26.04.1932
Efri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (3026)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. þm. Hafnf. vill álíta, að verði nýr vegur lagður, þurfi enga afleggjara í framtíðinni. Mér skilst þó, að ef þarna kemur upp byggið meðfram veginum, verði ekki komizt hjá því að hafa afleggjara út frá aðalveginum og að þeim verði einnig að halda við. Þá er og annað. Ef halda verður við tveimur vegum þessa leið, þá er það ekki lítill kostnaðarauki. Á síðustu 14–15 árum hefir verið varið til viðhalds núverandi vegi milli Hafnarfj. og Rvíkur 150 þús. kr. Og þótt sá viðhaldskostnaður yrði eitthvað minni, er umferðin hyrfi að mestu á nýjan veg, þá yrði hann þó alltaf nokkur.

Ég verð að segja, að ég skildi ekkert í reikningsfærslu hv. þm. Hafnf. Hann virtist fá það út ú tölum sínum, að nýr vegur yrði ódýrari en endurbót á gamla veginum, enda þótt vegamálastjóri syni fram á það með glöggum tölum, að nýr vegur verði 1/4 millj. kr. dýrari. Það verður aðeins spásaga mín og annara, hve fljótt bílaumferðin muni aukast svo, að hún verði 500–600 bílar á dag. En þegar þar að kemur, að það er vitað, að hún hafi náð því, þá er tími til þess kominn að ráða við sig, hvort rétt sé að malbika þessa leið. En það er malbikunin, sem mest hleypir fram stofnkostnaðinum. Um þetta er óþarfi að deila nú. Þegar umferðin hefir aukizt svo, að réttmætt þyki að setja slitlag, þá verður það sjálfsagt gert. En þar sem hv. þm. var að benda á, að umferðin myndi vera minni nú, vegna yfirstandandi kreppu, þá veit ég ekki um, hversu rétt það er. Ég get ekki seð, að bílaumferð sé neitt minni hér í Reykjavík eða kringum Reykjavík heldur en áður hefir verið. Eftir upplýsingum hv. þm. Hafnf. lítur út fyrir, að bílferðir hafi aukizt nú á síðustu tímum, þótt erfiðir séu, án þess að ég sé þó viss um, að flutningaþörfin hafi aukizt nokkuð síðustu tvo árin. Hér er það líklega tízkan, sem nokkru veldur.

Annars læt ég útrætt um þetta mál. Ég hygg, að það sé svo upplýst orðið, að hv. þdm. geti vel áttað sig á því.