26.04.1932
Efri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (3022)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég get ekki neitað því, að mér virðist anda kaldar til þessa máls míns nú en ég hafði gert mér vonir um eftir undirtektum vegamálastjóra og hv. samgmn. á sumarþinginu, enda get ég ekki komizt hjá því að láta það í ljós, að mér finnst hin ýtarlega skýrsla, sem vegamálastjóri hefir samið um málið og vafalaust lagt mikla vinnu í, vera svo úr garði gerð, að maður geti ekki varizt að álíta, að eitthvað annað hafi vakað fyrir honum með því að leggja á móti þessu máli en að hinn nýji vegur yrði of langur eða dýrari en kosta mundi að ganga vel frá gamla veginum.

Skal ég nú færa rök að þessari skoðun minni. Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni við l. umr. þessa máls, er hin mesta þörf á þessum vegi, ekki eingöngu vegna Hafnfirðinga, sem þannig mundu fá beinni samgöngur við austursveitirnar en þeir nú hafa og þeim er hin mesta nauðsyn á að fá, heldur og ekki síður vegna þess, að búast má við, að byggð rísi upp meðfram þessum vegi í nánustu framtíð. Reykjavíkurbær á þarna mikið af landi, og ef kreppunni heldur áfram, og enda hvort sem er, má gera ráð fyrir, að bærinn fari að nota þetta land og byggja þar smábýli eða bæjarhverfi. Bendir þróunin eindregið í þessa átt, því að allt bendir til þess, að Reykjavík og Hafnarfjörður muni renna saman í einn bæ í framtíðinni. Vegamálastjóri lætur og svo um mælt í áðurnefndri skýrslu sinni, að líklegt megi telja, að leggja þurfi veg á þessum slóðum vegna ræktunar og byggingar landsins, og um leið vegna útvarpsstöðvarinnar, og telur hann, að vegurinn mundi þurfa að ná upp að Hvammkoti, en þar er hálfnuð leiðin til Hafnarfjarðar, eða því sem næst. Álítur vegamálastjóri, að þennan veg muni þurfa að leggja innan skamms tíma, og virðist mér hann þar með hafa slegið föstu, að þetta verði líka gert í nánustu framtíð. Virðist mér því Sem málið liggi svo fyrir, hvort sé skynsamlegra að gera þennan veg að framtíðarveginum, úr því að hann þarf að gera á annað borð, eins og till. mínar ganga út á, eða þá að malbika gamla veginn. Að ég tala um malbikun, kemur til af því, að skv. skýrslu vegamálastjóra borgar sig betur að hafa malbikaðan veg en malarveg, ef bílaumferðin svarar 500 bifreiðum á dag. Svk. talningu, sem vegamálastjóri hefir látið gera á bifreiðaumferð um Hafnarfjarðarveg, síðast haustið 1930, hafa daglega farið um hann að meðaltali 300 bifreiðar. Síðan hefir ekki verið framkvæmd nein slík talning, þar til um daginn, er ég lét gera það, og valdi ég illviðrisdagana í kuldakastinu, sem þá stóð yfir, til þess að fyrirbyggja það, að talningin yrði talin hliðholl, því að þegar illa viðrar, er minnst um bílanotkun. Er hvorttveggia, að fólk fer þá minna á milli bæjanna til að skemmta sér, og eins er þá minna um flutninga vegna gæftarleysisins. Lét ég telja umferðina í þrjá daga. og kom í ljós að 409 bílar fara þessa leið að meðaltali á dag. Samkv. þessu verður þess ekki langt að bíða, að umferðin komist uppi 500 bíla á dag, en það er sú umferð, sem vegamálastjóri telur þurfa til þess að það borgi sig að malbika þessa leið. Ég verð því að slá því föstu, að nauðsynlegt sé að malbika veginn og að það verði gert, og kemur þá til álita, hvort hentugra sé að leggja þennan nýja veg og malbika hann, eða hvort eigi að lappa upp á gamla veginn, svo að hann verði fær til malbikunar. Skv. áætlun vegamálastjóra kostar það 270 þús. kr. að gera þennan nýja veg, svo að hann verði hæfur til malbikunar, en til þess að gera gamla veginn hæfan undir vandað slitlag þarf enn að kosta til hans 80–100 þús. kr. skv. áætluninni, en í þessu hefir vegamálastjóri ekki tekið tillit til þess, að nauðsynlegt er að verja a. m. k. 50 þús. kr. til að gera nauðsynlegar umbætur á veginum, þó að hann verði malarvegur áfram. Að öðru leyti farast vegamálastjóra svo orð um þetta: „Með þeim umbótum, sem hér hafa verið áætlaðar á núverandi vegi, verða brýr allar breikkaðar, svo að jafnbreiðar verði veginum 15,5 m.), ennfremur lagfærðar krappar bugður og nokkrar bröttustu brekkurnar“.

Í þessu áliti hans, um að þetta sé 130 þús. kr. viðbót, gerir hann ekki ráð fyrir breikkun á Kópavogsbrúnni og heldur ekki þeim vandræðabugðum, sem hann kallar „ólánsbeygjurnar“ á veginum á þeirri leið. Það hlýtur að vera öllum ljóst, að það er ekki tiltökumál að fara að setja slitlag á veginn, nema gera við bugðurnar og breikka brúna, því þegar lagt er í svona mikið fyrirtæki, verður að ganga almennilega frá því. Það sér hver heilvita maður, að sú breyt., sem hér þarf að gera, bæði að setja nýja brú, 5,5 m. breiða, og taka bugðurnar af, fer langt fram ú 20 þús. kr., eins og vegamálastjóri gerir ráð fyrir. Ég býst við, að það sé óhætt að segja það, að þessi breyt. á gamla veginum, svo að hann verði nokkurn veginn nothæfur til malbikunar, kosti aldrei minna en í kringum 170 þús. kr. Og þá er vegurinn orðinn einum 100 þús. kr. ódýrari, ef malbikaður er gamli vegurinn, heldur en þessi fyrirhugaða nýja leið. Þá erum við komin að því, að við fáaum nýja veginn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fyrir 100 þús. kr., og þegar vegamálastjóri er búinn að sýna fram á, að það hljóti að verða að leggja þennan veg, þá liggur í hlutarins eðli, að praktískara er að fara þessa nýju leið en að vera að lappa upp á gamla veginn.

Þá hefir verið talað um það, að þessi leið muni verða lengri fyrir bifreiðar í framtíðinni, sem fara milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. En ég ætla að taka það fram, að það er ekki einungis það, sem vakir fyrir Hafnfirðingum, að fá veginn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, heldur það, að fá sem beztan og greiðastan veg frá Hafnarfirði og austur um, því það liggur í hlutarins eðli, að þó verzlun sé ekki mikil frá austursveitunum til Hafnarfjarðar, þá getur hún aukizt og hlýtur að aukast, ef austursveitirnar hafa beina leið til Hafnarfjarðar.

Þá kem ég að því, að þetta muni verða, eins og hv. frsm. n. talaði um, lengri leið. En við verðum að gæta að því, að þó hægt sé að mæla leiðina lengri með mælitækjum, þá getur hún verið styttri, ef aðrar ástæður koma til greina. Eins og vegamálastjóri hefir sjálfur sagt í skýrslu sinni, er vegarstæði á þessari nýju leið gott, hallalítið og beint, en gamla vegarstæðið er með bröttum brekkum og bugðum, og eftir því, sem mér skilst á vegamálastjóra, á að láta „ólánsbeygjurnar“ halda sér. Þegar þetta er svo, þá sér hver maður, að vegalengdin hlýtur að styttast, eða réttara sagt, að tímasparnaður hlýtur að því að vera, að vegurinn er beinn. Það er ýmislegt fleira, sem kemur fram í þessu áliti vegamálastjóra, þar sem hann reiknar út, hvort muni borða sig betur að halda við gamla veginum eða hafa veginn með góðu slitlagi. Allur sá útreikningur er bundinn við það, hvað margir bílar fara um veginn á dag. Eftir því, sem bílunum fjölgar á þessu svæði, verður ódýrara að hafa malbikun en malarlag. Svo er eitt atriði enn, sem vegamálastjóri hefir alls ekki farið inn á, en sem ég minntist á bæði í sumar, þegar ég talaði fyrst fyrir þessu máli, og eins við 1. umr. þessa máls á þinginu nú. og það er, að með því móti að fá þennan veg, þá komast Vífilsstaðir inn í sömu braut og Hafnarfjörður, og er það til stórmikilla þæginda bæði fyrir sjúklinga og eins fyrir fólk, sem þarf að vitja sjúklinga. Það hefir komið fyrir, að fólk hefir orðið að sætta sig við að standa á vegamótunum að vetri til, til þess að spara óþarfa kostnað, og orðið innkulsa fyrir bragðið. Ég veit um margt fólk í Hafnarfirði, sem hefir beinlínis orðið innkulsa vegna þess, að það hefir orðið að bíða svo og svo lengi eftir, að bílar færu framhjá.

Ég vona, að ég hafi nú sýnt fram á, að úr því að byggja á þennan nýja veg núna á næstunni samkv. skoðun vegamálastjóra, þá sé hreinn og beinn sparnaður í að leggja hann strax, en lappa ekki upp á gamla veginn. Og ég hefi líka sýnt og sannað, að það líða kannske ekki nema 2–4 ár þangað til umferðn er orðin svo mikil um veginn, að það ber að malbika þann. Í þriðja lagi hefi ég sýnt fram á, að vegalengdin mun ekki vera það miklu meiri, að hún vegi ekki upp á móti bugðum og brekkum gamla vegarins.

Þá kem ég loks að síðasta atriðinu, sent hv. frsm. gat um, og það var það, að fé væri ekki fyrir hendi. Það er alveg rétt, að á þessum krepputímum er kreppan jafnt hjá ríkissjóði og einstaklingum, eða kannske að sumu leyti frekar. En á þessu þingi hefir komið fram frv., sem átti nú að vera til 2. umr. í þessari d., sem þetta vegarfrv. var miðað við, þannig að ætlazt var til, að 50% af bifreiðaskatti gengju til þessa vegar, þar til hann væri fullgerður. Ég bjóst við, að ef sá skattur hefði orðið það þar, sem gert var ráð fyrir, þá mundi hann hafa gefið ríkissjóði um 400 þús. kr., og það hefði verið sama sem að við hefðum getað lokið við þennan veg á 4 árum. Og einmitt á þeim tíma, þegar 4 ár eru liðin, er umferðin orðin svo mikil, að hún fullborgaði vexti af því fé, sem lagt hefir verið í veginn. Að ég minnist á þennan skatt, er vegna þess, að ég álít, að svo framarlega, sem það er álit meiri hl. þd., að þessi skattur eigi að ganga í gegn á þinginu, þá sé ekki nema sjálfsagt, að hann sé notaður til atvinnubóta og til vegabóta einmitt á þeim stöðum, þar sem flestir eru bílarnir og þar sem skatturinn kemur þyngst niður. En það lítur ekki út fyrir, að það hafi verið skoðun allshn., að það bæri að taka tillit til þess, að skatturinn komi harðast niður á þessum tveim bæjum, Hafnarfirði og Reykjavík.