28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

498. mál, tala starfsmanna við starfrækslugreinir og stofnanir ríkisins

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í ræðu hv. 2. landsk., því að hún snerti að mjög litlu leyti það efni, sem hér liggur fyrir, en ég verð þó að bera það af mér, að ég hafi borið samnm. mína í ríkisgjaldan. ámælum. Ég sagði aðeins, að þeir væru önnum hlaðnir, og hefir það venjulega ekki verið talið til ámælis, enda ber það fremur vitni um það, að þeir þyki af einhverjum nýtir til starfa, þar sem starfskraftar þeirra eru svo mikið notaðir. Hafi ég því ámælt einhverjum, hefir það helzt verið sjálfum mér, því að ég sagði, að sjálfur hefði ég lítið að gera.

Þá er það aðeins annað atriði, sem ég verð að drepa á. Hv. 2. landsk. lét nefnilega svo um mælt, að svo væri ráð fyrir gert, að ríkisgjaldan. starfaði áfram milli þinga. Vil ég taka það fram, að ekki er svo ráð fyrir gert af mér; en hitt veit ég ekki, hvað aðrir hafa hugsað sér í þessu efni.