25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3008)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Vilmundur Jónsson:

Hv. 1. þm. Rang. talaði um loddaraskap í þessu máli. Ég held, að það hafi ekki átt svo illa við. Þetta frv. er um breyt. á l., sem eru um mjög smávægileg atriði, svo sem eins og það að banna fundarhöld á helgidögum fyrr en eftir kl. 3 og saklausar skemmtisamkomur ákveðin helgidagakvöld. Einu slíku kvöldbanni átti nú að bæta við. Allir hv. þm. Ed. fórnuðu höndum af guðrækni og frv. flaug þar í gegnum d. Þegar það svo kemur hingað, er guðræknisáhuginn svo mikill, að tvær n. taka málið að sér, gefa báðar út um það nál. og óska þess báðar, að frv. verði tafarlaust samþ. Og þetta er á þeim tíma, sem hvert merkismálið eftir annað er saltað í n. og dæmist til að sjá aldrei dagsins ljós. Nú vildi ég gjarnan vita, hver alvara fylgdi þessari miklu guðrækni hv. þdm. Ég kom því fram með brtt., sem hefir mikla þýðingu fyrir fjölda manna, alla sjómennina á togaraflotanum, og er um það, hvort þeir eigi að hafa frí frá vinnu sinni sjálfa jólanóttina, sem er hin mesta trúarhátíð öllu kristnu fólki og þjóðhátíð jafnt vantrúaðra sem trúaðra. En hvað skeður þá? Þá stekkur hver eftir annað upp og mótmælir. Allur trúar- og guðræknisáhuginn er horfinn. Þetta kostar peninga! ég vil nú prófa hugi manna enn betur og óska því eftir skilmerkilegu nafnakalli. Og þar sem ekki virðist ætla að blása byrlega fyrir brtt. minni, þá skora ég á hv. þm., ef hún verður felld, að hætta þá öllum loddaraskap og fella rétta ómerkilega frv., sem felur í sér það eitt að banna fólki að ganga í öllu „skikkelsi“ á bíó á skírdagskvöld.