28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3058)

498. mál, tala starfsmanna við starfrækslugreinir og stofnanir ríkisins

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og ég hefi áður látið í ljós, er ég samþykkur till. þessari efnislega. Það hefir jafnan viðgengizt, og það um lengra skeið en hv. flm. vildi gefa í skyn, að ýmsir starfsmenn ríkisins væru utan launalaga. En auðvitað hefir mest borið á því undanfarin ár, eftir því sem stofnunum ríkisins hefir fjölgað. En ólögbundin laun hafa margir starfsmenn ríkisins tekið um mjög langt skeið. Þegar þessi flokkur manna er orðinn eins fjölmennur og nú er, þá er ástæða til að athuga það, hvort rétt sé, að Alþingi framselji stj. rétt sinn til að ráða launum og kjörum þessara starfsmanna. Og ég er sammála hv. flm. um það, að rétt er, að Alþ. varpi ekki frá sér öllum afskiptum.

Það er að vísu einfaldur hlutur að gera skrá um starfsmenn þá, sem ríkið nú hefir, og leggja þannig fyrir þingið. En starfsmannaskrá ríkisins er að vissu leyti þegar búið að leggja fyrir Alþingi, því allt felst það í fjárlagafrv. Stj. er um allt starfsmannahald bundin við fjárl., nema þar sem knýjandi nauðsyn er að breyta út af. Þótt sérstök lög væru sett um þetta efni, þá verður samt aldrei alveg komizt hjá að breyta út af þeim, en þau geta þó veitt stj. aðhald og eru í góðu samræmi við það ákvæði stjskr., að fjárveitingarvaldið skuli vera hjá Alþingi.

En ég geri ráð fyrir því, að þótt nú yrði tekið saman frv. um þetta efni á fáum dögum, þá mundu ekki verða fyrir það teljandi breyt. á starfsmannahaldi ríkisins frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það mun heldur varla vera nú fyrir hendi sú rannsókn, sem er nauðsynlegur grundvöllur undir slíkt starf, sérstaklega þegar þess er gætt, að búast má við, að þurfi að ganga á móti till. forstöðumanna stofnananna. En það er eðlilegt starf ríkisgjaldanefndar að athuga, hvort kröfur forstöðumannanna um mannahald eru réttmætar. Það tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma, ef það á að fá góða afgreiðslu.

Það verður höfuðgalli slíkrar starfsmannaskrár, að hana verður að undirbúa fullu ári áður en þau fjárlög ganga í gildi, sem hún fylgir, og er því hæpið, að hún verði talin jafnbindandi eins og ef hún væri undirbúin rétt áður. Skýrslurnar um starfsmannahald stofnananna eru gefnar 14 mánuðum áður en fjárl. eiga að koma til framkvæmda. Ég hefi áður bent á nauðsyn þess, að fjárlög komi til framkvæmda þegar eftir að þau eru samþ. Það má gera annaðhvort með því að breyta fjárhagsárinu eða með því að færa þingið á annan tíma árs. En þessi ráðstöfun, sem ætti að gera við hina næstu stjskrbreyt., er höfuðatriði í þessu efni. Þá fyrst getur þingið rækilega bundið stj., þá fyrst verða þær kröfur gerðar til stj., að hún sjái nokkurnveginn fyrir, hvað framundan er.

Þótt till. hv. minni hl. verði samþ. hér og starfsmannaskrá verði látin fylgja fjárl. fyrir árið 1933, þá væri það litlu betra en að leggja starfsmannaskrána fyrir næsta þing og láta hana gilda fyrir síðari hluta ársins 1933. Báðir hlutar n. byggja á því, að starfsmannaskrá sé samin árlega og látin fylgja fjárlagafrv., en hitt er vel mögulegt, að sú fyrsta, sem samin er, sé látin gilda fyrir hálft annað ár.

En þótt nú þegar yrði gerð slík skrá, þá býst ég við, að meðferðin yrði ekki í verulegum atriðum önnur en þegar er orðin hjá fjárveitinganefndum. Ég býst ekki við, að sparnaður yrði umfram það, sem koma má við í fjárl. Því hallast ég að till. meiri hl. n. Þessi ágreiningur er ekki stór, og ég vil færa báðum hlutum n. þakkir fyrir till., sem ætti að verða til bóta og til þess að binda fjárveitingarvald þingsins fastar en verið hefir.