17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Pétur Ottesen:

Það, sem fyrst blasir við þm., er þeir setjast hér í sæti sín að þessu sinni, eru þessir bunkar af skattafrv. stj., sem ýmist lúta að framlenging eldri skattalaga eða um lögfesting nýrra álaga, og er frv. Það, sem hér liggur fyrir og hæstv. fjmrh. hefir nú reifað allýtarlega, eitt af þeim.

Ég ætla, að upphæð þeirra skatta, sem landsstj. leitar nú framlengingar á, hafi árið 1930 numið kringum 3 miljj. kr. Ég sé á LR. 1930, að það ár hefir verðtollurinn numið um 2 millj. 300 þús. kr. Hitt er ekki gott að sjá, hve gengisviðaukinn út af fyrir sig hefir numið miklu, því að hann kemur fram í mörgum og óskyldum vörutegundum. Þetta frv., sem hér er til umr., fer fram á mjög mikla hækkun á bifreiðaskattinum. Ég sakna þess mjög, að í aths. þess er engu orði vikið að því, hversu hár þessi nýi skattur muni verða. mér er sagt af mönnum, sem nokkra athugun hafa gert á því, hvað skatturinn samkv. þessu frv. mundi nema, að líkindi séu til, að hann mundi nema upp undir 1/2 millj. kr., og mun það sízt of hátt áætlað. Nú ber þess að vísu að geta, að þessi skattur er ekki að öllu leyti nýr, því að bifreiðaskattur er fyrir, en hann er ekki nema lítið brot af þeim skatti, sem hér er í uppsiglingu.

Það, sem verður næst fyrir manni í þessum skattamálabunka stj., er frv. um samþykkt á fjáraukalögum fyrir árið 1930. Það nemur rúmlega 5 milljónum króna, eða nánar tiltekið 5 millj. 125 þús. kr. hér við er það þó að athuga, að í þessum fjáraukalögum er ekki tilfærður nema nokkur hluti af upphæð þeirri, sem greidd var umfram fjárlög þetta ár, því að LR. 1930 sýnir, að öll útgjöld það ár námu fullum 25 millj. 700 þús. kr., en áætlun þingsins í fjárlagafrv. fyrir það ár nam ekki nema 11 millj. 700 þús. kr.

Í þriðja lagi liggur hér fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1933. Við lestur þess kemur það ljóslega fram, hvernig hag ríkissjóðsins er komið í höndum núv. stj. Í frv. þessu eru að miklu leyti skorin niður fjárframlög til verklegra framkvæmda í landinu, til vega-, brúa- og vitabygginga og símalagninga. En þrátt fyrir þennan niðurskurð í fjárframlögum til verklegra framkvæmda, því er útgjaldaáætlun fjárlagafrv. hærri nú en nokkru sinni fyrr, og liggur það að langsamlega mestu leyti í því, hvað miklu af lögbundnum útgjöldum er búið að hlaða á ríkissjóðinn síðustu árin, og svo þeirri gífurlegu hækkun á vöxtum og afborgun af hinum stórfelldu lántökum stj. Að öðru leyti gætir þess lítið í þessu fjárlagafrv., að sparnaðar sé gætt á öðrum liðum, þó að sumstaðar megi sjá þeirrar viðleitni nokkurn vott. En það er ekki nóg, að fjárlagatölunum sé breytt í þessa átt, heldur þarf líka að gera aðrar nauðsynlegar lagabreytingar til þess að geta nokkru áorkað í þessum efnum. En slíks hefi ég ekki orðið var í þessum bunka af frv., sem stj. hefir að þessu sinni lagt fyrir þingið. En úr því að ástandið er orðið þannig, að krefjast verði slíkra ráðstafana, þá er viðleitnin ein eigi nóg, heldur verða framkvæmdir og að fylgja. Það er því ekki einhlítt að bæta á nýjum skattaalögum, eins og helzt virðist vaka fyrir hæstv. landsstj., heldur verður miklu fremur að gera raðstafanir til þess að draga úr eyðslunni. Hinsvegar er vitaskuld mjög létt fyrir hæstv. fjmrh. að sýna fram á, að ríkið þurfi aukinna tekna, ef ekkert er gert til þess að draga úr útgjöldum.

Hæstv. fjmrh. hefir nú reifað nokkuð þetta nýja frv. um bifreiðaskatt. Það er með tvennum hætti nokkuð öðruvísi en aður, er það hefir verið til meðferðar í þinginu, þó að breytingarnar séu í rauninn ekki veigamiklar. Fyrst og fremst er skatturinn lækkaður úr 6 au. á kg. niður í 4 a. á lítra. Hinsvegar er skattur á einkabifreiðum hækkaður um helming frá því, sem var í frv. því, er hér lá síðast fyrir þinginu. Ennfremur er skatturinn hækkaður að því leyti, að nú er hann látinn ná til fyrirliggjandi birgða af bílagúmmi í landinu. Að þessu athuguðu hygg ég, að skatturinn samkv. þessu frv. verði meiri og þyngri en eftir þeim frv., sem áður hafa legið fyrir þinginu um þetta efni.

Á sumarþinginu síðast báru þeir hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Eyf. fram frv. um þetta efni í hv. Ed., ég ætla að tilhlutun stjórnarinnar. Það frv. var að einu leyti frábrugðið þessu frv. og þeim frv., sem áður hafa verið flutt um þetta efni. Í því frv. var svo ákveðið um skiptingu gjaldsins milli þjóðvega og sýsluvega, að 30% skyldi ganga til viðhalds sýsluvega, og mun það hlutfall hafa verið ákveðið með hliðsjón af lauslegu yfirliti um raunverulegan viðhaldskostnað þessara vegaflokka. Nú er þessu breytt þannig, að ekki nema 10% að renna til sýsluvegaviðhaldsins. Þessi breyting er efalaust mikið til hins lakara. Þessi skipting stríðir á móti þeim sjálfsögðu sanngirniskröfum, sem hin einstöku héruð eiga til hins opinbera um þátttöku í viðhaldskostnaði sýslusveganna. Í sumum sýslum er það svo, að menn hafa lítil not annara vega en sýsluveganna. Þessir menn eiga nú eftir þessu frv. að greiða bifreiðaskatt, sem á svo ekki að verja nema að mjög litlu leyti þeim til góðs, þar sem svo lítill hluti bifreiðaskattsins á að ganga til viðhalds sýsluvega. Ég vil því mjög eindregið mælast til þess, að ef það verður ofan á á Alþingi að hækka bifreiðaskattinn, að þá verði skipting skattsins milli sýslu- og þjóðvega færð í það horf, sem hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Eyf. lögðu til í frv. sínu á síðasta þingi.

Ég sé ennfremur, að upp í þetta frv. er tekið það ákvæði, að verja skuli 20% af hvers árs tekjum til að greiða aukakostnað, er af því stafar að malbika þjóðvegarkafla. Ég veit ekki betur en að í núgildandi lögum sé svo ákveðið, að bifreiðaskattinum eigi beinlínis að verja til slíks slitlags, sem sé að malbika og púkka vegi. Hinsvegar er mér ekki kunnugt um, að unnið hafi verið að neinum slíkum sérstökum umbótum, heldur hafi þetta verið notað til algengs vegaviðhalds. Ég held því, að þetta ákvæði segi ekki mikið í sjálfu sér. En ég vil ekki undir nokkrum kringumstæðum sætta mig við annað en að hæfilegur hluti skattsins renni til viðhalds sýsluveganna, ef bifreiðaskatturinn verður hækkaður á annað borð.