02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (3113)

140. mál, fækkun prestsembætta

Sveinn Ólafsson:

Það liggja fyrir tvær brtt. á þskj. 589 við þessa þáltill., og ef þær verða samþ., má segja að hún skipti ekki miklu máli eða efni hennar. Verði fyrri brtt. samþ., get ég vel fellt mig við þáltill. Þá verður ekki annað eftir af henni en einföld áskorun til ríkisstj. um að grennslast eftir því, hvort hægt sé að stækka einhver prestaköll að skaðlausu, t. d. þar, sem bættar hafa verið samgöngur, brúuð vötn, eða prestum gert fært að þjóna fleiri kirkjum en áður. Ég kannast við, að það megi fækka prestum í einstökum héruðum, þeim að bagalausu. Hinsvegar er það augljóst, að eins og till. er frá hendi hv. flm., þá er hún óframbærileg. Hún ber vott um, að hann er gersamlega ókunnugur mörgum háttum sveitanna, enda er hann fyrst og fremst barn bæjarins, uppalinn í bæ og hefir dvalið í bæjum alla æfi sína og lítil kynni haft af lífinu í sveitum landsins. Ef prestum ætti að fækka eftir till. hv. flm., þá mundi það aðallega koma niður á strjálbýlustu sveitunum, en ekki bæjunum.

Það kom glöggt fram í framsöguræðu hv. flm., að hann lítur á þetta mál. frá sjónarhóli kaupstaðarbúa; hann gat þess, að þrátt fyrir það, að fólksfjöldinn hefði þrefaldazt í Reykjavík á síðari árum, þá hefði ekki þurft að fjölga þar prestum. Þetta stafar auðvitað af því, að fólksfjöldinn býr hér á litlum bletti og einn prestur getur hér, komizt yfir prestsþjónustur, sem marga presta þyrfti til að rækja í strjálbyggðri sveit. (VJ: Kirkjurnar hafa ekki verið stækkaðar). Jú, vissulega ein. Annars finnst mér hv. flm. loka að nokkru leyti augunum fyrir því, að fækkunin mundi eingöngu koma niður á sveitunum, og ekki síður hinu, að sveitafólkinu er það víða hinn mesti þyrnir í augum, að prestunum verði fækkað. Þegar leitað hefir verið eftir því hjá einstökum söfnuðum, hvort þeir vildu sleppa presti og sameinast nágrannasöfnuðum, þá hefir því nær ætíð verið svarað neitandi.

Það er nú einu sinni svo, að kirkjan er næstelzta þjóðstofnun þessa lands og helgur dómur í hugum fjölda manna. Efunarlaust veldur það hneykslunum og sársauka, að hreyft er við henni, svo sem till. þessi gerir, því að undirtónninn í henni er lítilsvirðing á starfi kirkjunnar. Ég kannast við, að starf prestanna nú er ekki eins fjölbreytt og áður var. Ýmsar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á síðari tímum, hafa fært saman starfssvið þeirra. Ég játa og tel, að æskilegt hefði verið, að þeir ættu meiri þátt í fræðslustarfi vegna barna og æskumanna en nú er orðið. Þeir hafa verið fræðarar og kennarar þjóðarinnar frá því kristni var lögtekin hér á landi, og vér megum vissul. vel una við ávextina af því fræðslustarfi. Það hefir átt sinn mikla þátt í því að varpa birtu yfir forna menningu þjóðarinnar, sem í andlegum efnum aldrei stóð að baki menningu nágrannaþjóðanna eða annara Evrópuþjóða. Prestarnir, þessir kennimenn miðaldanna, hafa ætíð verið helztu menningarfrömuðir sveitanna. Sveitirnar hafa verið og eru of fámennar til þess að hægt sé að halda þar uppi menntastofnunum, nema á stöku stöðum; og þess vegna hefir hlutverk prestanna orðið fjölþættara og vandameira. Vitanlega hefir árangurinn af fræðslustarfi prestanna verið misjafn, eins og mennirnir jafnan eru. Í þeirri stétt eins og öðrum stéttum hittast ýmist afbragðsmenn eða ónytjungar. En það verður hver að viðurkenna, sem vill líta með sanngirni á starf prestastéttarinnar í heild, að það hefir verið bæði mikið og merkilegt, sérstaklega á löngu liðnum öldum; það hefir borið glæsilegan árangur í alþýðumenntun, sem aldrei hefir staðið að baki — en oft framar — alþýðumenntun grannþjóðanna. Margir líta svo á, að með þeirri nýbreytni, sem nú hefir orðið hér á landi, að guðsþjónustum er útvarpað, þá sé bætt úr prédikunarþörf hjá fólkinu úti um sveitirnar. Ég hefi fengið nokkra kynningu af þessari nýjung og þykir ekki mikið í hana varið. Ég legg hana ekki að jöfnu við persónuleg áhrif í návist ræðumanns. Ég hefi hlustað í útvarp á þá presta, sem flytja vel ræður, og ég hefi tekið eftir því, að margir, sem hlusta, gera það ekki að jafnaði með sömu alvörugefni og fjálgleik sem í kirkju. Áhrifin eru minni og vélgengi útvarpsins vekur léttúð. Ég held því, að það séu tyllivonir, sem menn gera sér um útvarpsguðsþjónustur. Ekki vil ég þó gera lítið úr þessu menningartæki — útvarpinu —; ég veit, að það getur verið og er til nokkurrar uppbótar í fásinni sveitanna.

Hv. flm. segir, að skírn, giftingar og greftranir þurfi ekki að vera kirkjulegar athafnir. Þetta vita allir; en kirkjulega athöfnin við þessi tækifæri er orðin svo samgróin hugsunarhætti fólksins, að langir tímar líða áður en það sættir sig við að hafna þessum helgisiðum kirkjunnar. Ég er viss um, að hér eftir sem hingað til mun ástvinum og aðstandendum hinna látnu þykja það mikils um vert að hlýða á eftirmæli við jarðarfarir, jafnvel þótt þau séu fátæklega flutt, og þá auðvitað því meir sem prestarinn er meiri skörungur og fer betur með eftirmælin og ástvinakveðjurnar. Ég get meira að segja búizt við því, að þótt ekki væru nema 4 prestar á öllu landinu, eins og sumir telja nægilegt, þá mundu margir reyna að ná til þeirra við slík tækifæri. Það er vissulega að gera lítið úr trúartilfinningum fólksins, þegar gert er ráð fyrir því, að það sætti sig við að hverfa frá hinni kirkjulegu greftrunarathöfn og taki upp á að hola ástvinum sínum niður í jörðina eins og hundar væru eða hræ.

Hv. flm. segir, að barnaskírn sé ekki kirkjuleg athöfn. Það má segja, að hún sé ef til vill ekki eins hátíðleg í vitund fólksins og angurblíð eins og jarðarfarir, en samt sem áður vill allur fjöldi fólks nota þá aðferð við nafngiftir barna. Ég þekki aðeins örfáar undantekningar frá því, að prestur sé kvaddur til þess að framkvæma skírnarathafnir, sem þó er ekki að lögum skylt að gera.

Ég ætla nú ekki að tefja tímann með langri ræðu um þetta mál; ég hefi lýst skoðun minni á því og er mótfallinn síðari hluta þáltill. viðvíkjandi nýrri skipun og breyt. á hinum kirkjulegu athöfnum í borgaralegt form. Ég vil láta það vera frjálst fyrir fólkið, hvort formið það notar, og gera því léttbært að viðhafa hinar kirkjulegu athafnir.

Ef fyrri brtt. á þskj. 589 verður samþ., þá mun ég greiða atkv. með fyrri hluta þáltill. þannig breyttri, ella á móti málinu í heild.