02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (3118)

140. mál, fækkun prestsembætta

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég vil aðeins svara hv. 1. þm. S.-M. Hann virtist misskilja það, sem fyrir mér vakir, þegar ég stakk upp á því að taka ýms verzleg störf af prestum og fela þau verzlegum embættismönnum. Nú eru ástæður svo, að þeir, sem vilja vera lausir við presta, geta það ekki.

Þar, sem mestur jöfnuður ræður, við nafngiftir barna, er hægt að fara til prests og æskja þess, að hann skrifi nöfn í bók, en ýmsir kinoka sér þó við þessu, af ótta við það að styggja prestinn. Jöfnuður væri þarna meiri, ef aðrir embættismenn hefðu þessa skrásetningu með höndum. Ennþá meiri ójöfnuður ríkir hér um giftingar. Þeir, sem giftast borgaralega, eiga miklu erfiðara með það en þeir, sem giftast kirkjulega, því að sýslumenn og bæjarfógetar eru ekki nema 24 á landinu, en prestar 112. Þó er þetta verst, er til greftrana kemur. Mörgum er óljúft að leita til presta í slíkum efnum, en til veraldlegra embættismanna er ekki hægt að snúa sér. Nú er ekki beinlínis bannað að viðhafa í þessum tilfellum veraldlegar athafnir, en hver yrði þá að finna upp sína aðferð, og myndi flestum það óljúft í þeim kringumstæðum. Vakir það eitt fyrir mér að koma á jöfnuði í þessu efni, og því hefi ég gert uppkast að þessu frv., sem prentað er með grg. till. Má vafalaust fara margar leiðir aðrar. En eftir þessu frv. ræður þó jöfnuður. Hver, sem vill hafa prest til þess að jarða, skíra eða gifta, á nægilega auðvelt með það eftir sem áður, og ákvæði frv. geta ekki sært nokkurn mann.

Frv. hefir ekki verið vísað til umr. hér, því að það er aðeins lausleg uppástunga, en það sýnir þó vel, að enginn væri ójöfnuði beittur með þessu fyrirkomulagi, og ætti því að vera hægt að samþ. það, ef til kæmi.

Ég vil að lyktum stinga því að hv. þm. Ak., að það var seinheppilegt af honum, er hann fór að ávíta sócíalista fyrir það, þeim til svívirðu, að þeir æstu stétt á móti stétt, börn á móti foreldrum o. s. frv. Miklar og göfugar hugsjónir leiða til mikillar baráttu. Var það ekki einmitt sjálfur höfundur kristindómsins, sem sagði þannig fyrir um afleiðingar kenninga sinna: Þjóð mun rísa gegn þjóð, konungsríki gegn konungsríki, bróðir framselja bróður, börn rísa gegn foreldrum sínum o. s. frv.?