26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (3083)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Haraldur Guðmundsson:

Ég er einn af flm. þessa frv., sem mörgum hv. þdm. virðist svo mjög ægilegt. Mér finnst, að hv. þdm. hafi séð framan í ægilegri frv. án þess að blikna eða blána, svo að ég get ekki skilið þá skelfingu, sem nú hefir gripið þessa hv. þdm.

Ég ætla hvorki að ræða hér um kartöflur né afhjúpun minnisvarða, heldur vil ég aðeins gera grein fyrir því, að ég hefi sérstöðu gagnvart þessu frv., og skýra með fáum orðum, hver sú sérstæða er. Ég hefi skýrt höfundi frv. og meðflm. mínum frá því, að mitt fylgi við frv. sé bundið við það, að á því verði gerðar nokkrar breyt. Ég tel það fyllilega rétt og sjálfsagt, að sýslu- og bæjarfélög hafi rétt til að ákveða námsskyldu unglinga í eitt eða tvö ár einhverntíma á aldrinum 14–19 ára. Jafnframt þessu vil ég, að það fyrirkomulag sé tekið upp, að nemendunum sé gefinn kostur á því að vinna af sér kostnað við skólavistina með því að vinna einhver störf í þágu síns sýslu- eða bæjarfélags.

Mönnum kann að finnast, að það sé krókaleið, að bera þetta frv. fram til að koma þessu í kring. En mér þykir ekki líklegt, að það mundi fá góðar viðtökur hér í d. að lögtaka 2 ára skólaskyldu fyrir unglinga að loknu barnaskólanámi, og því hefi ég fallizt á, að þessi leið yrði farin, að sýslu- og bæjarfélögum sé veittur réttur til að fyrirskipa slíkt nám og um leið að gera nemendum léttara fyrir með því að gefa þeim kost á að vinna hann kostnað af sér, sem þessu námi er samfara.

Ég hygg, að ekki þurfi að hafa mörg orð um það, hver nauðsyn það er að vanda uppeldi barna og unglinga, og öllum, sem eitthvað þekkja til kennslustarfa, er það kunnugt, að hversu þýðingarmikil sem kennslan er fyrir börn 14 ára og yngri, þá ber hún þó jafnvel ennþá meiri árangur á aldrinum 14–18 ára. Þetta er ástæðan til þess, að ég hefi gerzt meðflm. þessa frv. Ef frv. fær að ganga lengra, sem ég geri ráð fyrir, þá mun ég flytja brtt. við það við 3. umr. Brtt. n. tel ég vera fremur til bóta og mun ég því greiða þeim atkv. Ég skal ennfremur geta þess, að ef ekki væri unnt að bjarga málinu með öðru móti en að samþ. brtt. hv. þm. Borgf., þá gæti svo farið, að ég greiddi þeim atkv. Þar er um byrjunarviðleitni að ræða, og ef hún tækist vel, þá væri líklegt, að önnur sýslu- og bæjarfélög kæmu þar á eftir.