29.04.1932
Efri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (3036)

320. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Jón Jónsson):

Hv. 2. landsk. talaði um það, að með þessu frv. væri skapaður einhver réttur fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Ég sé ekki, að þetta frv. skapi nokkurn slíkan rétt. Rétturinn — ef rétt skyldi kalla —, sem það skapar, er eingöngu fyrir kauptúnin, en ekki sveitirnar, sem að þeim liggja. Hann talaði einnig um það, að ég væri á móti þessu máli vegna einhvers þorps í nágrenni mínu. Næsta þorp við mig er Blönduós, og það varð sérstakt sveitarfélag fyrir nokkrum árum. En hvað Hvammstanga viðvíkur, þá held ég, að þessi lög geti ekki náð til hans, enda hefi ég ekki orðið var þess, að íbúar þar óskuðu eftir þessari skiptingu. Ég held, að sveitirnar í kringum Hvammstanga séu nú ekki meira á móti henni en það, að ýmsir í þeim vilji meira að segja veita stuðning til hennar. Hv. þm. nefndi ekki nein kauptún, sem óskuðu, að þetta frv. yrði samið. Helzt var hann þó að ympra á Vopnafirði, en það liggur þó engin ósk fyrir um þetta (JBald: Ekki það ! !), og held eg, að það væri skaðlaust, þó það bíði þangað til óskir kæmu fram um það. Ekki hefir hv. þm. minnzt neitt á það, og hefði hann þó átt að gera það við 1. umr., ef það hefði verið. (JBald: það kom síðar). Ég held, að það sé heldur ekki rétt af smáum þorpum að vera að braska við að verða sérstök sveitarfélög, því það getur orðið alvarlegt, bæði fyrir þau sjálf og sveitirnar í kring. Mér er t. d. kunnugt um eitt þorp fyrir norðan, skammt frá mér, í hreppi þar sem eru fáir bæir, svo að bæði sveitarfélögin yrðu mjög vanmáttug, ef kauptúnið tæki sig til úr. Nei, ég held, að það sé a. m. k. rétt að lofa kauptúnunum að leita á, og mér finnst allt mæla með því að samþ. ekki þetta frv. að svo komnu.