09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Jón Ólafsson:

Þá lítur út fyrir, að þessu máli ætli nú sem fyrr að fylgja sömu heilindi frá flm. hendi sem áður hafa einkennt allt þeirra háttalag um flutning málsins. Hv. þdm. vita ofurvel, að ég hefi alltaf verið á móti málinu, og býst við að verða það enn. Þó er því talið bezt borgið í þeirri n., sem ég á sæti í. Ég hefi því beinlínis ástæðu til að vita slíkan leikaraskap og þá hv. þm., sem eru að flissa og hlæja að málinu, en flytja það þó. Annars á mál þetta samkv. eðli sínu að vera í menntmn. Um það er óþarfi að vera að deila. En ég vil vekja athygli hv. flm. á því, að það er vitavert, að þm. geri leik að því að flytja frv., ef þeir meina ekkert með því, þar sem það kostar ríkissjóð ærið fé að vera þing eftir þing að láta prenta það upp. Ég vil því skora á þá og aðra hv. þdm. að láta málið ganga til þeirrar n., sem það á að vera í samkv. þingvenju, svo að það á sínum tíma fái þá afgreiðslu, sem meiri hluti Alþingis vill skapa því á þinglegan hátt.