02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (3127)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Þetta mál virðist ætla að fá alveg óvanalega meðferð hér í hv. d. og hana fremur óblíða. Hv. þm. Borgf. tókst við 2. umr. að gera á frv. það skemmdarverk, að það er nú í rauninni hvorki fugl né fiskur. Og nú kemur einn af flm. þess og flytur brtt., sem umskapa algerlega þá hugmynd, sem frv. er byggt á.

Ég get vel gengið inn á það, að ýmislegt í þeim brtt., sem hér liggja fyrir frá hv. þm. Seyðf., sé vel þess vert, að það sé athugað í góðu tómi og með nokkrum fyrirvara. En ég tel varhugavert að hlaupa til að samþ. brtt., eins og nú er í pottinn búið, án þess hv. þdm. hafi fengið tíma til þess að átta sig á þeim. Ég er hv. flm. brtt. sammála um það, að það gæti verið æskilegt að lögbjóða skólaskyldu í eitt eða tvö ár eftir ferminguna. En það er breyt. á fræðslul., sem þá þyrfti að fara fram. Ég tel æskilegt, að á næstu árum, eða sem fyrst, verði fræðslulöggjöf okkar yfirleitt tekin til athugunar af nýju og að þá verði m. a. þetta athugað, hvort ekki væri heppilegt að stytta eitthvað veruna í barnaskólunum, og lögbjóða aftur skyldunám unglinga.

Hinsvegar væri með brtt. hv. þm. Seyðf. numinn burt úr frv. sá meginþáttur þess að innleiða skylduvinnu í sambandi við skólavist og í þess stað kæmu aðeins nokkurskonar atvinnubætur fyrir þá, sem skólana vilja nota. Ef þeim þóknast að vinna skólakostnaðinn af sér, þá á sýslufélagið að vera skyldugt til að veita þeim vinnu: Munu hv. þdm. sjá, hvað mjög væri raskað þeim grundvelli, sem frv. var upphaflega byggt á, með þessari breyt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég skal aðeins geta þess fyrir mitt leyti, að eins og frv. er nú, eftir það skemmdarverk, sem hv. þm. Borgf. tókst að vinna á því við 2. umr., tel ég það hvorki fugl né fisk og mjög lítils virði fyrir framgang þessa máls.

Ég býst þó við að greiða frv. atkv. mitt út úr d., án þess brtt. hv. þm. Seyðf. komi þar til greina, en ég geri það einungis í þeirri von, að hv. Ed. taki sanngjarnlega á þessu máli og færi frv. í það horf, sem það var í, þegar það kom frá hv. menntmn. þessarar hv. d.