. Hv. samþm. minn sagði, að ég hefði dregið inn seglin um að lögákveða hvíldartíma fyrir alla sjómenn á stórhátíðum. Ég skal sýna honum, hvort svo er, við 3. umr. og láta þá verkin tala í þessu efni. Hv. þm. sagði, að það hefði verið misskilningur minn, að hann hafi verið orðinn þm. þegar vökulögin voru samþ. Þótt svo hafi verið, þá skiptir það ekki miklu máli, því að hv. þm. hefir viðurkennt, að hann hafi þá verið á móti þeim, og hefir oft minnzt á það hér í þessari hv. d. síðan. Ég álít ekki vert að draga vökulögin mikið inn í þessar umr. Hinsvegar viðurkenna sjómenn, að þau lög hafi orðið þeim til mikils góðs og hafi bjargað þeim mörgum frá algerðu heilsuleysi, er þeim var annars búið af of miklu erfiði og of lítilli hvíld. Ég vil spyrja hv. þm., sem þykist standa með pálmann í höndunum í því máli, hvort hann þekkir ekki einhverja menn, sem ófærir urðu til vinnu fyrir þessar sakir? Það er ekki af illum hug til útgerðarinnar, sem ég segi þetta. Ég veit, að mikið kapp var lagt á veiðarnar og að þess vegna var ekki alltaf stillt í hóf.

Ég er ekki sammála hv. þm. Vestm. um, að íslenzkir skipstjórar þurfi að skammast sín gagnvart útlendum skipstjórum, þegar þeir koma í útlenda höfn til að selja fisk, fyrir það að hafa fleiri menn en þeir. Það er almennt viðurkennt, að íslenzku skipin fá meiri afla og á styttri tíma en þau útlendu, þótt miðað sé við mannfjölda á þeim. Þetta er reglan, þótt undantekningar kunni að vera á því.

Hv. þm. Vestm. talaði um, að það ætti að vera viðurkennt, að víðtækt frelsi gilti um þetta efni sem önnur. Ég er honum alveg sammála. Ég vil, að sjómennirnir hafi sama frelsi og sömu mannréttindi og við hinir, sem störfum á landi. Ég vil ekki, að þeim sé að þarflitlu bægt frá því að njóta helgidagshvíldarinnar í þeim litla mæli, sem frv. þetta ætlar þeim. En það er alger misskilningur, að ég í þessu efni sé að senda illan tón til skipstjóranna. Þeir eru yfirleitt duglegir og góðir menn. Ég þekki það nokkuð af eigin raun, því að ég hefi verið á togara, þótt stuttan tíma væri. Ég veit því, að þeir eru vel liðnir yfirleitt og treyst af mönnum sínum og að þeir vilja sýna heim fulla sanngirni. En það er vitað, að samkeppni er mikil milli skipstjóranna og að hún hefir stundum knúð þá of langt í því að sækja veiði sína, og af þeirri ástæðu hafa þeir ekki alltaf unnað hásetum sínum hæfilegrar hvíldar, þegar engin takmörk voru sett.

Hv. þm. Vestm. fór að tala um kommúnista og vildi telja mig til þeirra. Fyrst hann gerir það, þá vil ég nú vinsamlegast beina þeirri ósk til hans, að ef ég kæmi einhverntíma í kynnisför heim í kjördæmi hans, þá sjái hann um, að ég geti fengið þar húsnæði með skotheldum tjöldum fyrir gluggum. Það mun vera vissara á þeim stað að gæta þeirrar varúðarreglu, ef vissir menn þar gruna mann um að hafa svo háskalega skoðun á landsmálum eins og kommúnistar. (MG: Eru ekki öll gluggatjöld skotheld í Vestmannaeyjum?). Mér er ekki kunnugt um það, en sum hafa reynzt svo. Ég fer bara fram á þetta vegna þess, að það er nú talið vissara að gæta slíkrar varúðar á heim stöðum.

Hv. þm. Vestm. þykist ekki vita til þess, að róið sé til fiskjar á stórhátíðum. Það er þó víst, að þetta hefir verið gert í hans kjördæmi. Mér er vel kunnugt um það. Og þegar hann því kemur með skýlausar yfirlýsingar hér um það gagnstæða, sem bæði hann og aðrir vita vel, að ekki eru sannar, þá ætti hann ekki að vera að bregða örum þm. um fariseahátt og hræsni.