03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (3047)

583. mál, laun embættismanna

Flm. (Magnús Torfason):

Ég þarf nú ekki annað en vísa til þeirrar grg., sem fylgir frv., þó stutt sé. Þar er í fáum orðum eiginlega tekið allt það fram, sem styður það, að slík till. sem þessi er komin fram. Það er alveg víst, að við eigum mjög erfitt með að komast yfir kreppuna, og ég fyrir mitt leyti er þeirrar trúar, að hagur ríkissjóðs sé ekki betri eða efnilegri en svo, að það geti að því rekið, að ríkinu veitist erfitt að greiða sín skyldugjöld, ef ekki er neitt verulegt að gert. Og þá er það trúa mín, að það sé hentugra öllum aðilum að lækka launin nú strax en að láta stórkostlega lækkun ellegar stöðvun borgana á launum til embættismanna bera að allt í einu. Nú er það að vísu svo, að það , sem hér er gert, er ekki nema lítil bót og nær skammt, en því er þannig varið, að ef gera á þá ráðstöfun almennt, að laun allra landsins þjóna verði eitthvað rýrð, þá væri það svo mikið verk, að mér er óhætt að segja, að það er ekki hægt að gera það svo að í lagi sé, nema eftir mjög mikinn undirbúning, sem stj. ein hefir tök á að láta fara fram, og að minnsta kosti er það ofvaxið öllum þm. að inna slíkt af hendi með öllum öðrum störfum, sem þeir hafa að gegna.

Önnur sérstök ástæða er þó til þess, að þetta frv. er komið fram. Við vitum, að það hefir verið hugsað, að lækka laun allra þeirra manna, sem ekki taka laun eftir sérstökum launalögum, um allríflega upphæð, og verða þá eftir aðallega þeir menn, sem laun taka samkv. launalögunum. Þá er og á það að líta, að þeir menn, sem eru í opinberri þjónustu, hafa alveg sérstaka skyldu til að láta sér annara um þjóðarhaginn en menn almennt; þeir hafa það samkvæmt sinni stöðu sem þjónar þjóðarinnar og landsbúskaparins, og hafa það líka vegna sinna eigin hagsmuna, eins og ég drap á áðan.

Það, sem hér er fram komið, er líka í samræmi við það, sem gerzt hefir í öðrum löndum, sem kreppan hefir komið við líkt og hér. Þá er öllum kunnugt, að háir sem lágir hafa í öðrum löndum boðizt til að færa niður laun sín, og það ráð hefir verið tekið hjá ýmsum ríkjum og merkum þjóðum að lækka laun þjóðarþjónanna og spara þau laun, sem þeir og aðrir fá af almannafé. Og það er ekki nema gott til þess að vita. Og þetta er svo almennt í öðrum löndum, að það verður að líta svo á, að það sé með fullu ráði gert og af fullri nauðsyn. Þess vegna er það ekki ósennilegt, að slíkt og annað eins sé borið fram hér á þingi.

En þó það yrði ekki verulega stór fjárhæð, sem um væri að ræða, að gæti sparazt með þessu, þó mundi það verða svo, að næði slíkt frv. fram að ganga sem þetta, þá mundi það hafa víðtæk áhrif, það mundi verka sem nokkurskonar fyrirdæmi, þannig, að fleiri mundu á eftir fara, bæði sveitarstjórnir og einstakir menn, sem þjónum hafa að launa, og þjónarnir mundu betur geta sætt sig við lækkun, en þetta allt mundi draga þjóðarbúið nokkuð.

Ég vil nú ekki á þessum tímum þreyta menn með langri tölu um þetta mál, en vænti þess, að málinu verði vísað til n., sérstaklega til að athuga tölurnar, sem nefndar eru í þessu frv. Þar er gerður munur á því, hvort menn hafa menn á skylduframfæri eða ekki, en hinsvegar ætla ég mér ekki þá dul að hafa hitt á að setja þær einu réttu tölur í frv., og það verður líka alltaf álitamál.

Ég vil svo enda þessi orð með þeirri ósk, að frv. fái að ganga til 2. umr. og að því verði vísað til allshn.