26.04.1932
Efri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (3025)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Bjarni Snæbjörnsson:

Það eru einungis nokkur smáatriði, sem ég vildi svara hv. frsm., og þá er það fyrst og fremst um þessi auknu viðskipti við austursveitirnar. Ég veit náttúrlega ekki, hvað þau myndu verða mikil, en það liggur í augum uppi, að Hafnarfirði eins og hann er settur og eins lítil viðskipti og hann getur haft við aðra staði, nema þá sveitirnar fyrir sunnan sig, yrði það mikill léttir, ef einhver verzlun gæti komið þangað. En svo ég víki aftur að þessum áætlunum, sem vegamálastjóri hefir gefið og mér virðist, að hv. frsm. vildi álíta, að ég væri að véfengja að ástæðulausu, þá vildi ég segja það, að þegar ég var á nefndarfundi með samgmn. og vegamálastjóra, þá var hann ekki farinn að athuga, hvað t. d. beygjan við Kópavog mundi kosta og að setja þar nýja brú. Vegamálastjórinn sagði hreint og beint á fundi n., er hann kom á, að hann hefði ekki athugað þetta. En svo slettir hann á 20 þús. kr. fyrir þessu. Ég hefi borið þá áætlun undir verkfræðing, sem að vísu hefir ekki praktíska reynslu á við vegamálastjóra, en hefir ágætt próf. Hann segir, að þetta hljóti að kosta a. m. k. þrefalt meira en vegamálastjóri áætlar. Það lítur því svo út, sem vegamálastjóri vilji gera sem allra minnst úr því, sem lagfæring á gamla veginum kostar.

Hv. frsm. sagði, að þetta væri of dýr ræktunarvegur. Það má nú segja það. En eins og ég sýndi fram á í samanburði mínum og ekki hefir verið mótmælt, þá fengist þessi nýja leið fyrir 100 þús. kr., í stað þess að vegamálastjóri áætlar hana 318 þús. kr., en gamla veginn eftir að búið er að malbika hann áætlar hann 605 þús. kr., eða samtals báðir vegirnir 923 þús. kr. En nýi vegurinn álítur hann, að kosti 806 þús. kr. malbikaður. Sparast þá á annað hundrað þús. kr., ef við fáum þennan veg, og það þrátt fyrir hina lágu kostnaðaráætlun, sem vegamálastjóri gerir um endurbót gamla vegarins, þá sparast þó þetta með nýjum vegi. Um afleggjarana er það að segja, að það er betra að vera laus við þá, það er bæði kostnaður og óþægindi af að halda heim við, auk þess sem þeir eru til tafar. Þá var það með hallann. Hv. frsm. sagði að vísu, að bílarnir væru orðnir kraftmeiri nú en áður, en þótt svo sé, þá kostar það þó bæði aukið slit á vélinni og benzíneyðslu að fara upp brattar brekkur. Er því hagur að því, að vegarstæði sé sem hallaminnst. Þá má og geta þess, að bugður eru margar og slæmar. Einkum eru bugðurnar er upp á hálsana kemur hættulegar; þegar sólin glampar í augun á bílstjórunum, sjá þeir ekki hvað framundan er. Af því hafa hlotizt slys oft og mörgum sinnum. Þá sagði hv. frsm. loks, að ekki væri víst, þó að bifreiðaumferðin hefði aukizt um 100 bíla á dag á síðastl. tveimur árum, að hún heldi áfram að aukast. Ég vil í sambandi við það benda á, að þar sem umferðin hefir aukizt svo mjög á þessum árum, sem hafa þó verið kreppuár, þá eru líkur til, að hún muni aukast stórkostlega strax og kreppunni léttir. Ég er því viss um, að þess verður ekki langt að bíða, að umferðin fari upp í 600 bifreiðar á dag. Er þá komið upp í þá umferð, að ekki væri forsvaranlegt lengur að hafa þennan veg ómalbikaðan, og það að dómi vegamálastjóra. Þetta er afarfjölfarinn vegur, líklegast fjölfarnasti vegurinn á landinu. Að vísu eru víst engar tölur um akveginn austur yfir Heiði, ofan Rauðavatns. En þess ber að gæta, að til Hafnarfjarðar er umferðin hin sama allan ársins hring. Þótt komið geti fyrir, að snjóar teppi þennan veg í bili, þá er það ekki þolað lengi. Fólkið hér suður með sjónum þarf að hafa stöðugt samband við Reykjavík. Það kemur því ekki fyrir til lengdar, að leiðin sé lokuð meira en tvisvar á vetri 2–3 daga í einu. Það er því víst, að enginn annar vegur er jafnfjölfarinn hér á landi, nema þá vegarspottinn héðan úr bænum og inn í Sogið. Og ef ástæða er til að leggja veg austur yfir Heiði, eins og nýlega var samþ. Hér og ég greiddi atkv. með, þá er ekki síður ástæða að taka þennan veg til athugunar.

Ég þarf svo ekki að segja mikið meira. Ég tel mig hafa gert fulla grein fyrir því, að þegar lítið er á það tvennt, hvort leggja skuli nýjan veg eða malbika gamla veginn, eins og vegamálastjóri vill gera, þá er það sparnaður, sem nemur á annað hundrað þús. kr. að leggja nýjan veg, og jafnvel meira. Og þá erum við líka lausir við afleggjara, einnig til Vífilsstaða, sem auka ríkinu útgjöld og fólkinu erfiði.