02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3111)

140. mál, fækkun prestsembætta

Sveinbjörn Högnason:

Það eru nú þrír dagar síðan mál þetta var á dagskrá, og af því að hæstv. forseta þóknaðist þá að hindra það, að ég fengi að svara fyrir mig, er nokkuð farið að fyrnast yfir fyrir mér, hvernig orð féllu. — Ég vil þó svara nokkru því helzta, er fram kom, af því, sem ég ennþá man.

Hv. þm. Dal. fór nokkrum orðum um störf kirkjumálanefndar og skýrslur hennar um álit manna úti um land um þessi efni. Kirkjumálanefnd sendi fyrirspurnir til allra hreppsnefnda, sóknarnefnda, héraðsfunda og presta um það, hvort þeir teldu fært að breyta skipun sókna eða prestakalla hjá sér eða fækka prestum. Ég er mjög kunnugur því, hvernig svör féllu, þar sem ég vann úr þeim og gerði yfirlit, enda eiga hv. þdm. hægt með að kynna sér það yfirlit. Svör féllu mjög á eina leið, þá, að sem engir óskuðu eftir prestafækknn hjá sér. Fyrir kom, að bent var á, að fækka mætti um prest í nágrenninu, en þó var það undantekning. En sem enginn hélt fram, að slíkt væri hægt hjá sjálfum sér. Þegar svona eindregin svör koma frá öllum þeim, sem starfa í þágu kirkjunnar, bæði prestum og sóknarnefndum, sem hafa með höndum sérstök trúnaðarstörf innan kirkjunnar, og ennfremur samhljóða álit þeirra, sem bezt ættu að geta dæmt um störf kirkjunnar hver á sínum stað, þar sem hreppsnefndirnir eru, þá fannst meiri hl. n. ekki tiltækilegt að leggja til, að horfið yrði að því að fækka prestum, ekki sízt þegar á það er litið, að sum þau prestsembætti, sem lögð hafa verið niður eftir till. kirkjumálan. 1901, hafa verið endurreist aftur. Ég vil leggja undir dóm óhlutdrægra manna, hvort hv. flm., sem segir, að kirkjan sé hnignandi stofnun og hefir þá skoðun, að starf kirkjunnar og trúarbrögðin séu lítils virði eða jafnvel fremur til ills, sé líklegri til að vera hollráður í þessum efnum heldur en þeir menn, sem vinna að málum kirkjunnar af heilum hug og láta sig gengi hennar einhverju skipta, og þeir, sem bezta aðstöðu hafa til að dæma um starf hennar. Ég get sagt hv. flm. það, að ef hann legði eitthvað til um skipun heilbrigðismálanna með óskiptu fylgi allra lækna í landinu, myndi ég ekki ætla mér þá dul að leggjast á móti skoðun hans og læknanna, enda þótt mér sýndist annað betur mega fara, og ber ég þó góðan hug til slíkra mála, eins og hann veit um af afstöðu minni til frv. hans um þau efni hér á þessu þingi. Ég verð því að líta svo á, að þáltill. þessi sé ekki borin fram af heilum hug til kirkjunnar, og ég verð að dæma hug manna til kirkjunnar eftir því, hvernig þeir snúast við þessari þáltill.

Ég hefði viljað svara hv. þm. Dal. nokkrum orðum, þótt hv. þm. Ak. hafi þegar svarað honum rækilega. Hv. þm. Dal. var, eins og kunnugt er, samnm. minn í kirkjumálanefnd. Hann talaði um, að ágreiningur hefði komið fram í n. Ég man satt að segja ekki eftir, að neinn ágreiningur yrði, nema sá, er hv. þm. Dal. gerði. Hann kvað svörin mundi hafa verið mótuð af eigingjörnum hugsunarhætti og væri því ekki að marka þau. En það má heita einkennileg aðferð, að leita álits manna um land allt og svo, þegar næstum einróma svör koma, að virða þau að vettugi. Hann kvað þetta atriði ekki hafa verið nægilega athugað, en mér er kunnugt um, að í ekkert verkefni var lögð meiri vinna í n. en einmitt þetta.

Þá talaði hv. þm. Dal. um andlega strauma, sem nú gengju yfir þjóðina í fossaföllum, en kirkjan væri treg til að fylgjast með. Ég þykist nú vita það, að hv. þm. Dal. sé mér um það sammála, að ekki sé æskilegt, að sú stofnun, sem á að vera leiðbeinandi í andlegum og siðferðislegum efnum, láti berast með hverjum straum, sem um andlegt líf þjóðarinnar fer, eða hrekist undan hverju fossafalli þar. Þótt ýmislegt kunni að vera gott í þessum nýju straumum, er ekki hollt að vera svo leiðitamur í andlegum efnum að gína við hverri nýjung og hverjum goluþyt. Þetta veit ég, að við hv. þm. Dal. erum sammála um. Annars held ég, að fremur sé hægt að bera íslenzkri kirkju annað á brýn en það, að hún sé ófrjálslynd gagnvart nýjum stefnum. Ég held ekki, að þau nýmæli, sem að gagni hafa mátt verða, hafi gengið yfir þjóðina án þess að kirkjan hafi að einhverju styrkt þau. Ég veit um eina andlega stefnu, sem hv. þm. Dal. er hugleikin, sem hefir verið tekið með hinni mestu sanngirni og samúð af kirkjunni og hennar mönnum, svo að sú stefna hefir ekki mætt meiri samúð hjá öðrum.

Ég held einmitt, að eftir því sem andlegir straumar og fossaföll aukast, sé meiri þörf á kirkjunni. Vitanlega má alltaf deila um þá menn, sem hún hefir í þjónustu sinni. Ég hygg að engin stofnun né maður sé svo fullkominn, að ekki megi eitthvað að finna og um bæta. Og þótt gott sé, að prestum sé launað vel, þá hygg ég, að launin ein geri þá ekki fullkomna í starfinu, eins og hv. flm. virtist halda fram.

Það einhuga álit prestanna, sem fram kemur í svörum þeirra til kirkjumálanefndar, stafar ekki að öðrum hvötum en þeim, að þeir séu að vinna stofnun þeirri, kirkjunni, sem þeir starfa við, gott og hollt verk með því að láta slíkt álit í ljós. Prestum hefir löngum verið brugðið um það að þeir væru fégjarnir, svo að það hefir jafnvel verið haft að orðtaki, og dæmi eru sjálfsagt um slíkt hjá þeim eins og öðrum. En hér getur slíkt ekki komið til greina, þar sem prestum þeim, sem láta af stöðum sínum, eru boðin fríðindi, sem myndi vera beinn fjárhagslegur gróði fyrir yngri prestana að þiggja, ef þeir féllust á fækkunina. En þrátt fyrir það er það einróma álit kirkjunnar manna, að fækkun presta sé ekki æskileg breyting. Það er því ekki hægt að væna þá um eigingirni í þessu máli.

Ég vil benda á það aftur og leggja áherzlu á þá spurningu, hvort líklegra sé, að þeir, sem ekki segjast hafa trú á kirkjunni og lýsa sig andvíga trúabrögðum yfirleitt ráði hollar í þessum málum en allir aðrir, sem bæði í orði og verki hafa starfað í kirkjunni og stutt hana og hafa kosið sér það æfistarf að vinna eftir beztu getu að því, að starf hennar mætti verða sem mest og bezt.