26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (3089)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Svo rík áherzla hefir verið á það lögð af sumum ræðumönnum að koma fram þessu máli, að ég get ekki á mér setið að koma hv. þm. S.-Þ. til aðstoðar.

Ef ætla mætti, að hugur fylgdi máli um að fá frv. samþ., þá mætti kannske skoða huga sinn um það, hvort ekki væri vert að samþ. það. En ég hefi hingað til ekki orðið var við nema einn mann, sem einhuga hefir barizt fyrir frv., en hann er líka einbeittur. En ég hefi heldur ekki orðið var við neinn annan, ekki einu sinni í Rangárþingi. Ég man eftir því eitt sinn, það mun hafa verið á þinginu 1930, að málið kom fyrir menntmn., þar sem ég átti sæti. Ætluðum við þá að svæfa málið í n. En flm. þess vildu fyrir hvern mun fá það afgr. úr n., svo að þeir gætu sýnt það og sannað við 2. umr., að þeir væru á móti málinu. Það má vera, að flm. málsins nú séu sannfærðir um ágæti þess. En það er þá a. m. k. mjög óheppilegt, að slíkir flm. hafa ekki fengizt fyrr, því að nú má segja, að þetta mál sé orðið of seint á ferðinni, ef því er ætlað að koma til framkvæmda. Nú er búið að byggja þá unglingaskóla í sveitum, sem nægja munu í bráð eða verður lokið á þessu ári. Er ekki annað sýnilegt en að skólarnir muni nægja þeirri eftirspurn, sem hægt er að gera ráð fyrir hin næstu ár. Það svæði, sem hinum nýja skóla er ætlað að starfa á, heyrir undir Laugarvatnsskólann, sem er stærsti héraðsskóli landsins. Get ég ekki séð, að ríkið geti styrkt fleiri skóla á Suðurlandsundirlendi, meðan Laugarvatnsskólinn er nógu stór. (SvbH: Er Laugarvatnsskólinn nógu stór nú?). Þar hefir engum verið vísað frá, og allra sízt Rangæingum. — Þar við bætist, að Rangárvallasýsla er of lítil sem sérstakt skólahérað. Ég get hugsað mér, að ef allir sæktu skólann, sem á skólaaldri eru, þá gætu það orðið um 30 manns árlega. Er þá gert ráð fyrir því, að enginn flýði héraðið, þegar lagðar eru nýjar og sérstakar kvaðir á héraðsbúa vegna skólans. Unglingaskólahéruðin þurfa að vera stærri. Skólavistin verður við það þróttmeiri og fjölþættari — og m. a. notast kennslukraftarnir betur. Fyrir utan þetta, þá verður að telja það stóran ókost frv., að alveg er gengið framhjá menntun kvenþjóðarinnar.

Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að slíkir skólar verða aldrei bornir uppi af vinnu nemendanna. Nemendurnir eiga yfirleitt fullt í fangi með að vinna fyrir sér og sínum, að því leyti, sem þeir kunna að veita stuðning fátækum foreldrum án þess að öllum skólakostnaði sé hlaðið á þá í viðbót. Ég hefi enga trú á því, að hægt sé að auka þeirra útgjöld. Mér virðist þær 60 kr:, sem nú verður að greiða sem skólagjald, næg upphæð fyrir nemendur að greiða í viðbót við allan annan kostnað, sem af skólagöngunni leiðir og nemendur við þessa skóla, sem hér um ræðir, væru heldur ekki lausir við. Ég geri því ekki ráð fyrir, að ungu piltarnir yrðu ginkeyptir fyrir því að sækja skóla, sem legðu slíka fyrirvinnuskyldu á herðar þeim. Og ég er viss um, að ef farið yrði af stað með slíkan skóla, þá kæmi hann á ríkið að öllu leyti eftir fáein ár. Héraðið mundi gefast upp við að halda skólanum áfram, bæði fyrir getuleysi og byrjandi þreytu frumherjanna. Ef svo skólinn þá þætti eiga nokkurn rétt á sér, mundi allur kostnaðurinn við starfræksluna fara yfir á ríkið.

Ní er það skipulag haft, að ríkið greiðir 200–300 kr. vegna hvers nemanda, sem sækir héraðsskólana. Fyrir héruðin er ekki hægt að hugsa sér ódýrara fyrirkomulag. — Þá er og það að athuga, að ef ríkið hefir peningaráð á næstu árum, þá er nóg annað við féð að gera, þar sem óbyggðir eru enn gagnfræðaskólar kaupstaðanna. Og þar sem enn er heldur ekki víst. hver einlægni fylgir þessu máli, þótt forgöngumaður þess hafi sýnt mikinn dugnað, sem betur væri kominn annarsstaðar, þá verið ég að fylgja dagskrártill. hv. þm. S.-Þ. og vænti þess, að hún fái samþykki hv. d.