02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

140. mál, fækkun prestsembætta

Jónas Þorbergsson:

Ég hefi víst aðeins leyfi til að gera stutta aths. og verð þess vegna að takmarka mál mitt. Ég ætla aðeins að víkja að því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði um frjálslyndi hinnar íslenzku kirkju. Ég býst við, að hann hafi rétt að mæla um það, að íslenzka kirkjan sé umburðarlyndari og frjálslyndari heldur en kirkjur margra annara þjóða. Samt sem áður var það svo, að prófessor Haraldur Níelsson, sem mun vera almennt viðurkenndur einn hinn mesti kennimaður þjóðarinnar á seinni öldum, og jafnvel hinn allra fremsti síðan Jón Vídalín leið, var í raun og veru útlagi í hinni íslenzku þjóðkirkju. Hann fékk ekki að prédika í dómkirkju landsins og stofnaði þess vegna fríkirkju. (SvbH: Hann kenndi þó öllum prestsefnum þjóðkirkjunnar). Það var ekki kirkjan, sem réð því, að hann varð prófessor við háskólann, heldur ríkisvaldið. Það er rétt, að hann fékk aðstöðu til þess að kenna íslenzkum prestsefnum við háskólann, og þaðan er runnið það frjálslyndi, er nú einkennir, sem betur fer, hina íslenzku kirkju, einmitt fyrir hans áhrif.

Þá er annað atriði í ræðu hv. 2. þm. Rang. Mér fannst hann ekki vilja viðurkenna, að þörf væri á að endurskoða prestakallaskipun landsins með það fyrir augum að bæta um leið kjör prestanna. Þetta kom til athugunar í kirkjumálan., og hv. þm. leit þá svo á, að nauðsynlegt væri að bæta kjör prestanna. En við, sem vorum í minni hl. þeirrar n., vildum aldrei ganga inn á að vinna að breyt. í þá átt, nema um leið væri prestakallaskipun landsins tekin til athugunar og henni breytt til meira samræmis við þær breyt., sem orðið hafa á högum þjóðarinnar og aðstöðu hennar til kirkjuhalds frá því, sem áður var.

Mér fannst hv. 1., þm. S.-M. vilja mæla á móti öllum breyt. á prestakallaskiptingu landsins, með þeim rökum, að kirkjan hefði átt svo mikinn þátt í menningu þjóðarinnar á liðnum öldum. Hér er enginn að mæla á móti því, að svo hafi verið, enginn að draga úr þeim heiðri, sem kirkjan á með réttu fyrir það, hvað mikinn þátt hún hefir átt í menningu þjóðarinnar. Hér er aðeins verið að fara fram á endurskoðun á prestakallaskipuninni vegna þeirra miklu breytinga, sem orðið hafa á þjóðarhögum, menningartækjum og samgöngum síðan hún var síðast endurskoðuð. Ég vona því, að menn sjái við rólega athugun, að hér er ekki um neinar ósanngjarnar kröfur að ræða. Það er ómögulegt að segja um það nú, hver niðurstaðan kann að verða; það er aðeins beðið um rannsókn á þessu efni eins og svo mörgu öðru, sem nýrrar athugunar krefst á þessum tímum.

Ég fyrir mitt leyti er fylgjandi till. eins og hún liggur fyrir. En hinsvegar lít ég svo á, að það sé svo mikilsvert, að þessi athugun fari fram á hófsamlegan hátt, að ég vil ekki stofna allri till. í hættu vegna þeirra atriða í henni, sem mestum ágreiningi valda. Þess vegna vona ég, að till. verði borin upp í tvennu lagi, ef brtt. verða ekki samþ., þar sem sumir hv. þdm. hafa lýst því yfir, að þeir gætu fallizt á fyrri hluta hennar, en ekki síðari hlutann.