29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

140. mál, fækkun prestsembætta

Jónas Þorbergsson:

Ég var ekki í deildinni, er hv. þm. Ak. hélt ræðu sína, en mér hafa borizt þær fréttir, að út af því, að ég sagði, að ný andleg áhrif hefðu streymt yfir landið frá því að síðasta endurskoðun á kirkjumálalöggjöfinni fór fram, hafi hann fellt fáheyrðan dóm um þessi áhrif og sagt m. a., að blöðin flyttu 50% ósannindi og 50% blekkingar og að fyrirlestur hefði verið fluttur í útvarpið, sem hefði verið að hálfu leyti klám og að hálfu leyti guðlast. (GÍ: Ég sagði samtvinningur af klámi og guðlasti). Nú, kannske annar þátturinn hafi þá verið stærri en hinn. Annars er það ekki mikill meiningarmunur. Ég ætla að láta hv. þm. Ak. vita það, að þótt hann kynni að vilja strika þessi ummæli sín út úr ræðu sinni, þá skulu þau ekki verða strikuð út úr minni.

Í þeim ummælum, sem ég lét falla, gaf ég ekkert tilefni til slíks orðbragðs. Ég lýsti þeirri breyt., sem orðið hefir hin seinni ár á samgöngum og menningarafstöðu þjóðarinnar, sem hv. þm. Ak. er að líkindum einn allra manna daufdumbur fyrir. Allir menn nema hv. þm. Ak. vita og viðurkenna, að með útvarpinu er að hefjast nýr og stórmerkilegur þáttur menningarstarfseminnar í landinu. Þótt einhverjum manni kunni að falla ekki einn eða tveir fyrirlestrar af hundrað fyrirlestrum, sem fluttir eru í útvarpið, þá er það furðulegt, að nokkur maður á Alþingi skuli leyfa sér að svívirða útvarpsstarfsemina með jafnfáheyrðum ummælum og hv. þm. Ak. gerði. Ég tel ekki ástæðu til að tala meira við þennan hv. þm. um þetta. Hans ummæli hafa sinn dóm með sér. En ég vil taka það fram, að ég mun ekki sitja þegjandi fyrir slíkum óhróðri og sleggjudómum fáfróðra og starblindra miðaldasálna um eftirtektarverðasta menningartæki nútímans, útvarpið.