28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3046)

498. mál, tala starfsmanna við starfrækslugreinir og stofnanir ríkisins

Jón Jónsson:

Eins og hv. flm. sagði, hefir ríkisgjaldanefnd ekki getað orðið honum alveg samferða í þessu máli. Tilgangur flm. er sá, að skapa þinginu betra yfirlit yfir ýmsa opinbera starfrækslu en verið hefir, og jafnframt betra eftirlit. En nú þegar hafa fjvn. og ríkisgjaldanefnd aðgang að öllum skýrslum um opinbera starfrækslu. En til þess að gagn verði að þessu, lítur meiri hl. n. svo á, að þörf sé nokkurs undirbúnings. Ríkisstj. þarf að gera sér ljósa starfsmannaþörf fyrirtækjanna og gera ýtarlega gangskör að því að samræma launakjör hliðstæðra starfsmanna. Ég hefi ekki trú á, að þann undirbúning sé hægt að framkvæma, svo lið verði að, mitt í þingönnum. Því ég sé ekki, að neitt gagn sé í því að færa skrár þær um starfsmannahald ríkisstofnana, sem fyrir þinginu liggja, í frumvarpsform og samþ. óbreyttar. Gagnið kemur fyrst þegar þær eru athugaðar og endurskoðaðar og þeir starfsmenn felldir niður, sem unnt er að komast af án. Því berum við fram brtt. við orðalag till. Árangurinn gæti samt komið fram á þessu ári. Það á að vinna að málinu á þessu ári og framkvæma árangurinn strax og unnt er, og það getur þegar orðið á næsta ári.

Að öðru leyti vil ég vísa til hæstv. stj. um þetta mál, því hún hefir að sjálfsögðu bezt tækifæri til að, gera sér það ljóst.