26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (3085)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

3085Pétur Ottesen:

Hv. frsm. meiri hl. þurfti ekki að koma það mjög undarlega fyrir sjónir, þó að allmikill gustur blési gegn þessu frv. Hér í þd., því að hann fór sjálfur þannig af stað í framsöguræðu sinni, án þess að nokkur ástæða væri til þess; annars hefði enginn gustur orðið í ræðum annara þdm.Hv. þm. þótti það ekki bera vott um mikla einlægni hjá mér í þessu máli, að ég vil með brtt. mínum einskorða þetta skólafyrirkomulag við Rangárvallaýslu. En ég hefi áður gert grein fyrir því og bent hv. þm. á, að hvergi annarsstaðar hafa komið fram óskir um þetta og engir orðið jafnsnortnir af þessari hugmynd og Rangvellingar, sem búnir eru að ræða um hana í mörg ár í sýslunefndinni, nema ef vera skyldi kvenfélagasamband Rangvellinga. Það er svo fráleitt, að nokkrir aðrir hafi kvakað til Alþingis um þetta mál. Ég held, að þó að hv. þm. tali mikið um, að þess séu engin dæmi, að slík l. sem þessi séu sett fyrir eitt sýslufélag, þá megi einnig benda honum á, að þess séu engin dæmi, að mál, sem eru lík þessu, hafi borið að þinginu á sama hátt og þetta. En þá virðist réttast að afgr. málið einmitt þannig, að hlutaðeigandi héraði verð einu veitt sú heimild, sem það óskar eftir. Mér heyrist, að hv. frsm. sé fremur vantrúaður á réttmæti þessa máls og á það, að sýslungar hans taki upp þessa hugmynd og íklæði hana holdi og blóði veruleikans. En ég geri nú samt ráð fyrir, að þeir vilji reyna þetta og þyki sú reynsla vera öðrum holl til eftirbreytni. Þá geri ég og ráð fyrir því, að Alþingi standi ekki í vegi fyrir því, að þetta skipulag verði fært út á víðara svið og til annara héraða, enda verður þá betur hægt um málið að dæma, þegar nokkur reynsla væri fengin. Og þá væri fyrst hægt að segja með sanni, að Borgfirðingum sé bannað að taka upp þetta skipulag, þegar Alþingi synjar þeim um að uppfylla slíkar óskir frá þeirra hendi, er þær koma fram, en fyrr ekki. Og þær óskir liggja ekki fyrir nú. Hv. frsm. var eitthvað að tala um, að ég hefði ekki verið heils hugar í héraðsskólamálum Borgfirðinga. Þegar það mál kom fyrir sýslun. Borgarfjarðarsýslu, bar það fyrst undir mig, og þar stóð ég að því ásamt öðrum sýslunefndarmönnum, að sýslan veitti fé til skólans. Þessar dylgjur hv. þm. eru því alveg úr lausu lofti gripnar, og ef hann vill í alvöru halda því fram, að ég hafi verið óheill í skóla máli míns héraðs, þá getur það ekki verið sprottið af öðru en því, að hann finnur bezt til óheilindanna hjá sjálfum sér í þessu máli, sem hér liggur fyrir. Og sannast þá hér eins og oftar hið fornkveðna: „Margur heldur mann af sér“.