03.03.1932
Efri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (3018)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Hv. 2. landsk. beindi því til mín, hvort ég mundi ekki geta fallizt á að breyta ákvæðum frv., svo að verkið kæmi til framkvæmda þegar á næsta hausti. Var það nú að vísu með vilja gert, að ég setti það í frv., að ekki skyldi byrja á verkinu fyrr en að ári, af því að ég batt framkvæmd verksins við bílskattinn, en auðvitað er mér ljóst, að atvinnuþörfin verður brýn í sumar. Ég get og búizt við því, að ef frv. fær hér góðar undirtektir í d., eins og ég vænti fastlega, þá verði hægt að byrja strax á verkinu eftir sem áður, þannig að skilja, að fá megi lán til verksins út á þennan væntanlega hluta bifreiðaskattsins, sem til vegarins rynni skv. frv. Ber ég það traust til núv. hæstv. stj., að hún mundi fúslega greiða fyrir því, að slíkt lán fengist, svo að samt mætti byrja á verkinu í haust, ef frv. á annað borð verður að 1., eins og ég vona.

Að því er snertir þessar upplýsingar frá vegamálastjóra, sem hæstv. forsrh. gat um, má það að vísu vel vera, að eitthvað sé hæft í þessu, þó að allkynlegt sé, því að 1917 taldi vegamálastjóri umrædda leið heppilegasta, svo að hann hefir þá skipt um skoðun síðan eftir því. Ég hygg og, að flestir muni á því máli, að heppilegast verði og hagkvæmast að öllu leyti að leggja veginn þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir. Allir vita, að það er sitthvað að bíla krókótta leið og beina og greiðfæra, og þó að vegurinn verði um 3 km. lengri eftir frv. en ella, næst það upp með þeim ávinningi, sem af þessum mun leiðir. Svo er til ætlazt, ð vegurinn gangi út af suðurlandsbrautinni 6 km. frá Rvík. og verður álman til Hafnarfjarðar 8 km., og sjá allir, að það er ólíkt meiri skynsemi í því að gera þennan kafla suðurlandsbrautar að góðum vegi jafnframt og slá þannig 2 flugur í einu höggi, þó að auk þess þurfi að leggja þessa 8 km. vegarálmu til Hafnarfjarðar, heldur en að fullgera gamla veginn, þó að ekki sé hann nema 11 km., auk þess sem gamli vegurinn liggur á mjög óhentugum stað, og er enda mishæðóttur og snjóþyngsli á honum á vetrum. Vona ég, að n. taki þessi atriði öll til rækilegrar athugunar jafnframt upplýsingum vegamálastjóra, og þá ekki sízt það, hversu kostnaðurinn yrði miklu minni við bílferðirnar, ef vegurinn verður lagður þar, sem frv. gerir ráð fyrir. — Læt ég svo hér við sitja að þessu sinni.