26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (3087)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Ingólfur Bjarnarson:

Hv. frsm., 2. þm. Rang., vildi bera brigður á, að það væri rétt, sem ég sagði, að flm. þessa máls hefðu lítið gert til að skýra það bæði fyrr og síðar, þegar það hefir legið hér fyrir þinginu. Færði hann það fram máli sínu til sönnunar, að allmikið hefði verið rætt um það á þinginu 1930. Ég sé nú við nánari athugun, að það var ekki algerlega rétt, sem ég sagði, að málið hefði aldrei komizt lengra en til n., því að á þinginu 1930 komst það til 2. umr., en þeirri umr. var þó aldrei lokið. Það er annars dálítið fróðlegt að rifja það upp, með hvaða kappi og áhuga unnið var að framgangi þessa frv. á því þingi. því var fyrst útbýtt á áliðnu þingi og var tekið á dagskrá í fyrsta sinn 7. apríl, en þá var það þó tekið út af dagskrá. 9. apríl kom það svo aftur á dagskrá og var þá vísað til 2. umr. og n., án þess að nokkur tæki til máls. Man ég þó glöggt eftir því, að nokkurt umtal varð um það í d. og að óskað var eftir, að flm. tækju til máls um það, en þeir vildu fyrir hvern mun koma því umræðulaust til nefndar, sem og varð fyrir atbeina hæstv. forseta. Málið kemur svo til 2. umr. 15. apríl. Þá eru flm. þess heldur ekkert sérlega fúsir til að ræða það. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð upp úr ræðu þáv. þm. Dal.,

Sigurðar Eggerz, sem sannar þetta. Hann byrjar ræðu sína svo:

„Satt að segja finnst mér nál. ótrúlega stutt um þetta stóra mál og heldur lítill ákafi í hv. frsm. minni hl., að hann skuli ekki einu sinni biðja um orðið, þegar er þó verið að brjóta upp á nýrri meginreglu í fræðslumálum vorum“.

Þetta bendir til, að flm. hafi ekki verið fúsir til að ræða frv. Þessi brýning þáv. hv. þm. Dal. virðist þó verða til þess, að þáv. hv. 1. þm. Rang., Einar Jónsson, tekur til máls, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp nokkur orð af því, er hann segir. Hann byrjar ræðu sína svo:

„Eftir að ég hefi lesið nál. þeirra merku manna, sem skipa menntmn. þessarar hv. d., virðist mér þetta merkilega mál vera álíka vel statt hér á hv. Alþingi eins og heima í Rangárvallasýslu. Þótt 7 merkir þm. — eða 6, svo að ég ekki telji sjálfan mig með — flytji nú þetta frv. fyrir hinn mæta sýslumann okkar Rangæinga, þá er ég hræddur um, að því fylgi ekki mikil alvara frá þeirra hálfu. Og af því ég er hreinskilinn maður, verð ég, þótt mér þyki það sárt, að segja það sama um alvöru Rangæinga sjálfra yfirleitt í þessu máli“.

Mér finnst gott að láta þessi orð þáv. þm. Rang. koma fram nú, þegar enn er verð að tala um þetta merkilega mál, þar sem honum mátti vera manna bezt kunnugt, hvaða hug flm. og héraðsbúar Rangárhéraðs báru þá til þessa máls. Þm. heldur svo áfram ræðu sinni í sama anda, og er óþarfi að lesa meira úr henni.

Hv. frsm. taldi það höfuðkost þessa frv., að það gerði ungmennafræðsluna sem almennasta. — Ég get nú ekki vel komið þessum tilgangi saman við það, sem stendur í frv., en þar er einungis gert ráð fyrir því, að þessir skólar séu fyrir pilta; kvenþjóðinni er alls ekki ætlað að vera þar með. Hv. frsm. fann víst ekki ástæðu til að gera grein fyrir því, hvers vegna á að meina konum að ganga í þessa skóla, því að hann minntist ekki á það með einu orði. Ég hefi að vísu heyrt einhverja segja, að konur mundu geta fengið upptöku í þessa skóla. En ég get ekki séð, að það samrímist ákvæðum frv. Og þótt þetta væri eitthvað óljóst eftir því, þá tekur það þó af öll tvímæli, að þeir 3 menn, sem að þessu frv. standa utan þings, hafa árið 1926 gefið út pésa, þar sem þetta er skýrt tekið fram, hvað konurnar snertir. Þar stendur svo — með leyfi hæstv. forseta:

„Annars geta verkefnin verið margvísleg og ótæmandi í jafnstrjálbyggðu og lítt ræktuðu landi og móðurjörð vor er, bæði fyrir karla og konur, en í bili ætti að duga að „realisera“ fyrirkomulagið fyrir karlkynið“. — hér er það skýrt fram tekið, að konum er ekki ætluð þátttaka í þessum skólum. Og þá er það heldur ekki í frv., því að með því eru hv. flm. þess að „realisera“ þá hugmynd, sem hér er svo fagurlega lýst.

Ég verð að skoða þennan pésa sem biblíu hv. flm. Það, sem kann að vera óljóst orðað í frv., má alltaf skýra með því, sem í pésanum stendur. — Í þessari „biblíu“ stendur meðal annars þetta:

„Oss minnir, að vér höfum lesið eða heyrt, að Englendingar hafi á stríðsárunum lögleitt skólaskyldu til 18 ára aldurs fyrir alla unglinga. Vér værum þá með nokkuð stóru stökki, frá 14–18 ára, með sérstöku fyrirkomulagi eftir okkar ástæðum, að fara eins og í humáttina á eftir stærsta veldi heimsins í þessum efnum. Mætti segja: „Ekki er leiðum að líkjast“. Þó öfundum vér ekki Englendinga af skólaskyldunni. Skylduvinna með skólaréttindum er mikið annars eðlis“.

Þetta varpar ljósi yfir það, hvaðan þessi hugmynd er runnin. Það er sem sé verið að fara í humáttina á eftir Englendingum, og þó er nú reyndar gefið í skyn, að hér sé verið að taka stökk fram fyrir þá.

Hv. frsm. taldi það kost við þetta frv., að með því væri verið að færa starfrækslu skólamálanna út á víðara svið, en mér finnst þetta frv. ganga í þveröfuga átt, eins og ég hefi lyst. Það leggur þyngstu byrðarnar á ungmennin sjálf, sem yfirleitt eru fátæklingar og eiga fæst kost á göngu í æðri skóla. Það getur því ekki talizt heppileg braut að láta kostnaðinn lenda að mestu á nemendunum, og er það gagnstætt því, sem núgildandi l. um ungmennafræðslu ákveða. En um þetta finnst líka í „biblíunni“. Þar er talað um ókosti núverandi skólafyrirkomulags og segir þar svo:

„Eru þrír höfuðókostir skóla þessara. Sá er fyrstur, að kostnaður við rekstur þeirra leggst aðallega eða að mestu leyti á herðar þeirra, er aldrei verða skólans aðnjótandi, og hinn, að skólar þessir eru þess eigi megnugir eða ekki sniðnir til þess að vera framhald af barnafræðslunni, þannig, að þeir nái til allra, og í þriðja lagi af því að námstíminn er e. t.v. of langur og kennslan eingöngu bókleg“.

Og síðar segir svo:

„Þessi hugmynd vor byggist á því, að þegar um reglulega lýðmenntun (menntun fjöldans) er að ræða, en ekki menntun eða undirbúningsmenntun opinberra starfsmanna þjóðfélagsins, þá sé mest réttlæti í því fólgið, að hver sú kynslóð, er sjálf verður persónulega aðnjótandi þeirrar fræðslu, sem hér er stefnt að og mætti heita hin æðri lýðmenntun, í mótsetningu við barnafræðsluna —, bæri sjálf að mestu kostnaðinn, sem þessi fræðsla hefir í för með sér, þegar hún er þess megnug“.

Ég vil benda á það, að þar sem talað er um „kynslóð“ í þessum pésa, þá er það skólafólkið, sem átt er við. — Ennfremur segir þar:

„Hitt virðist miklu fremur eiga skylt við þjóðnýtingu og jafnaðarmennsku, þegar öll kostnaðarbyrðin við unglingafræðsluna er lögð á herðar eldri kynlóðarinnar“.

Af þessu kemur það glögglega fram, að höfuðtilgangurinn er sá, að eldri mennirnir þurfi ekki að leggja á sig gjöld vegna menntunar ungmennanna. Þann kostnað á að leggja á herðar ungmennanna sjálfra eða nánar sagt þeirra pilta, sem eru á skólaskyldualdri.

Ég hefi ekki getað sannfærzt um ágæti þessa frv. af ræðu hv. frsm. Vænti ég því, að dagskrártill. mín nái þeim vinsældum, að hún verði samþ.