28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (3045)

498. mál, tala starfsmanna við starfrækslugreinir og stofnanir ríkisins

Frsm. (Jón Þorláksson):

Í grg. þáltill. á þskj. 498 er vikið að því, að til þess að löggjafarvaldið hafi full tök á þeim útgjöldum ríkissjóðs og ríkisstofnana, sem felast í starfsmannalaunum, þurfi að ákveða laun þeirra í hverjum flokki eftir lagareglum og setja lagaákvæði um tölu þeirra innan hvers flokks. Þannig er þessu hagað í þeim löndum, þar sem ríkisstarfrækslan er orðin svo umsvifamikil, að ekki er á eins manns færi að sjá út yfir hana. Þessum reglum hefir þó ekki verið fylgt hér á landi til þessa. Árið 1919 var að vísu reynt að ákveða laun starfsmannaflokkanna. En síðan hefir bætzt við fjöldi starfsmanna við ýmsar starfrækslugreinir ríkissjóðs og ýmsar ríkisstofnanir, sem síðan hafa risið upp, og mestur hluti þessa starfsfólks er utan við launalögin 1919. Oft hefir verið rætt um endurskoðun launalaganna, en menn hafa þó jafnan kveinkað sér við henni, sökum þess hve peningagildi og verðlag hefir verið breytilegt síðan þau voru sett. Fyrsta endurskoðunin átti að réttu að fara fram 1924. Þess er þó að vænta, að þessi endurskoðun fari bráðlega fram, þar sem ýms ákvæði núgildandi launalaga eru framlengd aðeins frá ári til árs. Slíkt er sterk sönnun þess, að endurskoðunar er þörf.

till., sem hér liggur fyrir, víkur ekki að flokkun í launaflokka. Hún tekur upp hinn þáttinn, að með lögum verði á ári hverju ákveðin tala starfsmanna við hverja starfsgrein ríkissjóðs og hverja ríkisstofnun og í hverjum launaflokki. Það er eðlilegt, að slíkt hafi ekki þótt nauðsynlegt, er síðustu launalög voru samin, því að þá var starfslið ríkisins svo fámennt, að fjármálastj. og fjvn. Alþingis gátu vel haft yfirlit yfir það. En nú er þetta starfslið orðið svo fjölmennt og margþætt innan ýmsra stofnana, sem eru meira og minna lausar við löggjafarvaldið að því er snertir starfrækslu, launakjör og ráðningar, að ég tel nauðsynlegt, að þetta sé að fullu og öllu dregið undir áhrif og afskipti Alþingis með því að búa til á ári hverju lög um tölu starfsmanna við hverja stofnun. Ég tel sjálfsagt að ganga þegar til þessa starfa og að fyrir þetta þing komi frv. um tölu starfsmanna árið 1933 í samræmi við fjárlfrv. 1933. Meðnm. mínir hafa viðurkennt þörfina á þessu, en hafa ekki talið þessu liggja svo á, að stj. þyrfti að undirbúa slíkt frv. fyrir 1933, heldur yrði slíkt gert fyrst fyrir árið 1934 og svo framvegis jafnframt fjárlfrv.

Mér hefir nú heyrzt bæði á stj. og öðrum, að alvarlegir krepputímar standi yfir og að því sé þörf sérstakra aðgerða. En fyrst svo er, get ég ekki séð, að eftirlit á fjármálasviðinu, sem hvarvetna annarsstaðar þyki nauðsynlegt á venjulegum tímum, eigi að bíða hér á landi þangað til von er um, að kreppan sé að mestu yfirstaðin. Ég álít, að þörfin á slíku eftirliti sé aldrei meiri en á slíkum tímum sem nú eru, og skora því á stj. að semja nú þegar frv. um tölu starfsmanna ríkisins.

Samning þessa frv. er hvorki mikið verk né vandasamt. Stj. skrifar forstjórum ríkisstofnananna og biður þá um till. um tölu starfsmanna og flokkun eftir launakjörum. Svo raðar ríkisstj. þessu niður, breytir til, ef henni þykir þurfa, og fellir e. t. v. eitthvað niður. Síðan á þingið að dæma um, hvort hægt sé einhversstaðar að þrengja að og fækka starfsfólki. Það er eðlileg tilhneiging forstjóranna að vilja hafa sem ríflegastan vinnukraft, og því hlýtur það að verða hlutverk þings og stj. að sjá um, að sá vinnukraftur verði ekki ríflegri en þörf er á.

Þetta er allt, sem gera þarf til undirbúnings slíku frv., og af því er ljóst, að ekkert er því til fyrirstöðu, að hægt sé að leggja slíkt frv. fyrir það þing, sem nú stendur yfir.

Hin síðustu árin hefir mismunurinn á útgjöldum ríkisstj. eftir LR og fjárl. verið meiri en dæmi eru til áður. Þessi löggjöf á að fyrirbyggja, að umframeyðsla geti orðið á starfsmannahaldi. Þegar búið er með lögum að ákveða fyrir hvert fjárhagsár, hve margir starfsmenn skuli vera við hverja ríkisstofnun, þá er það bindandi bæði fyrir ríkisstj. og forstjóra stofnananna, og frá því verður ekki vikið nema í brýnustu nauðsyn, og þá upp á væntanlega aukafjárveitingu. En nú er ekkert slíkt aðhald til, annað en fjárveitingarupphæðin í fjárl. að því er snertir sumar stofnanir ríkissjóðs sjálfs, en ýmsar aðrar stofnanir eru alls ekki bundnar við fjárveitingu í fjárl.

Ég tel, að þær ráðstafanir, sem í þessari till. felast, geti orðið að fjárhagsatriði árið 1933, vegna þess aðhalds gegn umframeyðslu á starfsmannalaunum, sem í þeim felst. Ég verð því að vænta þess, að hv. deild samþ. till. mína eins og hún liggur fyrir. Þótt meiri hl. n. hafi ekki viljað flytja þetta mál með mér, get ég þó vottað honum þakklæti mitt fyrir það, að hann hefir á þskj. 530 viðurkennt réttmæti till. minnar. Munurinn er aðeins sá, að meiri hl. er ekki eins bráðlátur og ég um þessar endurbætur og vill, að breyt. þessar verði fyrst á árinu 1934.