25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3009)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. samþm. minn virtist sannfærður um, að ef togaraflotinn yrði fyrir erfiðleikum á næsta hausti, þá yrði það samþykkt þessa frv. að kenna. Hann er nú svo kunnugur, að hann mætti um þetta vita. En heldur þykir mér nú þetta stór fullyrðing, ekki sízt þegar þess er gætt, að ákvæði laganna yrðu alls ekki komin til framkvæmda á næsta hausti!

Hv. þm. spurði, hvar gleðin yrði þá. Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að gleðin, sem fylgir hverju góðu og heiðarlegu starfi, njóti sín svo bezt, að hvíld og starf skiptist á. Og togaramennirnir þurfa engu síður að fá hvíld en aðrir menn í sínu erfiða starfi.

Hv. þm. Vestm. vildi ekki kannast við, að róið væri á stórhátíðum í sínu kjördæmi. Hann dró þessa staðhæfingu sína nú nokkuð inn í síðustu ræðu sinni. Hann bar ekki á móti því, að þetta ætti sér stað, en hélt sig einungis við, að það væri ekki regla. Ég hefi heldur aldrei sagt, að það væri regla þar að róa á stórhátíðum. Get ég vitnað um það til hv. d. Ég sagði bara, að það væri gert þar stundum, svo að okkur ber þá ekki mikið á milli um það. Þetta er misnotað þar sem víðar, án þess að brýna nauðsyn beri til, svo sem að bjarga þurfi veiðarfærum, eins og hann vildi halda fram, og erum við þá sammála eftir allt í þessu efni.