26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (3091)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Ingólfur Bjarnarson:

Hv. þm. Mýr. lét svo um mælt, að hann hefði skilið þetta frv. svo, að þar mundi vera um það að ræða, að unga fólkið gæti fengið kennslu í verklegum efnum samhliða bóklegum. Hann virtist nefnilega ekki alveg viss í því, hvað meint er með þessu frv., sem hann er 1. flm. að, en hann kvaðst halda, að þannig ætti nú að skilja það. Ég vil nú benda á, að sé það meiningin með þessari skylduvinnu að veita unglingunum kennslu í verklegum efnum, þá finnst mér mjög óheppilegt, að ekki skyldi vera hægt að láta þá hugsun koma fram í frv., því að þar er ekki talað nokkurn skapaðan hlut um kennslu í verklegum efnum; það er bara sagt, að allir ungir menn „skuli vinna kauplaust líkamleg störf í þágu síns sýslu- eða bæjarfélags“, þegar þeir eru 18 ára að aldri. Engin bending gefin um, að sú vinna skuli skipulagsbundin á nokkurn hatt, hvað þá meira. Það er yfirleitt ekki skoðað neitt nám, þótt menn vinni að vegagerð, skurðagreftri, túnavinnslu eða einhverju slíku, þótt hinsvegar megi játa, að flestri líkamlegri vinnu sé samfara einhver lærdómur.

Ég get heldur ekki fundið neitt um það í þessari „biblíu“, sem ég aðan talaði um, að þetta sé hugmyndin, sem hv. þm. Mýr. vill vera láta. Mér finnst, að þar tali miklu fremur praktískir menn, sem vilja tryggja sýslufélögunum ódýran vinnukraft til þess að leggja nauðsynlega vegi, og er það út af fyrir sig ekki nema gott frá sjónarmiði þeirra, sem vegina eiga að kosta. Ég vil leyfa mér að lesa upp það, sem þar stendur um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„— — Verkefnið fyrir skólavinnuna álítum vér yfrið og ótakmarkað, ætlum vér, að sá tími sé skammt framundan, að þjóðin geri sig ekki ánægða með minna en vélfæra bílvegi til aðdrátta, en það er hvorttveggja, að stofnkostnaður slíkra vega er mikill, og svo kemur viðhaldið árlegt og í sífellu. Sýnist því ekki annað úrræði betra eða minna duga en ein kynslóðin eftir aðra leggi hönd á verkið.

Mun í allflestum sýslum landsins eigi veita af minna en 40 mönnum sjö vikna tíma á ári hverju bara til sýsluveganna einna, og sýnist þá ekki þýðingarlaust að eiga þennan flokk ungra manna ávallt vísan. — —“

Þetta bendir á, að hér hafi mest verið hugsað um að fá ódýran vinnukraft til vegagerða, — lögþvinga til þess ákveðinn flokk manna. Það er ekkert minnzt á, að þessi vinna eigi að vera einskonar skóli í verklegum efnum. Ég held því, að sá skilningur, sem hv. flm. hélt, að leggja mætti í frv., hafi ekki við neitt að styðjast.

Hv. þm. talaði um þetta sem réttlætismál. Ég held, að þeim ummælum mætti nú alveg snúa við, því að í frv. er um hið mesta óréttlæti að ræða, enda hafa þeir, sem að frv. standa, forðast að sýna fram á það, hvaða réttlæti er í því að útiloka fullan helming af æsku landsins frá þeirri fræðslu, sem nú er með lögum veitt, nefnilega allar ungar konur. (SvbH: Það má taka það inn í frv. við 3. umr., að það nái einnig til kvenfólksins). Það hefir nú ekki bolað á því hingað til, að taka ætti það með. Og þangað til till. koma fram um það efni, getur maður ekki gert ráð fyrir, að það sé meiningin.

Meðal annars fyrir þann hugsunarhátt, sem kemur fram í því hróplega ranglæti, sem gert er ráð fyrir að beita helming allra ungmenna í landinu, tel ég óhugsandi að ganga að þessu frv.